Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:51:26 (6913)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Nei, það er ekki hægt enda var mælendaskrá ekki lokað. Hins vegar er forseti búin að skýra hv. 2. þm. Vesturl. frá því að forseti hefði svarað henni hér --- þegar þingmenn koma til forseta þá er nú hvíslast á --- og upplýst hana um að við yrðum að hætta umræðunni þar sem utandagskrárumræða ætti að hefjast á þeirri stundu. Í því felst kannski misskilningur hennar á orðum mínum. En það er ekki hægt að loka mælendaskrá og það hefur forseti aldrei gert. Það var enginn á mælendaskrá þegar þessari umræðu lauk.
    Hins vegar gerði hv. 3. þm. Vesturl. athugasemdir í þingskapaumræðu í gær um það að hann taldi sig vera á mælendaskrá er umræðunni var lokið. Hann var ekki á mælendaskrá samkvæmt þeim blöðum sem forseti hafði á borði sínu og forseti gat þar af leiðandi ekki gert annað en það sem ber að gera, að ljúka umræðu og boða til atkvæðagreiðslu. Þannig stendur á þessum málum. Þarna hefur eitthvað farið á milli mála sem forseti veit ekki af hverju stafar.