Heilbrigðisþjónusta

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:51:15 (6938)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í mál hæstv. heilbr.- og trmrh. hér áðan þá er á ferðinni frv. til laga um breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Frv. þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um það að ræða að verið er að styrkja lagalega stöðu Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík sem ég tel vera afskaplega mikilvægt. Í öðru lagi er með þessu frv. verið að setja af með lögum formenn fjögurra heilsugæslustöðva í Reykjavík. Það mál snertir hins vegar þann sem hér stendur nokkuð. Hann mun ekki gera athugasemd við það. Auðvitað getur ráðherra gert það með þeim hætti sem honum hentar best og ef hann telur sig þurfa að gera það þá er ég tilbúinn til þess að taka þátt í því með hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Þær hugmyndir, sem hér eru uppi í 1. gr. frv. um að styrkja lagalega stöðu Heilsuverndarstöðvarinnar, eru niðurstaða af löngu nefndarstarfi sem fram hefur farið á vegum heilbrrn. Þær hugmyndir margar sem þar koma fram tel ég að séu mjög til bóta og tek undir það og er ég sannfærður um að þegar og ef af því verður að þetta frv. nær fram að ganga, þá muni það styrkja allt heilsuverndarstarf í landinu.
    Með frv. er verið að auka miðstýringuna í þessum geira, það er verið að færa undir einn hatt tóbaksvarnirnar, áfengisvarnirnar, tannverndina, manneldisráðið og ótvírætt er verið að auka miðstýringu á þessu sviði. Miðstýring er nú yfirleitt af hinu slæma, a.m.k. í hugum margra er hún alveg djöfulleg. Hins vegar tel ég að á þessu sviði geti hún leitt til góðs og sé að mörgu leyti til þess fallin að spara fjármuni.
    Ég minnist þess í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar árið 1987 til ársins 1988 kynnti þáv. heilbrrh. hér frv. til laga um forvarnastofnun sem ætlað var nákvæmlega það hlutverk sem Heilsuverndarstöðinni er nú ætlað, þ.e. að fást við forvarnaverkefni. Það frv. treysti Sjálfstfl. sér ekki til að styðja á sínum tíma vegna þess að í því frv. fælist svo mikil miðstýring með því að vera að sameina undir einn hatt áfengisvarnirnar, tannverndina, tóbaksvarnirnar og þessa forvarnaþætti. Ég skil málið a.m.k. þannig að þetta sé

stjfrv. sem Sjálfstfl. styðji og það er gott til þess að vita að menn hafa séð sig um hönd í þessum efnum.
    Síðari hluti málsins er sá að verið er að leggja til breytingar á 21. gr. núgildandi heilbrigðisþjónustulaga. Í raun og veru er það svo að það er aðeins einn töluliður þeirrar greinar sem nú er í gildi sem nauðsynlegt er að breyta samfara þeirri breytingu sem er á 1. gr., þ.e. að setja lagalega stöðu um hvernig stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur skuli skipuð og því má segja að 1. tölul., 3. tölul. og 4. tölul. 2. gr. þessa frv. ásamt þeim 5. séu að öllu leyti nákvæmlega þeir sömu og eru í núgildandi lögum og þess vegna kannski ekki ástæða til þess að breyta nema í þeim eina tilgangi að losna við þá formenn sem nú eru starfandi í stjórnum heilsugæslustöðvanna. Heilbrrh. hefði hins vegar, veit ég, ef hann hefði óskað þess að losna við þá, hefði getað farið fram á það við þá og ég er sannfærður um að þeir hefðu verið fúsir til þess.
    Það er eitt atriði í 2. gr., 4. tölul. sem ég held að sé bara fyrst og fremst prentvilla eða mistök, en vil aðeins að benda á það hér við þessa umræðu. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnir heilsugæslustöðva í Reykjavík og stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur ráða forstjóra heilsugæslu- og heilsuverndarstarfs í Reykjavík.`` Síðan segir: ,,Framkvæmdastjóri skal hafa sömu skyldur og framkvæmdastjórar sjúkrahúsa samkvæmt 29. gr. og fer um mat á hæfni skv. 30. gr.`` Þarna hlýtur að eiga að standa forstjóri í staðinn fyrir framkvæmdastjóri þannig að menn þurfa aðeins að huga að þessu þegar þeir vinna málið í nefnd.
    Til viðbótar þessari ábendingu held ég að einnig sé rétt að huga að því í nefndinni, og það mun ég gera þar sem ég á sæti í hv. heilbr.- og trn., þegar nú er gert ráð fyrir með þessu frv. að heilsuverndarlögin nr. 44/1955 séu úr gildi fallin, hvað verður þá um þætti í heilsuverndinni eins og ungbarnaeftirlitið og mæðraverndina þar sem samkomulag hefur verið milli allra flokka að ekki skuli tekið gjald fyrir þá þjónustu? Og ég spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er hætta á að með því að fella þessi lög úr gildi, þá sé ekki lengur lagaleg stoð sem hægt er að byggja á þannig að hægt sé að halda þessari þjónustu áfram gjaldfrírri gagnvart einstaklingunum? Þetta eru hlutir sem ég hygg að þurfi að skoða í meðförum nefndarinnar, en að öðru leyti og að öllu leyti get ég tekið undir efni þessa frv. Það er til bóta, sérstaklega að því leyti til að það styrkir forvarnastarfið sem unnið er að á mörgum mismunandi stöðum. Það er nauðsynlegt að samræma það og sú miðstýring sem felst í þessu frv. mun leiða til sparnaðar sem hún reyndar gerir ekki oft.