Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 14:06:14 (6923)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Geir Haarde var eitthvað að draga í efa að þetta væri með sérkennilegum hætti, þá bið ég nú þingmanninn að átta sig á því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var að segja að forsetadæmið hefði örugglega ekki látið atkvæðagreiðsluna fara fram ef það hefði vantað 2 / 3 þingmanna stjórnarliðsins. En þó það vantaði 2 / 3 þingmanna stjórnarandstöðunnar, og þó þeir væru í húsinu og merktir á skerminn hjá forsetanum þannig að þeir væru í húsinu, var atkvæðagreiðslan engu að síður látin fara fram.
    Ég stóð hins vegar aðallega upp til þess að segja við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann ætti að fara sér rólega. Þetta var ágætis sprettur hjá honum í gær og óþarfi að vera að eyðileggja það með slíkum ræðuhöldum hér í dag. Ég er alveg reiðubúinn að láta þingmanninn gera samanburð á því hve marga daga ég hef verið fjarverandi hér í vetur og hve marga daga þingmenn Alþfl. hafa verið fjarverandi. Ég hugsa að ég hafi verið minna fjarverandi en allir þingmenn Alþfl. nema ef vera skyldi formaður fjárln. Ég er alveg reiðubúinn til að láta gera þann samanburð. Og fyrr en hann er gerður held ég nú að formaður þingflokks Alþfl. ætti að spara sér ómerkilegar aðdróttanir af því tagi sem hann flutti hér áðan.