Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 14:02:07 (6921)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að taka þátt í karpi um það hvort stjórnarliðar sitji hér betur en stjórnarandstaðan á þingfundum. Úr því að þetta umræðuefni er komið á dagskrá þá get ég látið frá mér þá fullyrðingu að ég hygg að sá þingmaðurinn sem situr fastast hér í salnum sé alveg óumdeilt úr stjórnarliðinu. Þar á ég við hv. 4. þm. Reykv., Eyjólf Konráð Jónsson, sem situr hér undantekningarlaust alla þingfundi eða undantekningarlítið og mætti hann vera öðrum þingmönnum fyrirmynd að því leyti til.
    En ég hef að vísu tekið eftir því að stöku þingmenn vantar alloft. En ef menn vilja kanna þetta vísindalega, sérstakir áhugamenn um viðveru þingmanna eins og þeir sem hér hafa verið að tala á undan mér, þá finnst mér að þeir gætu farið og athugað gerðabækur þingnefnda. Þar sést hverjir eru mættir á nefndafundum og hverja vantar á nefndafundi. Þannig mætti nú kannski fá yfir þetta viðhlítandi ,,statistik``.
    Þetta er ekki mergurinn málsins heldur hitt að hér varð það óhapp í gær að það var afgreitt við 3. umr. frv. sem ekki var fullrætt, þ.e. það voru einhverjir þingmenn sem áttu eftir að tjá sig um málið. Það er mjög óheppilegt að þetta skyldi koma fyrir. Ég held að það hafi ekki verið neinn maðkur í mysunni. Forseti vill að sjálfsögðu keyra þetta mál áfram eins og önnur, en ég hef ekki neina ástæðu til þess að væna hana um það að henni hafi gengið eitthvað annarlegar hvatir til að drífa málið í atkvæðagreiðslu en þarna varð óhapp sem ég sé ekki í fljótu bragði hvernig auðvelt er að bæta úr af því að málið var afgreitt við lokaafgreiðslu í þinginu. En maður verður bara að vona að þetta komi ekki fyrir aftur og skoðun þessara þingmanna á málinu er náttúrlega ljós, þeirra sem ætluðu að tala. Þeirra afstaða er ljós en ég hygg að þeirra afstaða hefði út af fyrir sig ekki haft áhrif á framgang málsins. Það hefði verið samþykkt jafnt fyrir því þó að andmæli þeirra hefðu komið hér fram í ræðustólnum, réttmæt andmæli vil ég bæta við.