Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:45:24 (6908)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að hér hafi orðið einhver mistök í gær eða misskilningur. En það er auðvitað allt of djúpt í árinni tekið að halda því fram að hér sé einhver maðkur í mysunni. Ég var í salnum í gærdag þegar umræðu lauk um þetta mál. Henni lauk þannig að hæstv. iðnrh. sagði nokkur orð og síðan urðu andsvör eftir ræðu hans. Ég man ekki betur en hv. 3. þm. Vesturl. hafi tekið þátt í þeim andsvörum. Síðan tilkynnti forseti og það var ekki starfandi forseti, það var sá forseti sem hér situr núna, forseti Alþingis, sem lýsti því þá yfir að andsvörum væri lokið, fleiri hefðu ekki kvatt sér hljóðs en atkvæðagreiðslu yrði frestað þar til síðar á fundinum. Þannig var nú þetta. Síðan hófst fundur eins og búið var að ákveða kl. sex. Hér voru umræður í um það bil hálftíma eða svo áður en hringt var til atkvæðagreiðslu og tekin fyrir þau mál sem þá höfðu verið rædd og sú atkvæðagreiðsla sem beðið hafði frá því fyrr um daginn. Þannig átti mönnum auðvitað að vera ljóst að hér var fundur í gangi og atkvæðagreiðslur fram undan um þessi tvö mál sem þá var orðið samkomulag um að ljúka og sömuleiðis það mál sem hafði beðið frá því fyrr um daginn og var til 3. umr. Hér glumdu atkvæðagreiðslubjöllurnar, eins og allir vita sem voru í húsinu, langa lengi áður en atkvæðagreiðslan hófst. Hér hafa því orðið mistök en ég held að þau séu aðallega hjá þeim sem ekki sinntu kalli þegar hringt var til atkvæðagreiðslu.