Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 17:10:22 (6883)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu. Ég held að hún hafi sýnt sem betur fer að á Alþingi er ekki meirihlutafylgi fyrir þeirri ákvörðun sem hæstv. forsrh. tók og ég þakka honum fyrir að vera kominn í salinn þó seint sé.
    Ég vil líka þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þann snyrtilega Pílatusarþvott sem hann viðhafði hér í ræðustólnum. Hann nefndi þrjú atriði. Valdníðsluna, jú. Skynsamir og hófsamir menn fara ekki svona með vald sitt. Hann vildi bera til baka að þetta væri pólitísk íhlutun. Ég ber fyrir mig orð hæstv. menntmrh. sjálfs sem sagði að þetta væri pólitísk ákvörðun. Hann vildi meina að ekki væri vegið að atvinnuöryggi manna og ég bara spyr: Hver verður næstur? Menntmrh. hefði verið nær að fá Hrafni Gunnlaugssyni, ef hann hafði svona mikla trú á starfskröftum hans, starf í ráðuneyti sínu og setja hann yfir einhverja menningarstofnun aðra en sjónvarpið ef hann vildi nýta starfskrafta hans.
    Ég tel, hv. þm. Björn Bjarnason, að allri þjóðfélagsgerðinni sé ógnað með stjórnvaldsaðgerðum sem eru svona siðlausar.
    Ég hefði gjarnan, frú forseti, viljað halda persónunni Hrafni Gunnlaugssyni, sem ég á í sjálfu sér ekkert sökótt við, utan við þessa umræðu en hann hefur nú dregist inn í hana. Ég get ekki látið hjá líða að segja að ég tel að það bæti ekki starfsandann á sjónvarpinu að hann er settur þarna yfir til mannaforráða. Ég tel ólíklegt að það hafi góð fjármálaleg áhrif á sjónvarpinu að setja hann til starfa. Raunar verð ég að viðurkenna það að mér fannst Hrafn Gunnlaugsson dæma sig vanhæfan þegar hann heldur því fram klukkutímum saman í fjölmiðlum að hann heyri beint undir menntmrh. Þetta er maður sem á að vera kunnugur innan húss á sjónvarpinu. Hann er búinn að vinna þar í mörg ár. Og hann heldur samt að hann sé beint undir menntmrh. og ekki undir útvarpsstjóra. Mér finnst þetta dómgreindarleysi. Það virðist vera að hann þekki hvorki útvarpslögin né skipuritið.
    Ég ætla ekki að fara að gera þennan sjónvarpsþátt að miklu máli. Mér finnst að þó að Hrafn Gunnlaugsson svívirði samstarfsmenn sína og undirmenn, þá sé það honum einum til skammar. Þeir standa jafnréttir eftir þó að hann haldi því fram að tökumennirnir séu óhæfir og þarna sé ómögulegt fólk. Þeir standa alveg jafnréttir fyrir því vegna þess að þjóðin veit og hefur séð verk þessara manna og veit að þeir eru starfi sínu vaxnir.
    En Hrafn gerði annað í þessum sjónvarpsþætti en lasta samstarfsfólkið. Hann boðaði gerspillta stjórnarhætti á sjónvarpinu. Hann kvaðst ætla að afhenda vinum sínum verkefnin sem áður hafa verið unnin af þeim sem hann ætlaði að reka. Hann ætlaði að afhenda vinum sínum verkefnin. Hvað er þetta annað en spilling af verstu gráðu? Hann virðist leggja einhverja sérstaka nýja merkingu í útboð. Útboð Hrafns, ef ég hef skilið hann rétt í sjónvarpinu, voru í því fólgin að hann hringdi í vini sína og rabbaði við þá í símann og valdi svo einn af, minnir mig, fjórum til að vinna verkefnin.

    Hann sagðist ætla að semja handritin sjálfur. Hann hefur samið handritið að Hvíta víkingnum. Og hvað er svona heimsfrægur kvikmyndasnillingur að gera í kontóristastarfi á sjónvarpinu? Af hverju er verið að sækjast eftir því? Ekki fer Ingmar Bergmann að sækjast eftir stól Péturs Guðfinnssonar til að leysa hann af í eitt ár.
    Hann hótaði líka, frú forseti, pólitískri íhlutun innan sjónvarpsins. Ef breytingarnar yrðu ekki gerðar innan frá, þá kæmu þær utan frá. Sú pólitíska íhlutun lét ekki á sér standa. Hún er komin fram. Þeir eru ekki svona fljótir til þegar þeir eru að bjarga atvinnulífinu í landinu eins og þegar þeir eru að bjarga atvinnu Hrafns Gunnlaugssonar. Ríkisstjórn ráðdeildar og sparnaðar, sem situr hér á bekkjunum, ætti að hugsa um kostnaðinn af pólitískri aðgerð. Ég verð að krefjast þess, frú forseti, að forseti beiti sér fyrir því að Ríkisendurskoðun fari yfir fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við sjónvarpið á undanförnum árum og geri það hér með formlega. Og svo að lokum, frú forseti, guði sé lof fyrir það að þessir menn hafa ekki her.