Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:59:18 (6919)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnson hefur flutt hér í þessum þingsal. Það er alveg með ólíkindum að þurfa að hlusta á það frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og reyndar ýmsum fleiri þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þingmenn stjórnarliðsins séu yfirleitt ekki hér í salnum. En það er kannski skýring á þessu, virðulegi forseti. Hún er sú að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú meira og minna allan þennan vetur verið í frakt á milli Íslands og Ameríku þar sem hann hefur verið að bjarga heimsfriðnum. Hann hefur kannski bara ekki verið hér og ekki tekið eftir því hversu vel þingmenn stjórnarliðsins hafa mætt hér og hversu illa þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa stundum mætt.