Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 17:35:32 (6944)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að lýsa því hér að á undanförnum árum hafa orðið gífurlegar breytingar á heimsmyndnni. Nokkur atriði er þó rétt að rifja upp í upphafi þessarar umræðu.
    Í fyrsta lagi er Varsjárbandalagið, höfuðandstæðingur Atlantshafsbandalagsins, horfið.
    Í öðru lagi eru Sovétríkin hrunin.
    Í þriðja lagi hafa forsetar Bandaríkjanna og forseti Rússlands undirritað formlega yfirlýsingu um það að kalda stríðinu sé lokið og Bandaríkin og Rússland séu nú vinátturíki.
    Í fjórða lagi hefur verið stofnað sérstakt samstarfsráð ríkjanna í Austur-Evrópu og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og nýlega var t.d. haldinn fundur utanríkisráðherra eða annarra forustumanna þessara ríkja sem mynda hið nýja Atlantshafsráð þar sem forusturíki Austur-Evrópu og Atlantshafsbandalagsins komu saman.
    Í fimmta lagi er rætt er um það að rússneskir hermenn komi ásamt hermönnum Atlantshafsbandalagsins til friðargæslustarfa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til þess að reyna að koma á friði og síðan viðhalda honum í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu.
    Hvert eitt af þessum atriðum sem ég hef hér nefnt hefði nánast verið óhugsandi í rúm 40 ár. Þegar þau öll koma saman, þá sjá menn hve afgerandi grundvallarbreyting hefur orðið á þeirri heimsmynd sem hlýtur að hvíla á bak við hernaðarsamvinnu af hvaða tagi sem hún annars er.
    Hernaðarbandalög eru ekki markmið í sjálfu sér. Stundum finnst mér menn tala um hernaðarbandalög og þar með talið Atlantshafsbandalagið eins og það sé markmið í sjálfu sér. Hernaðarbandalög hljóta einungis að vera myndbirting ákveðinna hugmyndalegra og stjórnmálalegra forsendna sem menn vilja fylgja.
    Þegar afstaða er tekin til þess hvort ríki tekur þátt í slíkri samvinnu, þá er eiginlega nauðsynlegt að fram fari áður nokkuð ítarleg athugun á því hverjar eru hinar pólitísku og hugmyndalegu forsendur.
    Það þarf heldur ekki, virðulegi forseti, að rifja það upp hér í þessum sal að í rúm 40 ár hefur þessi þjóð verið klofin í andstæðar fylkingar í utanríkis- og varnarmálum. Það hefur e.t.v. verið eitt af erfiðustu málunum hjá okkar litlu þjóð að ágreiningurinn í utanríkis- og varnarmálum hefur verið slíkur að hann hefur slitið í sundur önnur friðarbönd í okkar þjóðfélagi, skipt mönnum í andstæðar fylkingar, jafnvel í menningarmálum hvað þá heldur í stjórnmálum og þjóðfélagið allt hefur um langt skeið verið undirlagt af þessum ágreiningi.
    Nú er það þannig sem betur fer að þær forsendur sem í upphafi og lengst af lágu til grundvallar þessum ágreiningi, og ætla ég þá ekkert að skipta því upp hvorum megin menn hafa verið í þeim ágreiningi, en þær forsendur sem lágu til grundvallar ágreiningnum hvort sem menn tóku afstöðu með Atlantshafsbandalaginu eða á móti, með varnarsamningnum eða á móti, þessar forsendur eru ekki lengur til. Þá stöndum við hér í þessum þingsal og ríkisstjórn Íslands frammi fyrir því verkefni sem ég tel vera það mikilvægasta um þessar mundir, það er að hefja viðræður um það milli allra flokka og stjórnmálahreyfinga í landinu. Er grundvöllur fyrir því við þessar gerbreyttu aðstæður sem orðnar eru í veröldinni, einkum í okkar heimshluta, að hér geti náðst mjög breið og varanleg samstaða um meginþætti í utanríkisstefnu Íslendinga?
    Ég tel það þess vegna mjög miður að ríkisstjórn Íslands skyldi kjósa tvennt: Í fyrsta lagi að ákveða sjálf að beita sér fyrir aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu án þess að fram færu ítarlegar samræður milli stjórnmálaflokkanna í landinu um þessa nýju stöðu. Í öðru lagi að ríkisstjórnin skyldi kjósa að setja upp nefnd, svokallaða öryggismálanefnd sem eingöngu var skipuð fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna og nokkrum embættismönnum. Sú nefnd hefur skilað skýrslu. Það má margt um þá skýrslu segja. Margt er aðfinnsluvert, margt er líka athyglisvert í skýrslunni. Það er afstaða þingflokks Alþb. að við teljum nauðsynlegt að fram fari sérstök umræða hér í þinginu um þá skýrslu. Við höfum ákveðið það í okkar þingflokki að beita okkur fyrir því og formaður þingflokksins, hv. þm. Ragnar Arnalds, mun koma því sjónarmiði á framfæri við forustu þingsins. Skýrslan er að vísu ekki sérstakt þingskjal en hún hefur verið lögð hér fram til þingmanna og það eru ýmis fordæmi fyrir því að slíkar skýrslur séu teknar sérstaklega til umræðu. Og ég vil hér að gefnu tilefni lýsa því yfir að við munum beita okkur fyrir því að sérstök umræða fari fram um þá skýrslu.
    Ég vil ekki þrátt fyrir það að ég sé ekki alveg sáttur við það hvernig sú nefnd varð til blanda umræðu um þá skýrslu inn í umræðurnar um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu nema að mjög litlu leyti og mun þess vegna ekki hér við þessa umræðu víkja nánar að þessari sérstöku skýrslu. Ég vil hins vegar segja við virðulegan utanrrh. að ég vona að hann og forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hugleiði með vinsemd og í alvöru þá ábendingu að það kunni nú að vera skynsamlegt að skapa vettvang þar sem fulltrúar allra flokka geta farið yfir þær miklu breytingar sem orðið hafa í heimsmyndinni á síðustu árum og reynt að draga saman þær ályktanir sem af því má draga og einangra þá þættina sem hugsanlega yrði ágreiningur um í ályktunum manna. Ég tel ekki að það sé hægt fyrir nokkurn ábyrgan stjórnmálamann að gefa sér það fyrir fram áður en slík umræða fer fram, umræða sem er byggð á þessum nýju aðstæðum, að gefa sér það fyrir fram um hvað ágreiningur yrði. Það getur enginn ábyrgur stjórnmálamaður gert vegna þess að breytingarnar eru svo afgerandi að það hljóta allir að nálgast þessa umræðu með opnum huga.
    Til viðbótar við þá miklu gerjun sem verið hefur í málefnum Evrópu á þessum tímum hefur auðvitað einnig orðið mikil gerjun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa komið fram margvíslegar tillögur um aukna hlutdeild Sameinuðu þjóðanna í öryggisgæslu og friðargæslu víða um heim. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur samkvæmt sérstakri ósk leiðtogafundar öryggisráðsins, leiðtogafundar sem haldinn var í janúar 1992 ef ég man rétt, sent frá sér sérstaka skýrslu sem birt var fyrir tæpu ári síðan. Og öryggisráðið hefur það núna sem verkefni að mánaðarlega taka aðildarríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir einstaka tillögu úr þessari skýrslu aðalritarans og reyna að meta hana og taka afstöðu til þess. Það er því alveg ljóst að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fer núna fram miklu nákvæmari, ítarlegri og efnismeiri umræða um öryggismál heldur en nokkru sinni frá stofnun samtakanna. Og þó ekki væri nema vegna þess máls eins, hæstv. utanrrh., er nokkuð sérkennilegt að Ísland skuli kjósa einmitt þessi missirin til þess að hafa ekki fastskipaðan fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Það má mistúlka slíka skipan með ýmsum hætti og þótt eðlilegt geti verið að um einhvern tíma sé ekki formlegur fastafulltrúi ríkis hjá Sameinuðu þjóðunum þá virkar það nokkuð sérkennilegt ef um langa hríð er ekki skipað í það sæti. Ég held þvert á móti að svo mikið sé að gerast bæði í hinum opinberu sölum Sameinuðu þjóðanna og eins í því samráði sem fram fer milli ríkja á vettvangi stofnunarinnar að mjög nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að geta fylgst þar grannt með og er það von mín að úr því verði bætt innan tíðar.
    Í þessari umræðu sem verið hefur, hefur margt komið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og ég nefndi. Þeir sem velt hafa fyrir sér þróun öryggismála og hlutverki Sameinuðu þjóðanna í þeirri þróun hafa einkum velt fyrir sér tveimur leiðum. Það er ljóst að það mun taka nokkuð langan tíma ef það verður þá nokkurn tíma gerlegt að einstök aðildarríki Sameinuðu þjóðanna láti þeim í té nægilegan herafla og fallist á yfirstjórn þess herafla undir t.d. þeirri stofnun Sameinuðu þjóðanna sem gengur venjulega undir heitinu Military Committee og hefur verið til frá stofnun samtakanna þó hún hafi aldrei verið mjög virk og ýmsir draga það í efa að t.d. Bandaríkin mundu fallast á að láta yfirstjórn bandarískra hermanna, ef þeir gætu átt það á hættu að lenda í orrustu, í hendur slíks fjölskipaðs stjórnvalds. Þess vegna telja ýmsir að þessi leið kunni að verða nokkuð seinfær.
    Það er þess vegna m.a. sem ýmsir hafa bent á aðra leið sem ýjað er aðeins að í því þingskjali sem hér liggur fyrir og felur í sér að þau svæðisbundnu samtök sem til eru á sviði hermála í Evrópu, t.d. NATO, t.d. Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, t.d. Vestur-Evrópusambandið, taki að sér þessa hlutverk í umboði og samkvæmt nánari endurskilgreiningu á hlutverki þeirra. Allt eru þetta auðvitað mjög merkilegar hugmyndir, merkilegar m.a. vegna þess að við Evrópubúar stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að í okkar heimshluta hefur nú um nokkur missiri verið háð miskunnarlaust stríð, grimmt stríð þar sem mikill fjöldi saklausra borgara, barna og kvenna, hefur orðið fórnarlamb þessara styrjaldarátaka. Og þau samvinnuform sem við höfum haft hingað til í Evrópu hvort sem það er Atlantshafsbandalagið, Vestur-Evrópubandalagið eða hin nýja skipan sem kennd er við Ráðstefnu um öryggi og samvinnu hafa ekki reynst vera nægilega kraftmikil eða virk tæki til þess að geta náð þeim markmiðum að forða þessum átökum. Við stöndum þess vegna frammi fyrir því, Evrópubúar, sem staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr að við höfum ekki getað megnað af eigin rammleik að sjá til þess að þessum átökum linni og sæmileg sáttargjörð mundi ríkja í þessum löndum sem tilheyra fyrrverandi ríkinu Júgóslavíu.
    Ég nefni þetta hér í upphafi, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst að það hefði verið meira við hæfi að koma til þingsins og það jafnvel á síðasta ári og biðja þingið um að fara yfir þessi mál, gera tilraun, hvort sem það yrði á vettvangi utanrmn. eða í sérstakri samráðsnefnd flokkanna, fara yfir það hvort stjórnmálaöflin í landinu gætu náð hér varanlegu samkomulagi um vissar meginforsendur.
    Við skulum nefna eitt atriði sem aðeins er ýjað að í þeirri skýrslu sem gerð var á vegum þeirrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði í fyrra, svokölluð öryggisnefnd, sem að vísu hefur kannski ekki það heiti, mér er nú ekki alveg ljóst hvað nefndin heitir. En það er spurningin um það að sá varnarviðbúnaður sem Bandaríkin hafa haft hér á Íslandi yrði tengdur þessu nýja hlutverki Sameinuðu þjóðanna. Jú, þetta er vissulega athyglisverð hugmynd en hún vekur auðvitað upp ýmsar spurningar. Segjum nú að sú leið yrði farin. Samrýmist það þá því að Ísland gerist með þeim hætti sem hér er lögð áhersla á aðili að Vestur-Evrópubandalaginu? Það er ekki alveg sjálfgefið.
    Vestur-Evrópusambandið er eins og við vitum öll hér annars vegar fyrirbæri sem engu máli hefur skipt um langan tíma. Áratugi var það nánast til sem bréfhaus og málamyndafundavettvangur fyrir ráðherra, þingmenn og embættismenn sem satt að segja engu máli skipti. Aftur á móti hefur það nýlega fengið það hlutverk að verða vettvangur fyrir hið nýja hernaðarsamvinnuform Evrópubandalagsins.
    Þess vegna er kannski eðlilegt að ríki eins og Noregur og Tyrkland sem hafa ákveðið að sækja um aðild og hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu lýsi sig reiðubúin til þess að taka þátt í þessu hernaðarsamstarfi. Rökin sem ríkisstjórnin færir fyrir því að Ísland eigi að gera það einnig eru að Ísland muni einangrast innan Atlantshafsbandalagsins frá því samráði sem yrði innan veggja Atlantshafsbandalagsins, milli væntanlega Bandaríkjanna og Kanada annars vegar og Evrópuríkjanna hins vegar. Þetta er fullyrðing sem mér finnst í raun og veru engin rök vera færð fyrir, hvorki í greinargerð né ræðu hæstv. ráðherra hér áðan.
    Ísland hefur ekki tekið þátt í hernaðarsamvinnu Atlantshafsbandalagsins. Það er kannski dálítið sérkennilegt að standa hér og segja það en engu að síður er að nú þannig að þegar þær stofnanir Atlantshafsbandalagsins sem fást við hernaðarmálefni koma saman til fundar, þá situr yfirleitt fulltrúi Bandaríkjanna í sæti Íslands. Ástæðan er sú að Bandaríkin hafa tekið að sér í tvíhliða samvinnu að reka hér herstöð. Sá samningur er að vísu þannig að hann er ekki beint háður tilveru Atlantshafsbandalagsins. Atlantshafsbandalagið gæti horfið eins og ýmis önnur hernaðarbandalög og tvíhliða samningurinn við Bandaríkin staðið eftir.
    Er það alveg sjálfgefið ef menn telja skynsamlegt að Ísland gegni einhverju sérstöku hlutverki í stjórnmálalegu samráði Atlantshafsbandalagsins að það verði formlega hluti af Vestur-Evrópuhópnum? Mér finnst það ekki vera sjálfgefið. Það er hægt að færa ýmis rök fyrir því að það gæti þjónað hagsmunum Íslands svo lengi sem Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu að vera smáríki sem tilheyri hvorugum hópnum. Það er nú einu sinni algengt lögmál í stjórnmálum og hafa ýmsir rannsakað það sér til skemmtunar og öðrum til fróðleiks að lítill aðili getur í samspili við stóra fengið miklu meiri áhrif ef hann heldur sérstöðu sinni. Gott dæmi um það hér á landi er Alþfl. á viðreisnarárunum sem fékk auðvitað mikla hlutdeild af ríkiskerfinu þótt smæðin gæfi það nú ekki til kynna, en hann nýtti sér smæð sína og sérstöðu. Og ef gert er ráð fyrir því að innan Atlantshafsbandalagsins, sem mér finnst vera eins konar dulin forsenda í þessum rökstuðningi, sé í uppsiglingu togstreita milli Evrópuríkjanna annars vegar sem eru aðilar að Vestur-Evrópubandalaginu og Bandaríkjanna og kannski Kanada hins vegar, þá er hér sagt að nauðsynlegt sé að Ísland skipi sér í upphafi í þann þingflokk, ef ég má orða það svo, sem er Evrópuþingflokkurinn innan NATO.
    Það eru engin rök færð fyrir því hér að slík spenna milli Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna og Kanada innan NATO sé í uppsiglingu og væri auðvitað athyglisvert að utanrrh. færi aðeins um það fleiri orðum. Nú vitum við auðvitað um þýska og franska herinn. Við vitum einnig um vilja Frakka til þess að efla sérstöðu sína á þessum vettvangi og við vitum reyndar einnig að í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna leggja bæði Bretland og Frakkland mikið kapp á það að halda sæti sínu. Almennt er þó talið skynsamlegt að stækka öryggisráðið og taka t.d. Þýskaland og Japan og hugsanlega Indland og Brasilíu inn í öryggisráðið. Ýmsum finnst þá skrýtið að þrjú af ríkjum Evrópubandalagsins eigi sæti í öryggisráðinu, tvö af þeim með neitunarvald sérstaklega í ljósi þess að almennt séð innan Sameinuðu þjóðanna fer forsætisríki Evrópubandalagsins með málefni og stefnumótun Evrópubandalagsins að öðru leyti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þá er óeðlilegt að þegar allt í einu er komið inn í öryggisráðsherbergið sitji þar þrjú aðildarríki Evrópubandalagsins, þar af tvö með neitunarvald. Þess vegna er það nokkuð víðtæk skoðun að þessi skipun gangi ekki upp til frambúðar. En það eru hins vegar töluverðir hagsmunir, stjórnmálalegir og hugsanlega af öðru tagi, fyrir Bretland og Frakkland að reyna að viðhalda þeirri skipan. Þess vegna kynnu þeir að vilja efla vissa sérstöðu án þess að fyrir því séu efnisleg rök.
    Virðulegi forseti. Ég hef kosið að fara hér mjög breitt yfir þetta svið. Ástæðan er ekki sú að ég telji tíma eða tóm til þess hér seint á þessum eftirmiðdegi að fara jafnítarlega í þessa umræðu og nauðsynlegt væri. En ég nefni þetta vegna þess að mér finnst þetta frv. í raun og veru vera angi af miklu stærra máli og það sé rangt í málið farið að byrja á því að svara því hvort menn ætli að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu eða ekki án þess að láta þá umræðu, sem ég hef hér verið að fara yfir, eiga sér stað.
    Ég vil líka nefna það hér að eins og allir vita er ríkjandi sú stefna í Bandaríkjunum að skera niður fjárframlög til herstöðva. Ég hef heyrt þær fullyrðingar að ýmsir segja: Herstöðin á Íslandi er svo mikilvæg fyrir Bandaríkin að það verður ekki skorið niður þar. Ég segi hins vegar að þeir menn, sem treysta því að í Washington sé að finna einhverja tryggingu fyrir því að einn góðan veðurdag verði ekki skorið bara mjög myndarlega í þessari herstöð hér, þeir þekkja ekki mikið til í Washington. Það getur enginn fullyrt það í dag hvar niðurskurðarhnífur þings og forseta kann að lenda í þessum málum, ekki nokkur maður, ekki einu sinni þeir sjálfir geta fullyrt það því að þau efnahagslegu markmið sem hin nýja ríkisstjórn í Washington hefur sett sér eru hennar aðalmarkmið. Og að mínum dómi mun hún láta öll önnur markmið víkja og vera reiðubúin að skera niður framkvæmdir í hernaði og framlög til herstöðva svo lengi sem það ógnar ekki öryggi Bandaríkjanna í bráð og ég legg áherslu á það, í bráð. Þeim er alveg ljóst að sveigjanleiki bandarísks herafla verður hins vegar að vera þannig að þeir geti á tiltölulega skömmum tíma flutt hann til í veröldinni ef ástæður vera með þeim hætti. En ég hugsa að þeir muni flestir draga þá ályktun að ef friðsamleg sambúð Rússlands og Bandaríkjanna heldur áfram, og við sáum nú nýjasta dæmið um styrkleika hennar fyrir nokkrum dögum síðan, þá séu engin sérstök rök fyrir því að verja áfram töluverðu fjármagni til herstöðvarinnar hér. Flugvélar frá Rússlandi fljúga ekki hér um lengur. Það fer ekki miklum sögum af kafbátunum og þess vegna geti herstöðin hér fokið kannski bara á einum degi að mestu leyti vegna þess að hin nýja stjórn í Bandaríkjunum veit að hún verður að öllum líkindum í næstu kosningum dæmd af efnahagsstefnu sinni innan lands, aðgerðum sínum í heilbrigðismálum, aðgerðum sínum í menntamálum og aðgerðum sínum í málefnum stórborganna. Og allir hagsmunir varðandi hernaðarútgjöld sem ekki snerta öryggi Bandaríkjanna í þröngum skilningi verða að mínum dómi að víkja í þeirri glímu.

    Þess vegna kann það vel að vera að þeir sem hafa áhuga á að starfrækja þá starfsemi sem hér hefur verið, og þá á ég við þessa herstöð, geti velt því fyrir sér hvort hún eigi kannski vænlegri framtíð, ef það má nota það orðalag, sem hluti af nýju öryggiskerfi tengdu Sameinuðu þjóðunum og breiðri samvinnu milli kannski Vesturheims annars vegar og Evrópu hins vegar og síðan hinna heimshlutanna heldur en sem skipulagsbundinn hluti af því stofnanaverki sem Evrópubandalagið hefur komið sér upp. Það er alls ekkert sjálfgefið að jafnvel þótt menn líti á þetta út frá hagsmunum og sjónarhóli þeirra sem vilja viðhalda herstöðinni út frá einhverjum sjónarmiðum, öryggissjónarmiðum, atvinnusjónarmiðum o.s.frv., þá sé það rökrétt að tengja þau við Vestur-Evrópusambandið.
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram í mínu máli, þá tel ég ekki skynsamlegt fyrir Alþingi að álykta nú um það að lýsa stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu. Ég tel að það séu ekki forsendur fyrir því að hægt sé að draga þá ályktun með rökréttum hætti og það þurfi að fara fram hér á landi miklu víðtækari umræður um málið áður en hægt er að taka afstöðu til þess sem hér er. Hitt er svo kannski rétt, sem ýjað hefur verið að, að það breytist ekki svo mikið við það að Ísland gerist aðili að Vestur-Evrópusambandinu nema það verða aðeins fleiri fundir sem menn fara á, vegna þess að í aukaaðildinni felst hvorki skuldbinding af hálfu Íslands að taka þátt í varnarhagsmunum hinna ríkjanna né skuldbinding af hálfu Vestur-Evrópusambandsins að tryggja eitthvað öryggishagsmuni Íslands. Og það er auðvitað dálítið merkilegt að það skuli vera gerð hér tillaga um það að Ísland gerist aðili að hernaðarbandalagi þegar fyrir liggur að það hernaðarbandalag ætlar sér ekki í neinu að tryggja öryggishagsmuni Íslands. Það er þá eingöngu verið að færa svona almenn pólitísk rök fyrir því að vera í þessum klúbbi. Og eins og menn þekkja nú í þessum sal, þá geta sviptivindir hinna pólitísku raka breyst ansi mikið á skömmum tíma.
    Í bæði greinargerðinni og í hinum formlegu skjölum kemur það alveg skýrt fram að Ísland hefur enga beina öryggishagsmuni af því að tengjast þessu nýja sambandi. Hefur Ísland þá efnahagslega hagsmuni af því? Ég held ekki. Ég held að það sé ekki hægt að færa fyrir því nein rök. Hefur Ísland pólitíska hagsmuni af því? Ég tel ekki að það sé hægt að svara þeirri spurningu fyrr en menn hafa farið ítarlega yfir þessa umræðu. Og ég vil segja við virðulegan utanrrh. að mér finnst nú ekki neitt samhengi í því að leggja kapp á það að við göngum í þennan klúbb og hafa síðan engan fastafulltrúa þar sem víðtækasta umræðan um nýskipun öryggismála í heiminum fer fram. Það er bara ekki ,,prófessjónelt``, virðulegi utanrrh. ( Utanrrh.: Við verðum að laga það.) Ja, það er ágætt að laga það. Ég vona að ráðherrann finni einhverja góða menn í það. En mér er það mikil alvara vegna þess að ég tel að það sé ekki við hæfi að gera þetta svona með þessum hætti og það vekur upp spurningar um það hvort það er yfir höfuð nokkurt samhengi í því sem þarna er verið að gera.
    Eins og menn heyra á þessari ræðu er ég í dag kannski ekki í miklu skapi til þess að fara að hjóla mikið í þetta. Ég tel að við getum farið yfir þetta í utanrmn. og rætt það fram og aftur og svo getum við haldið þessari umræðu áfram. Hitt hins vegar finnst mér aðalatriðið að ríkisstjórnin velti því fyrir er hvort hún er í raun og veru tilbúin til víðtækrar umræðu hér á vettvangi þings eða flokkanna um nýskipan í utanríkisstefnu Íslendinga.