Tollalög

153. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 19:04:52 (6902)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég kynni brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við 2. gr. frv. Þetta er tæknileg brtt. Í seinni málsl. 1. mgr. 2. gr. er fjallað um vörur sem eigi heyra undir EES-samninginn eða aðra fríverslunar- og milliríkjasamninga og í þeim málslið er fjallað um hvers konar viðmiðunarkerfi eigi að ríkja vegna verðjöfnunar á þessum vörum.
    Í frumvarpstextanum er rætt um að vísa þar í viðmiðunarkerfið sem skilgreint er í EES-samningnum en það er óþarfi vegna þess að þarna er um vörur að ræða sem heyra alls ekki undir EES-samninginn eða aðra fríverslunar- og milliríkjasamninga sem við erum aðilar að. Því er lagt til að í stað þess að miða við slík viðmiðunarkerfi, sem skilgreind eru í samningnum sé einfaldlega miðað við mismun á verði hliðstæðrar vöru á heimsmarkaði og verði hinnar innlendu vöru eftir því sem við á hverju sinni.