Skipulagslög

153. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 19:12:30 (6904)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964, ásamt síðari breytingum.
    Þetta frv. er flutt til að flýta því að gerð verði heildstæð skipulagsáætlun fyrir miðhálendi landsins en mjög brýnt er orðið að afmarka hálendið og setja reglur um skipulags- og byggingarmál þar. Frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendinu var lagt fram á Alþingi á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Miklar athugasemdir komu þá fram við það frv. frá fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem telja sig hafa lögsögu á miðhálendinu en þeir töldu að verið væri að skerða rétt sveitarfélaganna. Einkum var andstaða við það ákvæði frv. að setja á fót sérstaka stjórnarnefnd skipulags- og byggingarmála fyrir svæðið.
     Ágreiningur virðist ekki ríkja um að hefja beri gerð heildstæðra skipulagsáætlana fyrir miðhálendi landsins og að virkt eftirlit þurfi með byggingarframkvæmdum þar og mannvirkjagerð hvers konar. Af þessum ástæðum boðaði ég til fundar 19. nóv. 1992 með fulltrúum þeirra sveitarfélaga, sem lögsögu eiga að miðhálendi landsins, til að ræða hvernig koma megi á samræmdri stjórn skipulags- og byggingarmála á svæðinu. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um breytingar á fyrra frumvarpi í ljósi þeirrar óánægju sem fram var komin. Þá var einnig kynnt sú hugmynd að leggja frumvarpið ekki fram að nýju en leita í þess stað lausna innan ramma gildandi laga. Fram kom á fundinum að sveitarstjórnirnar töldu sig færar um að annast skipulags- og byggingarmál á hálendinu á sama hátt og þær önnuðust þennan málaflokk í byggð. Lögðu sveitarstjórnarmenn á það ríka áherslu að frumvarpið yrði ekki lagt fram að nýju á Alþingi, en í þess stað yrði skoðaður sá möguleiki að gera heildstæða skipulagsáætlun fyrir miðhálendið á grundvelli gildandi skipulagslaga.
     Það virðist eðlilegt að slíkt sé gert á grunni lagagreina um samvinnunefndir um skipulagsmál nærliggjandi sveitarfélaga, en slíkar skipulagsáætlanir hafa hlotið nafnið svæðisskipulag og er unnt með vísan til 16., 17., og 18. gr. gildandi skipulagslaga að leita staðfestingar ráðherra á slíkum áætlunum. Til þess að taka af allan vafa um slíka málsmeðferð, m.a. í ljósi þess að skipulag miðhálendis mun aðeins taka til hluta þeirra sveitarfélaga sem land eiga að hálendinu, er nauðsynlegt að gera þá breytingu á gildandi lögum sem lögð er til í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Í 3. gr. skipulagslaga er svohljóðandi ákvæði um skipan samvinnunefnda um gerð svæðisskipulags, með leyfi forseta:

    ,,Nú hagar svo til, að skipulag í einu sveitarfélagi er, að dómi skipulagsstjórnar, svo háð skipulagi í nærliggjandi sveitarfélagi, eða í fleiri nærliggjandi sveitarfélögum, að nauðsyn beri til þess að gera að einhverju leyti sameiginlegt skipulag fyrir þessi sveitarfélög, og getur ráðherra þá ákveðið, að samvinnunefnd verði skipuð til þess að gera tillögur um skipulag, sem að þessu leyti er sameiginlegt fyrir sveitarfélögin. Sveitarstjórnir þær, er hlut eiga að máli, skipa hvor eða hver um sig tvo menn í samvinnunefnd, en skipulagsstjórn skipar einn mann í nefndina, og skal hann vera formaður hennar.
    Skipulagsstjórn skal aðstoða nefndina við störf sín eftir þörfum.
    Samvinnunefnd getur með samþykki skipulagsstjórnar leitað þeirrar sérfræðiaðstoðar, sem þörf krefur.
     Ráðherra setur nefndinni starfsreglur og ákveður kjörtíma hennar, að fengnum tillögum skipulagsstjórnar.``
     Þar sem 40 sveitarfélög liggja að miðhálendinu mundi þetta þýða að samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags á miðhálendinu yrði skipuð 81 fulltrúa. Það segir sig sjálft að svo stór nefnd mundi eiga í erfiðleikum með að koma málum í framkvæmd. Væri hins vegar unnt að skipa slíka samvinnunefnd með einum fulltrúa frá hverri héraðsnefnd sem hlut á að máli yrði öll framkvæmd viðráðanlegri en ella. Héraðsnefndir þær sem hlut eiga að máli eru tólf talsins: Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Mýrasýslu, Skagfjarðasýslu, Eyjafjarðarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu, Múlasýslum, Austur-Skaftafellssýslu, Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu.
     Til þess að gera þessa leið mögulega þarf að breyta 3. gr. núgildandi skipulagslaga þannig að heimilt sé að í samvinnunefnd um svæðisskipulag sitji fulltrúar héraðsnefnda í stað sveitarstjórna og er það lagt til í frumvarpi þessu.
     Verði þetta frv. að lögum mun það verða eitt af fyrstu verkum samvinnunefndar að skilgreina mörk miðhálendisins á þeim forsendum að þau miðist í aðalatriðum við línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta. Þá þarf nefndin einnig að skýra að hvaða leyti svæðisskipulag miðhálendisins sé frábrugðið hefðbundnu svæðisskipulagi sem nær til alls lands þeirra sveitarfélaga sem að því standa. Svæðisskipulag miðhálendisins mundi aðeins ná til þess svæðis sem er ofar byggð, þ.e. ofan heimalanda. Enn fremur kæmi vel til greina að nefndin gerði tillögur um mörk sveitarfélaga á miðhálendinu í þeim tilvikum þar sem mörk eru á einhvern hátt óljós.
    Eins og fram kemur í athugasemdum voru í febrúar 1990 prentuð sem handrit drög Landmælinga Íslands og embættis skipulagsstjóra að skiptingu landsins alls í sveitarfélög. Áður hafði ekki verið gerð tilraun til að skipta öllu miðhálendinu milli sveitarfélaga. Verkefni samvinnunefndarinnar er m.a. að yfirfara þessi drög með tilliti til miðhálendisins með það að markmiði að fá niðurstöður sem hægt væri að staðfesta á tilskilinn hátt að fenginni umsögn þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.
    Í svæðisskipulagi fyrir miðhálendið þarf að kveða á um þá þætti sem snerta svæðið í heild og tengsl við aðra landshluta. Þar þarf að taka afstöðu til skipulags á friðlýstum svæðum og öðrum svæðum og stöðum þar sem slíkt er talið nauðsynlegt vegna náttúrfars, söguhelgi og áningar ferðamanna. Þetta á bæði við um staði sem nú eru mikið sóttir og hugsanlega aðra staði. Sérstaklega þarf að afmarka þau svæði þar sem gera verður deiliskipulag áður en til framkvæmda kemur. Þar verður nánar kveðið á um fyrirkomulag byggðar, fjallaskála, virkjanamannvirki o.fl.
    Farið yrði með tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins samkvæmt gildandi skipulagslögum og reglugerð. Þegar samvinnunefnd hefur lokið gerð tillögu að svæðisskipulagi ásamt rökstuddri greinargerð mun tillagan verða send hlutaðeigandi sveitarstjórnum til umfjöllunar. Ef sveitarstjórnir vilja gera athugasemd við tillöguna senda þær hana samvinnunefnd sem vinnur úr þeim athugasemdum sem berast. Samvinnunefnd óskar að því loknu eftir heimild skipulagsstjórnar til að auglýsa tillöguna skv. 17. og 18. gr. skipulagslaga. Hafi einhver sveitarstjórn gert breytingartillögu sem samvinnunefnd getur ekki fallist á boðar skipulagsstjórn til fundar með samvinnunefnd og fulltrúum þeirrar sveitarstjórnar sem í hlut á. Náist ekki samkomulag ákveður skipulagsstjórn hvort tillaga verður lögð fram. Áætlað er að kostnaður við gerð hálendisskipulags verði u.þ.b. 15 millj. kr. og skiptist á þrjú ár. Þar að auki er reiknað með að kostnaður vegna einstakra sérverkefna (kortagerð, gróðurrannsóknir o.fl.) sem vinna þyrfti í tengslum við skipulagsgerðina gæti numið 5 millj. kr.
     Heildarkostnaður yrði samkvæmt því 20 millj. kr. eða 6,7 millj. kr. á ári í þrjú ár. Ef reiknað er með að ríkið greiði helming kostnaðar á móti héraðsnefndunum yrði kostnaður á hverja héraðsnefnd 833 þús. kr. eða 277 þús. kr. á ári í þrjú ár.
    Í þessu frv. er einungis fengist við skipulagsþátt vandans en eftir er að leita leiða til að styrkja byggingareftirlit á hálendinu. Í gildandi byggingarlögum er heimildarákvæði um svæðisbyggingarnefndir sem einungis er nýtt mjög afmarkað.
    Þá kemur auðvitað til greina til að styrkja þetta eftirlit að sveitarfélög myndi svæðisbyggingarnefndir á þessu landsvæði. En fyrsta skrefið til að koma þessum málum í gott horf er að hefja vinnu að skipulagsgerðinni og til þess er þetta frv. flutt.
    Eins og ég sagði áðan virðist ekki vera ágreiningur um að flýta beri eins og unnt er skipulagsgerð fyrir miðhálendið og finna þeirri vinnu lögformlegan farveg.
    Í frv. er lagt til samkvæmt óskum þeirra sveitarstjórna sem í hlut eiga að gera sérstaka breytingu

á gildandi skipulagslögum. Ætla má að þessi breyting geti tekið gildi talsvert áður en ný skipulags- og byggingarlög geta orðið að veruleika. Frv. til nýrra skipulags- og byggingarlaga er nú til meðferðar í umhverfisnefnd en það er svo viðamikið mál að ég tel ekki horfur á að nefndinni gefist tími til að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok á hinu háa Alþingi því það mál þarf auðvitað ítarlega umfjöllun og þess vegna er þetta frv. nú flutt um breytingu á gildandi lögum þannig að hrinda megi þessu máli af stað.
    Frumvarpið, eins og það birtist hér, var sent skipulagsstjórn ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þeim 40 sveitarstjórnum sem lögsögu eiga á miðhálendinu til umsagnar. Athugasemdir við þá lagabreytingu sem lögð er til bárust aðeins frá þremur sveitarstjórnum, aðrir samþykktu breytingartillöguna eða sáu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við hana.
    Ég hef ástæðu til að ætla, virðulegur forseti, að um þetta mál, sem olli nokkrum deilum í fyrra, geti náðst bærilegur friður með því að fara þessa leið. Þess vegna m.a. hefur verið haft þetta ítarlega samráð við sveitarfélögin á þeim fundi sem ég vitnaði til og með annar kynningu málsins.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. umhvn.