Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 17:04:53 (6942)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem þess er óskað að Alþingi lýsi stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu.
    Hvers vegna er það skynsamlegt út frá íslenskum hagsmunum nú að gerast aukaaðili að þessu Vestur-Evrópusambandi? Það er ekki vegna þess að mikilvægi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafi breyst. Það er ekki vegna þess að dregið hafi úr mikilvægi hins tvíhliða varnarsamstarfs við Bandaríkin. Það er ekki vegna þess að í þessu felist að verið sé að stíga eitthvert skref í átt til aðildar að Evrópubandalaginu. Þvert á móti. Varnarsamstarfið við Bandaríkin og þátttaka Íslands í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins er og verður að óbreyttu um ófyrirsjáanlega framtíð hin bjargfasta undirstaða öryggis íslensku þjóðarinnar. Það breytir ekki því hins vegar að við lifum á tímum örra breytinga og Íslendingar standa því ekki vörð um öryggi sitt nema með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og með varnarsamstarfi við vinveitt nágrannaríki. Helstu alþjóðasamtök og stofnanir aðlaga sig nú að breyttum aðstæðum. Þau viðfangsefni sem blasa við í öryggismálum um þessar mundir eru margslungnari en svo að nokkur ein samtök geti tekist á við þau ein á báti. Með gagnkvæmri samvinnu ólíkra stofnana og samtaka er stuðlað að aukinni skilvirkni og komist hjá óþarfa skörun viðfangsefna. Það er þess vegna mikilvægt að Ísland taki eftir megni þátt í þessari aðlögun að breyttum aðstæðum.
    Við leggjum áfram áherslu á virka þátttöku Íslands í störfum Atlantshafsbandalagsins og í þeirri aðlögun sem fer fram af hálfu bandalagsins og innan þess um þessar mundir. Vegna þess hvernig Atlantshafsbandalagið tengir varanlega öryggishagsmuni þjóðarinnar beggja vegna Atlantshafs þurfa Íslendingar að tryggja áhrif sín í bandalaginu og þá hagsmuni sína að það verði áfram skilvirkt í evrópskum öryggismálum innan bandalagsins, og þó einkum í Norður-Atlantshafssamstarfsráðinu, ber Íslendingum að stuðla að því að tekið verði tillit til sjónarmiða samstarfsríkjanna sem nýlega hafa losnað úr viðjum kommúnismans. Aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu er því í fullu samræmi við grundvallarþætti íslenskrar öryggisstefnu. Hún er skref til að koma í veg fyrir að Ísland heltist úr lestinni í samráði og sameiginlegri stefnumörkum Evrópuríkja í öryggismálum. Þess vegna er það okkar ætlan að Ísland tali máli Atlantshafssamstarfsins innan Vestur-Evrópusambandsins.
    Við þurfum að átta okkur á því að við gerbreyttar aðstæður í málefnum okkar heimshluta og í alþjóðamálum eftir fall kommúnismans kann að verða erfiðara að láta rödd Íslands heyrast eða fá aðrar þjóðir til að taka tillit til hennar. Að loknu hinu kalda stríði er ljóst að öryggishagsmunir Íslendinga fléttast nánar saman við aðra þætti utanríkisstefnunnar en áður. Afleiðingin er því sú að markviss stefna í öryggismálum krefst þess að höfð sé yfirsýn yfir fjölmarga þætti samtímis og tengsl þeirra innbyrðis. Það hefur m.a. í för með sér að við þurfum að huga nánar að áhrifum sem óskyld mál geta haft á öryggismálin. Sé

samhengis af þessu tagi ekki gætt er hætt við ósamræmi og árekstrum sem gætu haft þær afleiðingar að mikilvægir hagsmunir bíði hnekki.
    Því sem næst 16 mánuðir eru liðnir síðan þetta mál kom fyrst á dagskrá. Á fundi Evrópusambandsins sem haldinn var í Maastricht í desember 1991 var Evrópuríkjum í Atlantshafsbandalaginu, þeim sem ekki eiga aðild að Evrópubandalaginu, boðin aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Þessi ríki eru Ísland, Noregur og Tyrkland. Einnig var ríkjum Evrópubandalagsins sem ekki höfðu tengst Vestur-Evrópusambandinu boðin aðild eða áheyrnaraðild. Skilmálar aukaaðildar voru skilgreindir í yfirlýsingu Vestur-Evrópusambandsins á svokölluðum Petersberg-fundi í júní 1992. Viðræður við aðildarríkin hófust síðan í Róm í júlí sama ár.
    Hinn 20. nóv. sl. var haldinn sameiginlegur fundur utanríkisráðherra í Róm þar sem Eiður Guðnason umhvrh. undirritaði fyrir mína hönd skjal um aukaaðild Íslands, Noregs og Tyrklands að Vestur-Evrópusambandinu ásamt utanríkisráðherrum tveggja síðastnefndu ríkjanna.
    Áform um aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu hafði verið kynnt Alþingi og utanrmn. með reglubundnum hætti. Með skýrslu minni til Alþingis um utanríkismál í mars í fyrra lagði ég fram ítarlega greinargerð um Vestur-Evrópusambandið. Skriður komst hins vegar ekki á viðræður um aukaaðild fyrr en eftir þennan svokallaða Petersberg-fund í júní. Á tímabilinu júlí til nóvember 1992 var aukaaðildin sex sinnum til umræðu í utanrmn.
    Utanrrn. afhenti hv. utanrmn. greinargerðir um málið 7. júlí, 7. sept. og 16. nóv. Hinn 9. okt. var nefndinni gefinn kostur á að hitta að máli framkvæmdastjóra Vestur-Evrópusambandsins, van Eekelen. Almennt hefur áhersla verið lögð á sem víðtækasta samstöðu um aukaaðildina sem ég tel að marki mikilvægan áfanga í aðlögun íslenskrar öryggisstefnu að breyttum aðstæðum í alþjóðamálum.
    Á síðustu fjórum árum hefur dunið yfir holskefla breytinga í alþjóðamálum. Hin gríðarlegu umskipti sem átt hafa sér stað hafa að sjálfsögðu ekki áhrif á meginmarkmið utanríkisstefnunnar. Þau verða eftir sem áður að vernda sjálfstæði þjóðarinnar og gæta hagsmuna hennar í alþjóðlegum samskiptum. En á yfirstandandi breytingaskeiði er engin þjóð eyland. Líkt og aðrir þurfa Íslendingar að bregðast við kröfum nýrra tíma og aðlaga framkvæmd utanríkisstefnunnar þeim breytingum sem orðið hafa og eru að verða. Aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu er liður í þeirri viðleitni. Ég vil leyfa mér að vona að hér á hinu háa Alþingi takist mönnum að stilla saman strengi í öryggismálum nú á tímum breytinga, a.m.k. ekki síður en á tímabili kyrrstöðu í kalda stríðinu.
    Á þessari öld en þó einkum frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa akkerisfestar Íslendinga í öryggismálum legið til beggja átta yfir Atlantshaf, austur og vestur. Sagan sýnir að óraunhæft er að vænta þess að Íslendingar geti verið óhultir í ófriði sem á sér upptök á meginlandi Evrópu. Jafnframt er ljóst að öryggishagsmunir þjóðarinnar og raunar allrar Vestur-Evrópu verða einungis verndaðir í nánu samstarfi við Atlantshafsríkin, ekki síst öflugasta flotaveldið meðal þeirra, Bandaríkin. Stefna Íslands í öryggismálum hefur í höfuðatriðum tekið mið af þessum kröfum. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin voru rökrétt skref á sínum tíma til að tryggja öryggishagsmuni þjóðarinnar til frambúðar. Ráðstafanir þessar gerðu þjóðinni hvort tveggja í senn kleift að hafa áhrif á þróun öryggismála í Evrópu og tryggja varnir landsins.
    Fyrir Ísland hefur Atlantshafsbandalagið sérstöðu að því leyti að það eitt tengir viðvarandi öryggishagsmuni landsins beggja vegna á Norður-Atlantshafi. Í öryggismálum geta Íslendingar því ekki valið milli annars vegar Evrópu og hins vegar Norður-Ameríku. Tengingin yfir hafið er ekki aðeins lífæð Atlantshafsbandalagsins. Hún er einnig kjölfestan í íslenskri öryggispólitík. Ég legg áherslu á að þessi staðreynd stendur óhögguð þrátt fyrir þá þróun og þær breytingar sem sett hafa svip á stjórnmálin á meginlandi Evrópu á undanförnum árum.
    Engu að síður er það svo að umskiptin í Evrópu hafa einnig haft áhrif á samstarf vestrænna ríkja í öryggismálum. Hrun Sovétríkjanna, slit Varsjárbandalagsins er augljóslega tvennt sem áorkað hefur því að Vestur-Evrópa stendur ekki frammi fyrir stórfelldri hernaðarógn líkt og áður. Samrunaþróunin innan Evrópubandalagsins er einnig komin á það stig að ríkin 12 innan þess hafa náið samráð um utanríkismál, þar á meðal um öryggismál. Þetta hvort tveggja hefur orðið til þess að Vestur-Evrópuríki, sem lengst af nutu forustu Bandaríkjanna í öryggismálum, hafa sjálf tekið aukið frumkvæði og eflt samráð innbyrðis sín í milli.
    Endurvakning Vestur-Evrópusambandsins sem gerð er grein fyrir í greinargerð og athugasemdum við þáltill. endurspeglar þessa auknu samkennd Evrópuríkjanna í öryggismálum. Því hefur verið haldið fram, m.a. hér á landi, að efling Vestur-Evrópusambandsins sem slík sé ögrun við Atlantshafsbandalagið. Þetta er fjarri sanni. Á fundum utanríkisráðherra bandalagsins á undanförnum árum hefur iðulega verið hvatt til þess að hin evrópska stoð bandalagsins yrði styrkt með ráðum og dáð, enda litið svo á að það þjónaði nauðsynlegri aðlögun þess að breyttum kringumstæðum. Ég minni einnig á að í yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Róm í nóvember 1991, sem gaf í veigamiklum atriðum tóninn fyrir fund Vestur-Evrópusambandsins í Maastricht mánuði síðar, er fagnað líkum á því að hlutverk sambandsins styrkist bæði sem varnarþáttur í viðleitninni til að sameina Evrópu og sem tæki til að styðja evrópska stoð Atlantshafsbandalagsins. Atlantshafsbandalagið hefur því síður en svo verið hlutlaus áhorfandi að eflingu Vestur-Evrópusambandsins heldur hefur það kappkostað að leggja hönd á plóginn við eflingu þess. Óneitanlega er þó mikið undir því komið að vel takist til í framkvæmd. Það verður að móta aukið hlutverk Vestur-Evrópusambandisns á þann veg að samskipti þess við Atlantshafsbandalagið verði í fyllsta máta gagnkvæm og samstiga. Í þessu efni er auðvitað ekkert sjálfgefið heldur útheimtir slík samhæfing árvekni, ekki síst af hálfu ríkja Atlantshafsbandalagsins sjálfs. Það er heldur ekki sjálfgefið að Vestur-Evrópusambandið taki ávallt nægilegt tillit til öryggishagsmuna ríkja Norður-Atlantshafsins. Til þess að svo megi verða getur auðvitað ekkert komið í staðinn fyrir að viðkomandi ríki tali sjálf máli sínu innan sambandsins.
    Ég vek á því athygli í þessu sambandi að tvíþætt ákvörðun fundar Vestur-Evrópusambandsins í Maastricht, um að efla samvinnu Evrópuríkja innan vébanda Atlantshafsbandalagsins annars vegar og að fela sambandinu að annast varnarmál í sameiginlegri öryggismálastefnu fyrirhugaðs pólitísks sambands ríkja Evrópubandalagsins hins vegar, byggðist á málamiðlun sem nokkurn tíma hefur tekið að ná fram. Það er ekkert launungarmál að ýmis ríki hefðu kosið að ganga mun lengra í eflingu sambandsins á kostnað Atlantshafstengslanna. Ríki sem mestra hagsmuna eiga að gæta við Atlantshafið komu í veg fyrir að sú yrði niðurstaðan. Þetta sýnir svo að ekki verður um villst að málsvarar Atlantshafstengslanna eiga fullt erindi í Vestur-Evrópusambandið. Aukaaðild Íslands að sambandinu er þannig ekki aðeins í samræmi við íslenska öryggishagsmuni, heldur þjónar hún einnig hagsmunum Atlantshafsbandalagsins. Ég hygg að hér sé komin skýringin á því að í viðræðum nefndar um öryggis- og varnarmál við stjórnvöld í Bandaríkjunum, í Noregi og Bretlandi og við forustumenn Atlantshafsbandalagsins kom fram ánægja með þá ákvörðun Íslendinga að taka boði Vestur-Evrópusambandsins um aukaaðild.
    Atburðir í alþjóðamálum á síðustu árum eru til vitnis um hversu erfitt það er að segja til um framtíðina af nokkru öryggi. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um þróun Vestur-Evrópusambandsins. Þó er tæplega of djarft að ætla að sambandið muni fá aukið vægi í samráði Evrópuríkja um öryggismál á næstu árum. Verði sú raunin er óhjákvæmilegt að Atlantshafsbandalagið þróist æ meir á þann veg að verða fyrst og fremst vettvangur tvíhliða samráðsríkja Vestur-Evrópusambandsins annars vegar og ríkja Norður-Ameríku hins vegar. Í slíku samráði er hætta á því að Ísland verði afskipt og utanveltu og aðildarumsóknin, þ.e. umsóknin um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu, er auðvitað hugsuð sem mótleikur við því.
    Eins og ég gat um hér áðan eiga Íslendingar mikið í húfi að geta beitt áhrifum sínum í umræðum um öryggismál á meginlandi Evrópu. Fari fram sem horfir hefðu þeir ekki til þess vettvang ef þeir væru utan Vestur-Evrópusambandsins.
    Ég hef nú tíundað þær almennu röksemdir sem liggja til grundvallar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu. Sú ákvörðun er, eins og ég hef þegar vikið að, í eðlilegu framhaldi af þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af Alþingi og ríkisstjórnum á lýðveldistímanum. Af þeim sökum vil ég leyfa mér að vænta þess að víðtæk samstaða náist hér í þinginu um þennan mikilvæga áfanga í átt til aðlögunar íslenskrar utanríkisstefnu.
    Virðulegi forseti. Í athugasemdum við þáltill. er fjallað ítarlega um ýmsa þætti aukaaðildarinnar, svo sem hvað í henni felst nákvæmlega, tengsl Vestur-Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins, framvindu samningaviðræðna, sögu og verkefni sambandsins, Maastricht-fundinn og svokallaða Petersberg-yfirlýsingu. Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka hér það sem fram kemur í þessum greinargerðum en vil engu að síður árétta að aukaaðild veitir Íslandi rétt til fullrar þátttöku í ráði og nefndum Vestur-Evrópusambandsins án þess þó að á móti komi kvaðir eða skuldbindingar aðrar en fjárframlög.
    Einnig vil ég benda á þann greinarmun sem gera verður á aukaaðild og aðild. Með aukaaðild gerist Ísland ekki aðili að milliríkjasamningi. Í athugasemdunum er sérstaklega tekið fram að Ísland gerist ekki aðili að hinum endurskoðaða Brussel-samningi og ákvæði hans eru því á engan hátt bindandi fyrir Ísland. Af þessu leiðir að aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu er ekki sambærileg við t.d. aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma og þar með við Norður-Atlantshafssáttmálann frá 1949. Hvað varðar aðra þætti þessa máls vísa ég til athugasemda við tillöguna.
    Að lokum vil ég víkja aftur að skýrslu nefndar um öryggis- og varnarmál sem nýlega var dreift hér í þinginu. Þar er fjallað á yfirgripsmikinn hátt um stöðu Íslands að kalda stríðinu loknu og hvernig bregðast megi við áorðnum breytingum í heiminum í kringum okkur. Í þessu sambandi er vakin sérstök athygli á mikilvægi þess að Ísland tengist Vestur-Evrópusambandinu. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu er í fullu samræmi við grundvallarþætti íslenskrar öryggisstefnu á lýðveldistímanum. Hún er árangursríkt skref til að koma í veg fyrir að Ísland heltist úr lestinni í samráði og sameiginlegri stefnumörkun Evrópuríkja í öryggismálum.``
    Þessi orð vil ég einnig gera að mínum í niðurlagsorðum þessarar ræðu.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessari ályktun verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. nefndar.