Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:41:55 (6906)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í gær vegna þessara mála. Það er þinginu og okkur öllum til algjörrar skammar hvernig þessi atkvæðagreiðsla fór fram hér í gær. Fjöldi þingmanna var í þingflokksherbergjum og mætti ekki hér í salinn. Ég geri mér vel grein fyrir því að það var hringt hér til atkvæðagreiðslu og ætla ekki að halda því fram að það hafi ekki verið gert. Hins vegar uggðu menn ekki að sér og í þessu tilfelli var það þannig að ég taldi að ég væri á mælendaskrá og hafði reyndar látið þess getið hér í umræðum sem fóru fram um þingsköp að ég hefði hugsað mér að taka til máls og taldi að ég hefði verið settur á mælendaskrá enda sagði starfandi forseti úr ræðustóli áður en hann frestaði atkvæðagreiðslunni að enn væru nokkrir á mælendaskránni. Þannig var ég í þeirri stöðu að ég taldi mig eiga að fá orðið næst þegar málið yrði tekið til umræðu og mér yrði þess vegna gert viðvart vegna þess að ég var í húsinu af því að sú venja hefur verið, a.m.k. það ég veit hér í Alþingi, að þeir sem eru á mælendaskrá fá aðvörun ef þeir eru í húsinu og mál er á dagskrá sem þeir ætla sér að taka til máls í.
    Mér þykir þetta mjög miður. En það sést best á því hvernig þessi afgreiðsla fór fram að það hafa margir verið í þeirri stöðu að átta sig ekki á því hvað hér var um að vera því að í þessu máli tók þátt í atkvæðagreiðslu 31 þingmaður frá stjórnarflokkunum en átta þingmenn frá stjórnarandstöðunni og flestir af þeim sátu hér í þingflokksherbergjum þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Auðvitað er þetta eitthvað sem við verðum að læra af hér í þinginu að svona má ekki standa að málum. Atkvæðagreiðslan um Sementsverksmiðju ríkisins hér í gær gefur engan veginn þá mynd sem hún ætti að gefa af afstöðu þingmanna.