Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 18:07:00 (6945)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum hér í dag í rauninni komin í umræðu sem ef allt hefði verið með felldu hefði átt að fara fram í nóvember sl. áður en hæstv. umhvrh., staðgengill utanrrh., hélt utan og undirritaði skjal um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það hefði að mínu mati verið eðlilegra að leita eftir vilja fyrir fram á því sem hér er til umræðu heldur en eftir á, því að eins og við sjáum á tillögunni sem hér liggur fyrir er hér einfaldlega um viljayfirlýsingu að ræða en ekki neina fullgildingu á aukaaðildarskjali eða öðru slíku, þannig að ég fæ ekki séð að það sé nokkur formleg hlið á málinu sem hefði átt að hindra ríkisstjórnina í því að leita eftir vilja Alþingis fyrir fram. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál vegna þess að eins og hefur komið fram í máli annarra erum við að tala um aðild að hernaðarbandalagi en ekki einhverjum Rotary- eða Lions-klúbbi. Og það er í rauninni í andstöðu, finnst mér, við allt sem við getum kallað þingræði og lýðræði að gera slíkt án þess að bera það undir þingið. Ég mótmælti þessu í nóvember sl. og ég vil ítreka þau mótmæli núna að það skuli farið með þetta mál með þessum hætti.
    Að mínu mati hefur aðildin að Vestur-Evrópusambandinu aldrei verið rökstudd af neinu viti út frá öryggishagsmunum Íslendinga. Aðalatriðið hér í nóvember þegar við ræddum málið utan dagskrár að beiðni Steingríms Hermannssonar og aðalatriðið a.m.k. í tillögunni eins og hún liggur hér fyrir finnst mér vera það að sjónarmið Íslands geti heyrst í þessum samtökum, að það sé svo mikilvægt að sjónarmið Íslands og Íslendinga heyrist í þessum samtökum. Í sjálfu sér finnst mér þetta ekki vera rök fyrir aðild að þessum samtökum fremur en öðrum. Það verða aðrir hagsmunir að koma þar til heldur en bara þeir að rödd okkar heyrist.
    Það má kannski segja að það hafi verið bætt úr þessum skorti á rökum með sérstakri skýrslu sem nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hefur sent frá sér og sem hefur verið dreift hér á þinginu þó ekki sé í formi sérstaks þingskjals. Sú skýrsla ber það greinilega með sér að hún er skrifuð með það fyrir augum að rökstyðja veru hers hér á landi og aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu. Með öðrum orðum virðist sem nefndin hafi átt að greina og leggja mat á stöðu Íslands með tilliti til þessara niðurstaðna, þ.e. niðurstöðurnar voru gefnar fyrir fram og síðan átti að rökstyðja þær í þessari skýrslu. Ég hygg að það sé þess vegna sem stjórnarandstöðunni var ekki boðin aðild að þessari skýrslugerð vegna þess að niðurstöðurnar voru gefnar fyrir fram. Það átti ekki að leggja hlutlægt mat á stöðu mála og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna í dag heldur að koma með réttlætingu á tilteknum niðurstöðum sem gefnar voru fyrir fram.
    Ég heyrði það á þeim þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni að hann tók ekki skýrsluna sem slíka til umfjöllunar hér og sagði að þingflokkur Alþb. hygðist beita sér fyrir sérstakri umræðu um þessa skýrslu. Mér var ekki kunnugt um að þeir vildu standa þannig að málum og ég leit á þessa skýrslu sem nánast óaðskiljanlegan hlut af þeirri þáltill. sem hér er og mun því fara nokkrum orðum um skýrsluna.
    Að mínu mati eru mjög sérkennilegar þversagnir í skýrslunni. Annars vegar er viðurkennt í henni að endalok kalda stríðsins breyti aðstæðum í heiminum. Þau breyti öryggishagsmunum þjóða og breyti öryggishugtakinu. Í skýrslunni er að finna ákveðna skilgreiningu á öryggishagsmunum og þeir eru tíundaðir. Það eru náttúrlega landvarnirnar sem skipa stærstan sess í þessari skýrslu en þar að auki er nefnt sem öryggishagsmunir: yfirráð yfir auðlindum, traust stjórn efnahagsmála, lýðræðislegir stjórnarhættir, innra öryggi, almannavarnir, umhverfisvernd og orðstír Íslands.
    Mér finnst að með þessu sé verið að opna á ákveðna umræðu þó hún sé vissulega háð takmörkunum og þó ekki sé í sjálfu sér mikið gert með þessa öryggishagsmuni í skýrslunni sem slíkri því höfuðáherslan í skýrslunni er á landvarnirnar en ekki á þessa svokölluða aðra öryggishagsmuni sem að mínu mati vega mjög þungt. En þarna er ákveðin opnun sem menn sjá í þessum málum og skoða með tilliti til breyttrar heimsmyndar en um leið og þetta er viðurkennt í skýrslunni þá virðist nefndina bresta kjark til að takast á við þær breytingar sem orðið hafa í heiminum, takast á við breytta heimsmynd. Nefndin eyðir, eins og ég sagði, öllu sínu púðri í hefðbundin landvarnarsjónarmið. Hún eyðir öllu sínu púðri í að réttlæta veru hers hér á landi og réttlæta aðild að Vestur-Evrópusambandinu.
    Mér sýnist að með þessari miklu áherslu á veru hers og aðild að Vestur-Evrópusambandinu sé verið að fegra, getum við sagt, þá staðreynd að við erum svo efnahagslega háð hernum að íslensk stjórnvöld mega greinilega ekki til þess hugsa að herinn fari. Síst af öllu við þær aðstæður sem nú eru í íslenskum efnahagsmálum og atvinnulífi. Þetta er í sjálfu sér ekkert skrýtið vegna þess að á undanförnum árum hefur um 10% af útflutningstekjum okkar komið af viðskiptum við herinn. Þetta eru svona 7--10 milljarðar á ári hverju og ef margfeldisáhrifin af þessu eru skoðuð þá erum við að tala um miklu stærri upphæðir. Á það var m.a. bent í úttekt sem gerð var hjá Frjálsri verslun að með margfeldisáhrifunum mætti hugsanlega reikna þetta upp í 35 milljarða ísl. kr., þ.e. 35 milljarða ísl. kr. af þjóðarframleiðslunni megi rekja til beins eða óbeins arðs af hernum. Hér eru því miklir hagsmunir á ferðinni. Á þessu sést það svart á hvítu hversu hættuleg þessi efnahagslegu tengsl við erlendan her eru því þau brengla í dag raunsætt mat á öryggishagsmunum þjóðarinnar.
    Þetta finnst mér víða koma fram í skýrslunni og að oft á tíðum sé eins og menn rembist eins og rjúpan við staurinn að sjá einhverja hernaðarógn sem í raun er ekki lengur fyrir hendi. T.d. er sagt í skýrslunni: ,,Breyttar pólitískar ástæður valda því að hernaðarógn er ekki fyrir hendi í Norður-Atlantshafi. Hún gæti hins vegar magnast á nýjan leik því norðurfloti Rússa er, þrátt fyrir umtalsverða fækkun, enn stór og öflugur.``
    En það er ekki nóg að hafa stóran og öflugan flota. Hann verður að hafa eitthvert mótív. Hann verður að hafa eitthvert viðfang og það verður ekki beint séð hvað floti Rússa ætti að gera hér við þær aðstæður sem eru í heiminum í dag.
    Þá sýnist mér líka að öryggishagsmunir okkar og þá landvarnarhagsmunir séu skilgreindir ekki út frá okkar öryggishagsmunum heldur út frá öryggishagsmunum Bandaríkjanna. Það sé reynt með einhverjum hætti að benda á að það sé Bandaríkjamönnum mikill hagur að hafa hér herstöð. Þannig er t.d. sagt að Keflavíkurstöðin sé enn þá mjög mikilvæg fyrir millilendingar vegna loftflutninga frá Norður-Ameríku til átakastaða í og utan Evrópu. Ég fæ ekki séð að það þjóni okkar öryggishagsmunum eða landvarnarhagsmunum þó stöðin sé mikilvæg fyrir millilendingar fyrir Bandaríkjamenn.
    Þá er sagt líka að nú sé lögð áhersla á að til reiðu séu hersveitir sem brugðist geti hratt við yfirvofandi hættu. ,,Fækkun í bandarískum hersveitum í Evrópu úr um 300 þús. fyrir örfáum árum í 100 þús. árið 1996 veldur því að leiðin yfir hafið verður hernaðarlega mikilvægari en áður.`` --- Hernaðarlega mikilvægari fyrir hvern? Sú spurning hlýtur að vakna.
    Mér sýnist með þessu að öryggishagsmunir okkar séu skilgreindir út frá þörfum annarra.
    Ég var að tala um hin efnahagslegu tengsl við herinn og hversu herstöðin og þær tekjur sem við höfum af henni skipta miklu máli fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.
    Einn af þeim sem sat í nefndinni sem vann skýrsluna er þingmaðurinn Karl Steinar Guðnason og það hefur komið fram í viðtölum við hann að hann hefur af þessu nokkrar áhyggjur sem fyrrverandi verkalýðsforingi á Suðurnesjum. T.d. birtist við hann viðtal í Frjálsri verslun ekki alls fyrir löngu. Það viðtal var m.a. gert að umfjöllunarefni í leiðara Morgunblaðsins, 8. ágúst 1991. Þar er vitnað í orð Karls Steinars --- ég vitna hér í leiðara Morgunblaðsins þar sem Karl Steinar er að tala um fækkun starfsfólks varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hann segir:

    ,,Við höfum ævinlega fengið það upphafið en núna hefur það ekki fengist. Breytingarnar í Evrópu hafa gert það að verkum að það hefur orðið ,,gengisfall`` á stöðinni hér. Verkalýðsfélagið hefur reynt að fá þessu breytt því eftir því sem starfsfólki fækkar verður meira álag á fjölda vinnustaða. Okkur hefur ekki tekist að koma í veg fyrir þetta og það lítur út fyrir að breytingarnar, sem ég var að minnast á, geri það að verkum að þetta verði látið halda áfram enn um sinn að einhverju ráði.``
    Með öðrum orðum hefur verkalýðsforinginn Karl Steinar Guðnason áhyggjur af fækkun starfsfólks hjá hernum. Auðvitað getur maður skilið það út frá hreinu atvinnusjónarmiði en hins vegar er það ekki mjög stórmannlegt út frá öðrum sjónarmiðum.
    Morgunblaðið segir í leiðaranum: ,,Í tilefni af þessum ummælum Karls Steinars Guðnasonar er ástæða til að undirstrika nokkur grundvallaratriði varðandi varnarliðið á Keflavíkurflugvelli: Það kom hingað árið 1951 vegna þess að mikil hætta var á ófriði í heiminum og að Kóreustríðið mundi breiðast út.`` --- Svo segir: ,,Dvöl varnarliðsins hér á landi var framlag okkar Íslendinga til sameiginlegra varna hins frjálsa heims gegn þeirri ógnun sem stafaði frá Sovétríkjunum.`` --- Þetta eru náttúrlega hefðbundin Moggafræði. Síðan segir:
    ,,Af augljósum ástæðum má búast við umtalsverðum samdrætti í umsvifum varnarliðsins á næstu árum og minnkandi framkvæmdum. Þetta er eðlileg þróun vegna þess að friðarhorfur í okkar heimshluta hafa batnað og samskipti aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Sovétríkjanna eru með allt öðrum hætti en áður var.``
    Síðan segir í leiðaranum: ,,Það er beinlínis hættulegt fyrir íslensku þjóðina að verða háð veru varnarliðsins hér vegna þeirrar atvinnu sem það veitir og vegna þeirra tekna sem við höfum haft af dvöl þess hér.``
    Þannig sér Morgunblaðið þetta fyrir sér og undir þetta sjónarmið get ég tekið núna. Ég tel hættulegt fyrir íslensku þjóðina, og það er auðvitað ekkert ný saga, að vera of efnahagslega háð varnarliðinu og það þarf að reyna með öllum tiltækum ráðum að snúa þessu til betri vegar.
    Ég held að það sé enginn vafi á því að mikilvægi herstöðvarinnar hér, þó reynt sé að segja það í skýrslunni að hún muni vera mikilvæg í framtíðinni og skipta verulegu máli fyrir Bandaríkjamenn, muni minnka talsvert á komandi árum.
    Nýlega var ítarleg umfjöllun í The Economist um varnarkerfi 21. aldarinnar eins og sú úttekt hét. Þar er einmitt bent á og lögð á það áhersla að flotar og varnir á úthöfunum munu skipta mun minna máli á 21. öldinni en þeir gerðu á þessari öld. Og einmitt af þeim sökum held ég að hernaðarlegt mikilvægi Íslands muni minnka verulega. Við munum ekki þurfa á hefðbundnum landvörnum að halda í nánustu framtíð, þá er ég að tala um hefðbundnar landvarnir, og ég held að aðild að Vestur-Evrópusambandinu þjóni engum slíkum tilgangi fyrir okkur.
    Fyrir þessu eru auðvitað ýmsar ástæður. Ein sú stærsta er að endalok Sovétríkjanna þýddu að það er ekkert ríki til lengur sem getur ógnað eða valdið vestrænum ríkjum búsifjum á hernaðarsviðinu á einhvern hnattrænan mælikvarða. Það er ekkert það veldi til sem gæti lagt undir sig meginland Evrópu eins og var alltaf talin yfirvofandi hætta á að Sovétríkin mundu reyna. Það er ekkert það ríki til lengur sem getur gert þetta. Það er ekkert það ríki til lengur sem getur lagt Bandaríkin í rúst með kjarnorkuvopnum sínum, haft flota á öllum helstu úthöfum eða stutt við bakið á vinveittum þjóðum í flestum álfum með fjármagni eða vopnum. Slíkt ríki er ekki til lengur, þ.e. eina ríkið í heiminum í dag sem hefur eitthvert slíkt vald eru Bandaríkin. Hinn póllinn, sem voru Sovétríkin til skamms tíma, er úr sögunni og ég held að við þurfum tæpast að verjast Bandaríkjunum, ekki er það inni í myndinni, eða hvað?
    Það breytir ekki því að Rússland er enn næstöflugasta kjarnorkuveldið. Í Rússlandi eru í dag efnahagsleg og pólitísk upplausn sem vissulega gæti leitt til svæðisbundinna átaka og þessi svæðisbundnu átök geta auðvitað smitað út frá sér. En jafnvel þó að þjóðernissinnar og flokksjálkar í Sovétríkjunum næðu undirtökunum þar á morgun þá ógnar það ekki íslenskum öryggishagsmunum. Það ógnar ekki íslensku fullveldi og íslenskri lögsögu. Efnahagskerfi og pólitískt stjórnkerfi í Sovétríkjunum eru í molum. Þar eru innanlandsátök og yrðu væntalega líka í kjölfar einhvers konar valdatöku þjóðernissinna og íhaldsmanna. Ég held að þeir sem þar næðu völdum gætu aldrei haft fullt vald á hernum þó þeir gjarnan vildu og það tæki þá þó nokkur ár að ná fyrri styrk þannig að, eins og ég segi, jafnvel þó að þetta gerðist á morgun þá væri það ekki ógnun við íslenska öryggishagsmuni.
    Þrátt fyrir þá breytingu að Sovétríkin séu úr sögunni sem það stórveldi sem þau voru og kalda stríðinu sé lokið er ekki þar með sagt að heimurinn sé einhver friðarins staður. Arfleifð kalda stríðsins er m.a. gífurlegt safn vopna í höndum alls kyns ríkisstjórna, herja og hreyfinga um allan heim. Í The Economist var sagt frá því að í dag væru líklega 23 ríki sem hvert um sig ættu yfir 1.000 skriðdreka þannig að vopnabúrið er gífurlegt og þetta er bara lítill partur af því. Þar að auki ráða sex ef ekki níu ríki yfir kjarnorkuvopnum. Þessi tilurð vopnanna er í eðli sínu ógnun við öryggi alls mannkyns. Þegar við lítum á málið í þessu samhengi er hugmyndin um hefðbundnar landvarnir í rauninni fáránleg. Það sem er líklegast til að gerast á næstu árum og áratugum í þessum málum, ef við erum að horfa á átök og ófrið, er að átökin verði staðbundin.
    Í fyrsta lagi gætu verið átök þar sem vesturveldin teldu hagsmunum sínum ógnað, t.d. aðgangi þeirra að auðlindum. Það gerðist einmitt við Persaflóa. Líklegustu átakasvæðin í þessum efnum eru ríki

múslima og Norður-Kórea. Í öðru lagi þá gætu verið staðbundin átök sem tengjast þjóðernisátökum af ýmsu tagi sem vesturveldin gætu dregist inn í á einhvers konar samviskuforsendum, t.d. í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu því íbúar, almenningur í heiminum, gerir einfaldlega þær siðferðiskröfur að vesturveldin skipti sér af þessu með einhverjum hætti.
    Í því sambandi er hins vegar athyglisvert og umhugsunarefni að ekki fyrir mjög mörgum árum var hægt að senda unga menn í aðra heimshluta, eins og t.d. í Víetnamstríðinu, sem fallbyssufóður til þess að stöðva svokallaða útbreiðslu heimskommúnismans. Núna treysta ráðamenn sér ekki til þess að senda unga menn til þess að stöðva ofbeldisverk gegn saklausum borgurum, eins og t.d. í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu. Þeir virðast eiga mun erfiðara með að réttlæta það heima fyrir en þeim gekk að réttlæta það á árum áður að senda menn til þess að berjast við heimskommúnismann.
    Áður var kannski hægt að slá pólitískar keilur heima fyrir með slíkum hlutum vegna þess að gagnrýnendur þátttöku í slíkum styrjöldum mátti alltaf saka um þjónkun við heimskommúnismann í Bandaríkjunum eða þjónkun við kapítalismann í hinum sósíalísku ríkjum. Núna vantar einfaldlega hin stóru hugmyndakerfi sem allt útskýrðu og allt réttlættu.
    Í þessari umfjöllun í The Economist, sem ég var að segja frá, þá var á það lögð áhersla að nýjar aðstæður útheimtu nýtt og mun víðtækara öryggiskerfi en áður, að bæði NATO og Vestur-Evrópusambandið væru allt of svæðabundin bandalög. Þetta væru bandalög sem byggðu á úreltri hugmynd um einn fyrir alla og allir fyrir einn andspænis sameiginlegum óvini en þessi sameiginlegi óvinur sé ekki lengur til staðar.
    Ég held að það ætti líka að vera okkur athugunarefni í þessu sambandi að með því að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu erum við auðvitað, eins og hér hefur verið bent á, að fara inn í Evrópustoðina í NATO. Þá vaknar einmitt sú spurning: Ef það nú gerist, eins og stefnt er að í Evrópubandalaginu, þ.e. að Evrópubandalagið reki sameiginlega utanríkis- og varnarstefnu, ætlum við þá að tala einum rómi með EB-ríkjunum í Vestur-Evrópusambandinu? Hvar og hvernig ætlum við að gæta hagsmuna okkar og láta sjálfstæða rödd okkar hljóma? Ætlum við að vera í þessum einróma kór Evrópubandalagsins í Vestur-Evrópusambandinu eða með hvaða hætti ætlum við að láta þessa rödd hljóma sem mönnum er svo í mun að heyrist í Vestur-Evrópusambandinu?
    Eins og ég sagði var í þessari grein bent á að það muni draga mjög úr mikilvægi flotans, að herfloti muni hætta að ferðast um úthöfin eins og áður var. Hins vegar er það ein tegund skipa sem mun þó ekki glata mikilvægi sínu samkvæmt þessari úttekt og það er kafbátarnir. Kjarnorkuknúnir kafbátar og kafbátar hlaðnir kjarnorkuvopnum. Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg breyting í afvopnunarsamningum af ýmsu tagi, bæði á landi og á höfunum. Engu að síður er talið að árið 2003 muni Bandaríkjamenn eiga 2.500 langdræga kjarnaodda og þar af 1.700 undir yfirborði sjávar í kafbátum. Svipaða sögu er að segja af Rússum. Bretar eru taldir eiga um 300--400 og Frakkar 384. Það er einmitt þetta sem er veruleg ógnun við öryggishagsmuni Íslendinga. Okkar stærsta öryggismál er að mínu mati að koma kjarnorkunni burt úr kafbátunum og reyna með öllum tiltækum ráðum að vernda lífríki sjávar. Ég hef margsinnis lagt á það áherslu í umræðu að við þurfum að horfa fyrst og síðast á öryggishagsmuni okkar út frá þessu sjónarmiði. Mengunarslys í höfunum í tengslum við árekstur eða óhöpp í kafbátum geta svipt okkur lífsbjörginni, fullveldinu og lögsögunni í einu vetfangi og þá dugir afskaplega lítið að hafa landvarnirnar í lagi.
    Á undanförnum árum og áratugum hafa óhöpp verið mjög tíð í kafbátum og þó að umferð þeirra hafi minnkað verulega í kjölfar þíðunnar þá eiga þau sér engu að síður enn þá stað. Á árunum 1954--1988 var tilkynnt um 200 óhöpp í kjarnorkuknúnum kafbátum, sjö hafa farist, fimm sitja enn á hafsbotni og sex af þessum sjö hafa farist á Norður-Atlantshafi.
    Þessir kjarnorkuknúnu kafbátar, sem um er að ræða, eru eins og fljótandi kjarnorkuver og með þeim er nánast ekkert alþjóðlegt eftirlit eða reglur. Ef kjarnorkuslys verða í hafinu er afskaplega lítið hægt að gera við því. Það er ekki hægt að hreinsa upp eins og var reynt að gera í Tsjernóbíl. Þó skaðinn væri náttúrlega ærinn þar þá höfðu menn þann möguleika að hreinsa upp. Það er ekki hægt að gera í hafinu. Þau efni sem frá kafbátum koma verða einfaldlega að dreifast með straumum og dvína með tíma. Þau dvína ekki ört af þeirri einföldu ástæðu að hraði hafstraumanna er mun minni en vindhraðinn. Ef kjarnorkuslys verður á landi þá dreifist mengunin hraðar. Þetta dvínar því ekki ört í hafinu. Þessi slys eru staðbundnari og þar af leiðandi sterkari.
    Íslendingar hafa oft lagt áherslu á þennan þátt á alþjóðavettvangi og m.a. hefur núv. utanrrh. margsinnis ítrekað nauðsyn þess að draga úr notkun kjarnorku á höfum úti. Ég minnist þess m.a. að Helgi Gíslason, sem þá hefur líklega verið fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, flutti mjög merka ræðu um þetta efni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1991 þar sem hann lagði á þetta mikla áherslu. Ræðan er reyndar hér á ensku en í fréttatilkynningu frá utanrrn. segir m.a.:
    ,,Meginefni ræðunnar laut að þeirri hættu sem getur stafað að lífríki sjávar vegna slysa þar sem kjarnakljúfar á höfunum koma við sögu. Rætt er um hættuna og mengun sjávar af völdum geislavirkra efna og lýst þeirri afstöðu að þrátt fyrir alþjóðlegar aðgerðir til að draga úr þeirri hættu séu þær ófullnægjandi hvað varðar slys þar sem kjarnakljúfar koma við sögu. M.a. er bent á að hátt á sjötta hundrað kjarnakljúfar séu í skipum og kafbátum. Fyrirbyggjandi öryggisreglur nái einungis til lítils hluta þeirra.
    Þá er gerð grein fyrir þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að hún telji æskilegt að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verði með aðstoð sérfræðinga falið að láta gera könnun á slysum á höfunum þar sem kjarnakljúfar koma við sögu, meta möguleg áhrif þeirra og gera tillögur um aðgerðir sem gætu dregið úr þeirri hættu sem af þeim getur stafað fyrir lífríki sjávar.
    Jafnframt er í ræðunni tilkynnt um að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verði lögð fram sérstök greinargerð um þetta efni af hálfu Íslands.``
    Nú vil ég spyrja út í þetta. Annars vegar hvað gerðist með þessa hugmynd Íslendinga að Sameinuðu þjóðunum verði falið að láta gera könnun á slysum á höfunum þar sem kjarnakljúfar koma við sögu. Hvað varð um þessa sérstöku greinargerð um þetta efni af hálfu Íslands? Hefur hún verið lögð fram?
    Mér finnst hins vegar áherslan á þessi mál hafa minnkað verulega að undanförnu. Það kann að hluta til að stafa af því að umferðin um höfin er miklu minni en hún var en þó má þessi áhersla ekki hverfa algjörlega eins og nú hefur gerst. Ég sé t.d. ekki að minnst sé á þetta einu orði í skýrslu nefndarinnar um öryggis- og varnarmál. Það er að vísu hálf blaðsíða um umhverfismál í skýrslunni en því miður er sá málflutningur hræðilega léttvægur vil ég segja. Það sem mér finnst kannski léttvægast við þetta í skýrslunni er að aðalatriðið eru hvalveiðarnar og hvalveiðimálin. Ég sé ekki hvaða gífurleg öryggis- og varnarmál þar eru á ferðinni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur þess orðið vart að hagsmunamál sem Íslendingar töldu fyrst og fremst varða þá sjálfa sæta vaxandi afskiptum annarra ríkja. Hvalveiðar eru dæmi um mál af þessu tagi en hafa má hvalamálið til marks um nauðsyn þess að komið verði í veg fyrir að óraunhæfar kröfur alþjóðlegra öfgahópa í umhverfismálum hafi áhrif á skynsamlega nýtingu auðæfa sjávar í kringum landið.``
    Ég fæ alls ekki séð hvaða erindi hvalamálið á í skýrslu um öryggis- og varnarmál. Nema það sé til þess að kasta einhvers konar rýrð á þessa svokölluðu alþjóðlegu öfgahópa í umhverfismálum sem hafa hins vegar margir hverjir unnið mjög þarft starf einmitt í tengslum við höfin, að koma í veg fyrir mengun hafsins og vinna gegn mengunarslysum á hafi úti. Þessir hópar hafa í rauninni stutt við bakið á sjónarmiðum sem Íslendingar ættu að hafa í heiðri. Ég vil benda á nýlega --- þó það sé kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um samtökin Greenpeace á Alþingi þá ætla ég samt að leyfa mér það og vona að það fyrirgefist og ekki sé svo illa komið fyrir þingmönnum að þau séu bara útlæg gerð úr þingsölum nema í neikvæðri merkingu --- fréttatilkynningu sem þau hafa sent frá sér, dags. 22. mars 1993, þar sem þau eru að vekja athygli á árekstri sem varð á milli tveggja kjarnorkuknúinna kafbáta nú nýverið. Annar var bandarískur og hinn var sovéskur. Þau fordæma það að þessi atburður skuli hafa átt sér stað og spyrja einmitt þeirrar spurningar hvernig á því standi að nú þegar vesturveldin séu að berjast fyrir því að aðstoða Rússa við að koma fram ákveðnum umbótum heima fyrir, þá sé bandarískur kjarnorkuknúinn kafbátur enn að ferðast um við strendur Rússlands. Það er spurt ef Bandaríkin vilja styðja við lýðræðislega þróun í Rússlandi hvort ekki ætti frekar að senda aðstoð fremur en kafbáta. Það er ekki nema eðlilegt að spurt sé.
    Þá er lögð áhersla á í þessari fréttatilkynningu og ályktun frá Greenpeace að það þurfi að reyna að vinna gegn því að byggðir séu fleiri kjarnorkukafbátar og unnið að því að taka úr umferð þá sem þegar eru til staðar. Mér finnst því koma fram í ýmsu því sem samtök eins og Greenpeace eru að gera mjög mikilvægur stuðningur við okkar mikilvægustu öryggismál. Ég sakna þess satt að segja mjög að þessi nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar skuli ekki minnast á þetta einu orði.
    Ég fletti lauslega í gegnum skýrslu utanrrh. sem var dreift á borð okkar þingmanna í dag og ég sá heldur ekki að þar væri eitt einasta orð um þessa hluti og þykir mér að þetta hafi horfið allsnögglega úr stefnu utanrrh. sem ég hélt þó og var satt að segja að vona og fagnaði að hann skyldi hafa gerst talsmaður fyrir.
    Um skýrsluna almennt vil ég segja að mér finnst almennt vera í henni mikil fortíðarhyggja, að enn þá svífi kaldastríðsandinn þar yfir vötnum og enn séu skýrsluhöfundar í rauninni þátttakendur í umræðu gærdagsins. Ég gæti auðvitað tilfært ýmis dæmi um þetta. T.d. stakk það mig verulega, og ég mundi kannski vilja spyrja út í það vegna þess að það vantar allan rökstuðning fyrir því, sem segir í skýrslunni en það hljóðar svo: ,,Nábýli við varnarliðið hefur eflt sjálfstraust þjóðarinnar í menningarlegu tilliti og aukið styrk hennar til að bregðast við nýjum aðstæðum á alþjóðlegri upplýsingaöld.`` --- Þessi setning stendur þarna algjörlega órökstudd, eins og hálfgerður hortittur í þessu öllu saman. Ég sé eiginlega ekki hvaða erindi hún á þarna inn og hvernig þetta sjálfstraust þjóðarinnar í menningarlegu tilliti, sem hún hefur öðlast af nábýlinu við herinn, lýsir sér. Það væri fróðlegt að fá svolítinn rökstuðning fyrir því. Mér sýnist að þetta sé einhver setning sem sé innlegg í umræðu gærdagsins en ekki dagsins í dag eða morgundagsins.
    Þá er líka dálítið sérkennilegt, eða það er svo sem ekkert sérkennilegt, það er eins og við má búast. Þegar talað er um endalok kalda stríðsins í skýrslunni er sagt að málstaður lýðræðis og frelsis hafi borið sigur úr býtum í kalda stríðinu. Ég fæ ekki séð að málstaður lýðræðis og frelsis hafi unnið neinn sérstakan sigur í þessu stríði fremur en öðrum því fórnarlambið í öllum stríðum er kannski sannleikurinn fyrst og fremst en það sem bar sigur úr býtum í kalda stríðinu var markaðskerfið. Það bar jú sigur úr býtum því það sem flestir stefna að nú er markaðskerfið. Hins vegar verða menn að átta sig á því að einhverju sem við getum kallað ,,kapítalsískan púralisma`` fylgir ekkert endilega lýðræði og frelsi. Þannig getum við tekið til marks Þýskaland Hitlers. Það var kapítalismi sem þar var á ferðinni. Það var markaðskerfi en það var ekkert lýðræði og frelsi. Við getum tekið Singapore sem dæmi. Það er ekki þar með sagt að þó kapítalismi sé í Singapore sé þar lýðræði og frelsi. Við getum tekið Kína sem dæmi. Kína er að feta sig núna inn á braut aukinnar markaðsvæðingar, skulum við segja, en því hefur ekki fylgt neitt lýðræði eða frelsi í Kína. Þvert á móti hafa þeir heldur hert tökin þó þeir hafi opnað fyrir erlendum fjárfestingum og opnað fyrir markaðinum að ýmsu leyti.
    Ég held því að lýðræði, frelsi og mannréttindi, vil ég segja líka, eigi enn þá langt í land. Við getum bara horft á okkar eigin álfu, Evrópu. Það er skortur á mannréttindum að hafna, eins og gert er, vinnuframlagi milljóna manna, að dæma ekki bara milljónir heldur tugi milljóna manna til iðjuleysis, til að vera án hlutdeildar í rekstri samfélagsins eins og gerist. Slíkt á ekki skylt við lýðræði, frelsi eða mannréttindi.
    Það er staðreynd að öryggishagmunir þjóða eru kannski samofnir nú sem aldrei fyrr og ég held að virkustu meðölin til þess að tryggja þessa öryggishagsmuni, ekki bara okkar heldur flestra þjóða, sé að draga úr því bili sem er milli ríkra og fátækra, bæði ríkra og fátækra einstaklinga og þjóða, m.a. með því að auka fjárfestingu og uppbyggingu í löndum suðursins og í Austur-Evrópu. Í umhverfismálum þurfa iðnríkin á Vesturlöndum að taka á sig auknar kvaðir, hertar reglur, en jafnframt þarf að byggja upp raunhæfar áætlanir fyrir fátækari ríki heimsins í umhverfismálum.
    Í þessu sambandi held ég að mikilvægast sé að styrkja samtök og stofnanir sem eru alþjóðleg í eðli sínu eins og Sameinuðu þjóðirnar og RÖSE, að taka á málunum ,,glóbalt`` --- ef við þýðum það hnattrænt þá eigum við að taka á málum hnattrænt. Við Íslendingar getum unnið að þessu. Við getum unnið að þessu innan Norðurlandaráðs. Við getum unnið að þessu innan Evrópuráðsins. Við getum unnið að þessu innan EFTA og EES. Við getum unnið að þessu innan Sameinuðu þjóðanna, RÖSE og fleiri stofnana. Það eru margar stofnanir þar sem við getum látið rödd okkar heyrast og komið þessum sjónarmiðum á framfæri og ég held að við þessar aðstæður eigum við ekkert erindi inn í Vestur-Evrópusambandið.