Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:40:19 (6875)


     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Hér hafa verið höfð uppi stór orð um þetta mál. Það hefur verið kallað valdníðsla. Það er vegið að atvinnuöryggi fólks og það er vegið að allri þjóðfélagsgerð okkar með því sem hér er til umræðu. En hvað er það í raun og veru sem við erum að tala um? Við erum að tala um það að menntmrh. hafi ákveðið að ráða Hrafn Gunnlaugsson tímabundið sem staðgengil framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Menn verða nú að gæta sín á því í hvaða samhengi þeir setja slík mál ef þeir telja að allri þjóðfélagsgerðinni sé ógnað með því að framkvæmdastjóri sjónvarps fari í leyfi og annar verði ráðinn í hans starf. Mér finnst það mjög fráleit kenning að með slíkri skipan, sem hér er til umræðu, hafi verið vegið að allri þjóðfélagsgerðinni.
    Varðandi spurninguna um Hrafn Gunnlaugsson og sjónvarpið og stöðu mannréttinda, lýðræðislegra stjórnarhátta og siðferðiskenndar, þá hefði ég nú frekar viljað staldra við aðdraganda þess að honum var sagt upp störfum sem dagskrárstjóri. Þar var hann kallaður fyrir í sjónvarpsþátt til þess að svara spurningum um málefni sjónvarpsins og síðan þegar hann hafði svarað þeim spurningum var honum tilkynnt að hann ætti að hætta störfum hjá sjónvarpinu fyrir þau svör sem hann gaf í þessum þætti. Það sá enginn hv. þm. sem talar um það að stjórnskipun landsins sé ögrað með því að setja mann tímabundið í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarpsins ástæðu til þess að krefjast umræðu utan dagskrár um þessi mannréttindabrot þar sem vegið er að rétti manna til þess að láta í ljós skoðanir sínar í sjálfu sjónvarpi ríkisins.
    Ég held að menn verði þegar þeir skoða þetta mál allt í heild að draga þær ályktanir sem máli skipta og komast að þeirri niðurstöðu að hér er menntmrh. að fara að lögum. Hann gerir það sem í hans valdi stendur. Hann ráðstafar þessu embætti samkvæmt því valdi sem hann hefur og það er alveg fráleitt að tala hér um valdníðslu. Hins vegar finnst mér að það mætti frekar nota það orð um brottrekstur Hrafns Gunnlaugssonar úr stöðu dagskrárstjóra sjónvarpsins.