Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:40:38 (6905)

     Ingibjörg Pálmadóttir:
    Virðulegi forseti. Ég neyðist til að gera athugasemd við stjórn þingsins í gær. Þannig var að í lok

umræðu um Sementsverksmiðju ríkisins bað ég um orðið en hæstv. forseti tjáði mér þá að ég væri of sein og ég sætti mig við það þar sem hér var að hefjast utandagskrárumræða og gerði ekki neina athugasemd við það. En að lokinni utandagskrárumræðu spurði ég hæstv. forseta að því hvort fram færi atkvæðagreiðsla um málið því ég hugðist gera grein fyrir atkvæði mínu og að sjálfsögðu að greiða atkvæði. Þá skildist mér á forseta að hér færu ekki fram atkvæðagreiðslur þannig að ég var úti á minni skrifstofu og uggði ekki að mér meðan atkvæðagreiðslan fór fram. Þetta finnst mér ekki gott mál og vil gera athugasemd við það.
    Ég býst alls ekki við því að hæstv. forseti hafi vísvitandi ætlað að villa um fyrir þingmönnum en samt sem áður gerir þetta það að verkum að ég verð að gera athugasemd við þetta. Ég sé líka að fleiri hafa misskilið þetta því hér kvaddi sér hljóðs eftir atkvæðagreiðslu í gær hv. 3. þm. Vesturl. og hann taldi sig vera á mælendaskrá og uggði ekki að sér frekar en ég þannig að það er augljóst að hér er maðkur í mysunni.