Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:36:30 (6874)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er afar erfitt að ræða þetta mál í fjarveru hæstv. menntmrh. en ég fagna því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn. Ef rétt var sem sagt var um árið alloft hér í þingsölum að mál væri e.t.v. löglegt en siðlaust, þá á það tvímælalaust við nú. Ég hygg að þrátt fyrir fjarveru hæstv. menntmrh. sé óhjákvæmilegt að ræða þetta mál og reyndar þarf að taka í þessu máli ákvarðanir fyrr en síðar.
    Eins og hér hefur komið fram, þá er manni sagt upp störfum. Ég þekki ekki allar ástæður til þess en ég þekki þann mann sem það vann og ber mjög mikið traust til hans. Ég er sannfærður um það að útvarpsstjóri hefði ekki gripið til þess ráðs nema að mjög vel athuguðu máli. Var ekki rétt a.m.k. að fá mjög vel upplýst hver var ástæðan til þess að útvarpsstjóri taldi sér ekki fært að halda manni í störfum, Hrafni Gunnlaugssyni?
    Hitt held ég að sé farsi sem á ekki nokkurn sinn líka hér á landi og vildi ég gjarnan heyra ef nokkur hefur dæmi um það. Varla líður sólarhringurinn, eða stuttur tími er það, þar til framkvæmdastjóri sjónvarpsins fær skyndilega uppfyllta þá ósk, sem vissulega hafði legið fyrir, að fara strax í leyfi og maðurinn sem ekki var talinn fær af löglegum yfirmanni til að sinna yfirmennsku dagskrárgerðarinnar er gerður að framkvæmdastjóra sjónvarps. Ég vildi gjarnan heyra hvort nokkurn tíma í sögu þessa lýðveldis, a.m.k. síðustu áratugina, hefur slíkt gerst.
    Ég bað nú um orðið sérstaklega þegar ég heyrði hér frammi áðan ýmislegt fleira í þessu máli, ekki síst hluti sem komu fram t.d. í ræðu bæði málshefjanda og í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar t.d. um þennan samning sem búið er að gera við Hrafn Gunnlaugsson. Nú vil ég taka það fram að ég ætla ekki að dæma hans myndir. Ég vona að vísu að við fáum ekki að sjá marga fleiri Hvíta víkinga en ég ætla ekki að dæma um það. En er það ekki siðlaust að maður sem nýlega er búinn að ganga frá samningi um að fá greiddar fleiri milljónir fyrir mynd sem ekki er gerð gerist nú sá maður sem líklega á að meta þá mynd og ákveða hvort hún er fær til sýningar í sjónvarpinu? Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh., eða sjútvrh. sem gegnir hans störfum, hefur ekki komið til athugunar að segja upp þeim samningi? Er sá samningur ekki í raun og veru sjálffallinn? Ég vil líka spyrja: Ef það er ekki gert og kannski má fleira tína til, er maðurinn í raun og veru fær um að gegna þessari stöðu? Kemur það til greina samkvæmt almennum reglum siðferðis í landinu að maðurinn gegni þessari stöðu og verði sem sagt yfirmaður Hrafns Gunnlaugssonar um leið og hann er framkvæmdastjóri ríkissjónvarpsins?
    Ég held satt að segja að þetta sé svo alvarlegt mál að menntmn. þingsins hljóti að taka málið til ítarlegrar rannsóknar, bæði athuga aðdraganda þess og hvað olli uppsögninni og fá það leitt fram í dagsljósið og kveða upp úr með það hvort slíkur gerningur getur staðist. Ég held að það verði að eyða þessum misskilningi, bæði gagnvart alþjóð og ekki síður gagnvart starfsmönnum sjónvarpsins.