Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:44:14 (6907)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram hjá þingmönnum. Þegar þingflokksformenn hittust í gær var gengið þannig frá málum að það yrði haldinn fundur á milli kl. sex og sjö og þá fyrst og fremst til að afgreiða tvö frv. um tolla og vörugjöld. Ég stóð í þeirri meiningu að það ætti ekki að afgreiða önnur mál en þessi tvö. Þess vegna lét ég þingkonur Kvennalistans ekki vita af öðru en þeirri atkvæðagreiðslu. Við vorum aðeins tvær hér í salnum. Ég gerði reyndar ekki athugasemd í gær, sem ég hefði kannski átt að gera því það var reyndar orðið um seinan að kalla aðra til. Þannig hafa hér átt sér stað leiðinleg mistök og kannski misskilningur sem við getum auðvitað ekki annað gert en reynt að koma í veg fyrir að endurtaki sig.