Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 17:06:04 (6882)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það þurfi langt að leita og mun lengra til baka en við flest munum hér sem á Alþingi sitjum að hliðstæðum atburði þeim sem hér er til umræðu. Ég hef ekki orðið var við þvílíka undrun og ótta í rauninni hjá almenningi yfir ákvörðun eins og þeirri sem nú hefur verið tekin, hneykslun og fordæmingu sem þið eflaust hafið heyrt hvar sem þið hafið komið síðan þessi ákvörðun var tekin. Menn eru að leita aftur í tímann að hliðstæðu. Í sundlaugunum í morgun var mér bent á að það mætti kannski líkja þessu eitthvað við það sem borið var á Jónas Jónsson frá Hriflu á fjórða áratugnum þegar sjálfstæðismenn töldu hann ekki með réttu ráði og heimtu hann lokaðan inni. Það má segja að við hljótum að spyrja: Eru þeir menn með réttu ráði sem taka slíkar ákvarðanir sem þessar?
    Ég lít ekki svo á að þetta mál snúist um Hrafn Gunnlaugsson. Hann er vissulega þátttakandi í þessu máli og á hlut að því en ábyrgðin er þeirra stjórnmálamanna sem taka þessa ákvörðun og gera sér ekki grein fyrir því hvað er verið að gera eða virðast ekki gera það. Taka ákvörðun sem þverbrýtur réttlætiskennd hvers einasta manns sem hefur óbrenglaða réttlætiskennd í þessu landi.
    Við heyrðum það á málssvari hæstv. menntmrh. Settur menntmrh. lagði nú ekki mjög mikið á sig til að verja þennan gerning í máli sínu áðan. Það hljóta allir að hafa tekið eftir því, enda verð ég að segja það að ég held að flokkur hans væri svolítið betur settur ef ekki hefði verið skipt um höfuð þar fyrir skemmstu.
    Ég tek eftir því að eini talsmaður Alþfl. í þessari umræðu talar um að hér sé um grundvallaratriði að ræða. Þetta snúist um grundvallaratriði. Ég er honum alveg sammála. En við spyrjum: Hvaða ályktun ætlar Alþfl. að draga af þessum atburði? Ætlar Alþfl. og ráðherrar hans að sitja undir þessu eins og ekkert hafi gerst?
    Þetta er um leið málefni Alþingis og hæstv. dómsmrh. sagði réttilega: Menntmrh. starfar á ábyrgð Alþingis. Alþingi getur svipt hann umboði sínu og þó að okkur sé það ljóst að það hitti ekki alveg réttan fyrir, að höfuðið sem ræður þessari ákvörðun er annars staðar og limirnir hafa dansað eftir því, þá hlýtur að reyna á það í sambandi við þetta mál hvort þeir ráðherrar sem að því standa hafa trúnað Alþingis og stuðning. Ofan í þetta mál verður að sjálfsögðu farið á vettvangi Alþingis. Annað getur ekki komið til greina og það hlýtur að reyna á það hvort þátttakendur í þessum leik njóta stuðnings innan veggja þessara samkomu. Þeirra er ábyrgðin. Hrafn Gunnlaugsson hefur auðvitað sýnt dálítið inn í sína sálarkima að gerast þátttakandi í þessu máli en hans er ekki ábyrgðin. Það eru þeir menn sem hér sitja í fremstu röð og einn þó öðrum fremur sem er leikstjórinn í þessu ömurlega verki.