Vörugjald af ökutækjum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 18:19:46 (6888)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. Ég tel að það hafi tekist um það ágæt sátt í efh.- og viðskn. Það hafa verið gerðar allverulegar breytingar á því sem allar eru til mikilla bóta. Það sem mikilvægast er er að það hefur átt sér stað önnur flokkun á bifreiðum en upphaflega var gert ráð fyrir. Þessi flokkun er á margan hátt eðlilegri og kemur til móts við ýmis sjónarmið sem komu fram í meðferð nefndarinnar. Ég vil jafnframt taka það fram að ég tel það eðlilega breytingu að veita fjmrh. heimild til að lækka tolla á leigubifreiðum. Er það að sjálfsögðu gert í trausti þess að sú heimild verði nýtt. Það er ekki eðlilegt að það sé hærri tollur á leigubifreiðum en hópferðabifreiðum sem taka 10--17 farþega. Slíkar leigubifreiðar, sem taka 10 farþega, færast í vöxt og er orðið algengt að sjá slíka bíla á götum borgarinnar og eðlilegt að slíkir bílar séu í svipuðum tollflokki og þeir sem færri farþega taka. Hér er um mikilvæga atvinnustarfsemi að ræða og eðlilegt að samræmi ríki í þessu sambandi ekki síst með tilliti til þess að þessi atvinnutæki eru í innbyrðis samkeppni að því er varðar ferðamenn og síðan almenna flutninga.
    Ég vildi aðeins geta þess líka að með þessu frv. er opnuð heimild til að lækka tolla á beltabifhjólum. Það hafði verið gert ráð fyrir því áður að sú heimild næði aðeins til vélsleða sem eru 700 kg og stærri. En með þessari breytingu opnast heimild fyrir fjmrh. til að lækka tolla á beltabifreiðum sem eru léttari. Það hefur ekki verið gengið frá því endanlega hvernig þessi heimild verður notuð en það sem haft var

í huga í nefndinni er að geta lækkað tolla til þeirra aðila sem búa við mjög mikla einangrun og eru háðir slíkum tækjum í samgöngum. Allvíða á landinu eru menn gjörsamlega háðir því að hafa snjósleða, bæði til að flytja fólk og ná í ýmis aðföng.
    Það er að sjálfsögðu nokkrum erfiðleikum háð að greina í milli þeirra sem nota þessi tæki sér til ánægju og til að þeysa um landið upp á sport og eðlilegt að það sé reynt að greina í milli annars vegar þess fólks og þeirra sem verða að nota þessi tæki vegna erfiðra aðstæðna. Þar ber fyrst að nefna björgunaraðila í landinu en það er líka nauðsynlegt að taka tilliti til þeirra sem búa við verulega einangrun. Ég vænti þess að fjmrn. sjái sér fært að ganga frá reglum um þetta mál sem allra fyrst.
    Ég vildi svo aðeins að lokum fagna þeim breytingum sem hafa orðið á frv. Ég tel mig geta stutt það í öllum meginatriðum og tel að samstarf í nefndinni hafi verið mjög gott um þetta mál.