Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:47:37 (6910)

     Ingibjörg Pálmadóttir:
    Virðulegi forseti. Það var þannig í gær að það var ýmist verið að taka þetta mál af dagskrá og setja það á dagskrá þannig að þetta var fremur ruglingslegt. En það er kannski ekki aðalatriðið. Ég kom hér vegna þess að formaður þingflokks Sjálfstfl. kvaddi sér hljóðs og talaði um það að þingmenn hafi farið hér í andsvör við hæstv. iðnrh. í lokin á umræðunni og það er alveg hárrétt. Og það var vegna þess að ég bað um orðið og mér var sagt að það væri búið að loka mælendaskránni og ég leit ekki í þingsköpin og þáði þess vegna að fara í andsvör við ráðherrann. Það er þess vegna sem ég er að gera athugasemd við þetta. En það eru auðvitað mistök sem hér hafa átt sér stað í sambandi við atkvæðagreiðsluna. Þetta eru auðvitað mistök, bæði okkar, ég tek það skýrt fram, að vera ekki hér stanslaust inni í salnum sem við eigum að sjálfsögðu að vera, en við erum að sinna ýmsum öðrum störfum. En það er erfitt að sætta sig við þessi mistök og það er erfitt að sætta sig við þessa stjórn þegar ýmist er verið að setja mál á dagskrá eða taka það af dagskrá. Það er erfitt að fylgjast með því.