Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:47:07 (6877)


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Sú valdníðsla sem átti sér stað þegar hæstv. menntmrh., Ólafur G. Einarsson, réði Hrafn Gunnlaugsson í stöðu yfirmanns þeirrar deildar sem honum hafði áður verið sagt upp störfum hjá er einsdæmi. Pólitískar embættisveitingar, samtryggingar og vinagreiðar eru því miður daglegt brauð á Íslandi en þessi gjörð tekur flestu ef ekki öllu fram. Því valda málavextir.
    Það má segja að nú hafi hugtakið ,,að segja upp`` fengið nýtt inntak. Að vera sagt upp merkir í þessu tilfelli að fara upp. Það sem vekur athygli í þessari gjörð Ólafs G. Einarssonar, og sem engum blandast hugur um að er runnin undan rifjum hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, er ráðningarbréf það sem Ólafur G. Einarsson sendi Hrafni Gunnlaugssyni og Hrafn skilur á þann veg að hann lýsir því yfir hvar sem því verður við komið að staða framkvæmdastjóra heyri undir menntmrh. þvert ofan í útvarpslög. Síðan berast þær fréttir að Hrafn hafi misskilið bréfið. Ólafur G. Einarsson skýrir svo í fréttum í gær hvað misskilningnum hafði valdið. Það var ekki annað að heyra á þeirri setningu sem ráðherrann fór með, að vísu eftir minni, en að Hrafn hefði haft ærna ástæðu til misskilningsins. Því vil ég skora á hæstv. dómsmrh., sem nú starfar í umboði menntmrh., að beita sér fyrir því að þetta bréf verði birt opinberlega svo allir geti séð hvað fólst í þessu ráðningarbréfi.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég dreg ekki í efa gjörð útvarpsstjóra að segja upp Hrafni Gunnlaugssyni. Ég tel að hann hafi haft til þess ærna ástæðu enda nýtur uppsögnin einróma stuðnings starfsmanna sjónvarpsins. Ég dreg heldur ekki í efa rétt hæstv. ráðherra, Ólafs G. Einarssonar, til að setja Hrafn Gunnlaugsson í starf framkvæmdastjóra. Þar hlýtur maður aftur á móti að setja spurningarmerki við siðferðilegan rétt. Dettur nokkrum manni í hug að hagur Ríkisútvarpisns sé best tryggður með því að senda aftur inn mann sem vikið var úr störfum fyrir viku síðan og það sjónarmið hafi ráðið gjörðinni? Öllu sæmilegu fólki blöskrar þessi ólýðræðislega aðferð sem virðist frekar vera gerð til þess að tryggja hag einstaklings en stofnunarinnar sjálfrar. Með þessu er hugsanlega verið að hleypa öllu í bál og brand innan Ríkissjónvarpsins. Ferskir vindar geta auðveldlega orðið að roki sem blæs öllu um koll. Þetta er beinlínis aðför að Ríkisútvarpinu og þar með lýðræðinu í landinu. E.t.v. er þetta fyrsta skrefið í þá átt að rústa þessa stofnun sem sumum skoðanabræðrum hæstv. forsrh. er svo mikið kappsmál að koma í hendur einstaklinga.
    Hver sem ætlunin er með þessari gjörð eru skilaboð hæstv. forsrh. til starfsmanna Ríkisútvarpsins, og reyndar þjóðarinnar allrar, skýr. Skilaboðin eru: Minn er mátturinn og dýrðin. Vonandi verður það ekki: að eilífu, amen.