Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:57:56 (6880)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Sá atburður sem hér er til umræðu í dag er vægast sagt aumleg uppákoma og til mikils álitshnekkis fyrir þá sem að henni stóðu. Þar eru auðvitað fremstir í flokki hæstv. forsrh., menntmrh. og Hrafn Gunnlaugsson því þetta er líka álitshnekkir fyrir Hrafn Gunnlaugsson. Með þessari uppákomu afhjúpar Flokkurinn, með stórum staf, Stóri flokkurinn, sitt sovéska eðli. Því það sem hefur komið í ljós við þessa uppákomu hér er að það er þéttriðið öryggisnet undir flokksbroddunum og mennta- og menningarstofnanir, ekki núna í fyrsta sinn, eru notaðar eins og félagsmálastofnanir fyrir menningarfrömuði og hugmyndafræðinga flokksins. Ég sagði: Þetta er ekki í fyrsta sinn því að hvaða verðleikar báru t.d. Hannes Hólmstein upp í formennsku Þýðingarsjóðs? Voru það stjórnmálaskrif hans í anda frjálshyggju sem það gerðu? Hvaða verðleikar báru Guðmund Magnússon upp í stöðu þjóðminjavarðar? Var það starfsreynsla á skrifstofu Flokksins sem það gerði? Hvaða verðleikar báru Hrafn upp í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarps? Voru það þeir verðleikar að vera sagt upp fyrra starfi hjá því sama sjónvarpi?
    Ég dreg ekki í efa rétt útvarpsstjóra til að segja Hrafni Gunnlaugssyni upp störfum. Það vita auðvitað allir hér inni og allir úti í samfélaginu að sú uppsögn hefur ekkert með málfrelsi að gera. Hrafn Gunnlaugsson hefur haft meira athafna- og tjáningafrelsi en flesta getur nokkurn tíma dreymt um að öðlast á ævi sinni.
    Útvarpsstjóri hefur látið hafa það eftir sér að þátturinn umræddi þar sem Hrafn talaði heldur frjálslega um starfsmenn sjónvarpsins hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Það gefur auðvitað til kynna að það hafi verið mikið í mælinum fyrir. Það þarf ekki nema einn gikk í hverja veiðistöð til að setja allt í uppnám og Hrafn Gunnlaugsson er einfaldlega slíkur gikkur á sjónvarpinu. Stundum er ekki önnur lausn, því miður, en að segja slíkum upp störfum.
    Ég vil segja það að auðvitað er göfugt að vera vinur vina sinna og verja málstað þeirra. En það er dómgreindarbrestur þegar valdsmenn standa ekki klárir á því hvernær vinátta þróast í spillingu eins og nú hefur gerst. Og það er vægast sagt sérkennilegt að orð Ágústs Guðmundssonar, stjórnanda hins margfræga sjónvarpsþáttar, skuli nú vera orðin að áhrínisorðum, orð hans um vináttuna. Sjálfstfl. hefur með þessari aðgerð skapað mjög sérkennilegt ástand í samfélaginu. Hann hefur skapað mikið óöryggi hjá almenningi vegna þess að hann hefur sent út þau skilaboð: Svona getum við misbeitt valdi okkar, bara ef okkur sýnist svo og þið getið ekkert gert vegna þess að við höfum lögin okkar megin. Það eru þau skilaboð sem þið eruð búin að senda út.
    Ég vil segja það við sjálfstæðisráðherrana í þessari ríkisstjórn: Komið aldrei meir í þennan sal og talið um að afnema fyrirgreiðslu og hreppapólitík. Það mun enginn trúa ykkur því að þið fallið á öllum slíkum prófum.