Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 17:01:21 (6881)


     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það er sérstakt að fylgjast hér með því hvernig sumir hv. þm. leggja kapp á það að níða niður persónu eins manns þó umdeildur sé. Það er sérstakt að hlusta á slíkt hjá hv. þm. sem eru hér inni. Menntmrh. hefur að mínu mati fyrst og fremst sent út þau skilaboð að það á ekki að reka mann úr starfi fyrir skoðanir sínar. Það er grundvallaratriði þessa máls að mínu mati, burt séð frá persónunni. Og það mun vonandi ganga fram í íslensku þjóðfélagi að opinberir starfsmenn hafi heimild til þess, sem aðrir Íslendingar, að segja sína skoðun hispurslaust, markvisst og ákveðið þó það kunni að valda deilum. Það eru mistök að reka dagskrárstjóra sjónvarpsins á þeim forsendum sem gert var. Það liggja engar aðrar forsendur fyrir en þær að maðurinn hafi talað af sér í margumræddum sjónvarpsþætti. Það hefur ekkert annað komið fram og á því verður að byggja í þessari umræðu.
    Það er full ástæða til þess að Ríkissjónvarpið sýni aftur umræðuþáttinn sem deilt hefur verið um. Það er full ástæða til þess og ég vil hvetja til þess. Það kom í rauninni ekkert fram í þessum þætti sem ætti að koma mönnum á óvart, ekkert sem er ekki þekkt í sögu Íslendinga, í fasi og framkomu og til að mynda hv. þm. sumra hér í salnum.
    Það er sagt að það eigi að hafa aðgát í nærveru sálar og má til sanns vegar færa. En það vekur furðu þegar hv. þm. Svavar Gestsson hefur á undanförnum dögum í fjölmiðlum notað feiknastór orð í þessu máli. Hann hefur kallað Hrafn Gunnlaugsson umhverfisfirrtan ( Gripið fram í: Veruleikafirrtan.) Veruleikafirrtan. Skiptir engu máli hvort það er umhverfisfirrtur eða veruleikafirrtur. Skiptir engu máli, engu máli. Skiptir engu máli hvort það er veruleikafirrtur eða umhverfisfirrtur. Látum það liggja á milli hluta.
    Hann hefur talað um ógnarástand. Hann hefur talað um spurninguna um stöðu réttarríkisins, lýðræðisins. Hvað á að kalla þá menn --- og nú spyr ég --- hvað á að kalla þá menn sem um áratuga skeið hafa leynt og ljóst varið heimsfýsn kommúnismans? Hvað á að kalla þá? ( SvG: Þeir eru umhverfisvænir, Árni.) Umhverfisfirrta eða umhverfisspillta? Menn geta leikið sér og brosað í kampinn og það er gott. Það er gott að geta gleymt. En það er gott líka að horfa til liðins tíma og fara ekki of geyst í stóru orðunum.
    Það er ógnarástand sem gildir núna í Júgóslavíu. Það er ógnarástand víða í heiminum. Það eru rétt orð um ógnarástand. Það er hlægilegt þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins gerir hv. þm. Pál Pétursson að fyrstu frétt í gærkvöldi á sama tíma, virðulegi forseti, og menn bíða frétta af mikilvægum fundi Jeltsíns og Clintons. Það er í rauninni hlægilegt og mætti margt um þetta segja. Grundvallaratriðið er það að verja skoðanafrelsið. Svo skulu menn bítast.