Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 14:07:37 (6924)


     Geir H. Haarde :
    Það eru nú ýmsir, virðulegi forseti, sem ættu að spara sér í þessari umræðu og almennt ómerkilegar aðdróttanir og þá ekki síst hv. síðasti ræðumaður. Hann spurði mig að því hvort ég teldi að atkvæðagreiðsla hefði verið látin fara fram hér í gær ef 2 / 3 stjórnarliðsins hefði vantað. Ég fullyrði að þeirri atkvæðagreiðslu hefði verið frestað ef einhver hefði beðið um það. Það voru hér inni einhverjir úr stjórnarandstöðunni. Það eru a.m.k. átta manns sem sögðu nei. Því var ekki beðið um frest á atkvæðagreiðslunni? Eru þess dæmi að forseti hafi hafnað slíku ef fram hefur komið? Ég hef ekki orðið var við það. Þetta fellur allt um sjálft sig, hv. þm.