Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 19:02:41 (6947)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa stuðningi við þá tillögu sem hér liggur fyrir til þál. um stuðning við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu. Ég hef lengi verið talsmaður þess að Íslendingar ættu að tengjast þessum samtökum og fá þar rétt til þátttöku til þess að við gætum gætt okkar hagsmuna og látið rödd okkar heyrast og tekið þátt í umræðum um þau mál sem þar eru á dagskrá. Ég tel það enn þá mikilvægara nú eftir að þetta samband ríkja hefur fengið nýtt hlutverk eins og drepið hefur verið á í þessum umræðum.
    Umræðurnar hafa að mínu mati verið mjög fróðlegar um margt. Því miður dálítið dreifðar því hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varði mestum hluta ræðu sinnar til þess að fjalla um skýrslu um öryggis- og varnarmál Íslands, skýrslu sem samnin var af nefnd sem ég átti sæti í ásamt fjórum öðrum mönnum. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég mun ekki fara út í umræður um þá skýrslu að þessu sinni og fagna því sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykn. að Alþb. hefur beðið um sérstaka umræðu í þinginu um þessa skýrslu og þá gefst tækifæri til þess að ræða efni hennar nánar og draga ályktanir af því sem þar segir.
    Annars þótti mér ræða hv. 8. þm. Reykn., formanns Alþb., mjög merkileg um margt, ekki síst þegar hann sagði í upphafi að ef stjórnmálaflokkarnir settust niður og ræddu um stöðu Íslands í utanríkis- og öryggismálum á þeim tímum sem við nú lifum þá væri ekki unnt að gefa sér það fyrir fram um hvað ágreiningur yrði á milli flokkanna. Þetta finnst mér mjög merkileg yfirlýsing frá formanni Alþb. og til umhugsunar og íhugunar fyrir okkur þingmenn og hljóti að koma til álita bæði í síðari umræðum um þetta mál og um þá skýrslu sem nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar samdi og einnig að sjálfsögðu þegar rædd verður skýrsla utanrrh. sem lögð var fram á þinginu í dag.
    Ég get einnig tekið undir með hv. 8. þm. Reykn. um nauðsyn þess að vel sé hugað að þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna og minni á að utanrmn. ályktaði um nauðsyn þess sl. haust þegar fjárlagatillögur voru bornar undir hana að menn gættu vel að hagsmunagæslu okkar hjá Sameinuðu þjóðunum. Það mátti lesa það úr ályktun nefndarinnar um það efni að hún taldi ekki eðlilegt að stóll fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum væri auður lengi og vona ég að hæstv. ríkisstjórn taki þær ábendingar til vinsamlegrar athugunar.
    Ég get einnig tekið undir það með hv. 8. þm. Reykn. að aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu er angi af miklu stærra máli, er angi af þeim breytingum sem eru að verða í alþjóðamálum og heimsmálum en hins vegar er ég ósammála honum um að ekki sé eðlilegt að taka þetta mál sérstaklega fyrir og afgreiða það og það spilli engu fyrir okkur um frekari þátttöku og frekari umræðu um stöðu okkar við breyttar aðstæður. Þvert á móti geri aðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu okkur auðveldara en ella að halda okkar málstað fram og koma okkar sjónarmiðum á framfæri.
    Það barst boð um það til þriggja aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, sem ekki eru í Evrópubandalaginu, að gerast aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu og því boði þurfti að svara fyrir ákveðinn tíma eins og kunnugt er og þingmanninum er kunnugt um. Hér hefur verið vitnað til umræðna sem fóru fram um málið í nóvember sl. þegar ritað var undir aðildarskilmálana og plöggin. Þá var það ljóst að það voru þær dagsetningar sem við stóðum frammi fyrir og þá var haldinn fundur í utanrmn. og menn komu sér saman um þá tilhögun sem varð á þessu máli, að borin yrði upp sérstök þáltill. um málið og hana erum

við að ræða nú. Hvað sem líður fyrri ágreiningi um form málsins þá finnst mér að á þeim fundi í utanrmn. og þeim viðræðum sem nefndin átti við utanrrh., þá stöndum við í þeim sporum sem við gerum í fullri sátt um málsmeðferðina. En að sjálfsögðu breytir það ekki því sem hv. 8. þm. Reykn. sagði að hér er um anga af miklu stærra máli að ræða sem nauðsynlegt er að ræða, ekki aðeins nú á þessu þingi og í tengslum við þetta mál, heldur áfram. Við Íslendingar þurfum að velta því gaumgæfilega fyrir okkur hvernig við ætlum að skipa okkur við þessar nýju aðstæður.
    Þá skýrslu sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði að umtalsefni lít ég á sem efnivið í þær umræður sem ákveðinn --- ekki vil ég nota orðið skilaboð --- efnivið í umræður um þessi mál og rökstuðning fyrir stefnumótun í málinu. Nefndin taldi sig ekki hafa umboð til þess að gera sérgreindar tillögur. Þótt áherslur hennar séu skýrar og komi fram í meginmáli skýrslunnar finnst mér að það eigi að líta á þessa skýrslu bæði fyrir stjórnarflokkana og einnig fyrir Alþingi allt, eins og Alþb. hefur gert, sem efnivið í umræður sem síðan sé unnt að taka mið af þegar menn ganga til frekari stefnumótunar.
    Í skýrslunni er oftar en einu sinni vikið að Vestur-Evrópusambandinu og þátttöku Íslands í því. Í stuttu máli má segja að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það þjóni fullkomlega hagsmunum Íslendinga í öryggis- og varnarmálum að gerast aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Nefndin telur einnig að það hefði augljósa ókosti í för með sér ef Ísland stæði utan samstarfsins í Vestur-Evrópusambandinu, eða eins og segir í skýrslunni, með leyfi frú forseta: ,,Verði raunin sú að NATO aðlagaðist með þeim hætti að verða fyrst og fremst vettvangur tvíhliða samráðs Vestur-Evrópusambandsins annars vegar og Bandaríkjanna og Kanada hins vegar er hætta á að Ísland einangrist í umræðum um öryggis- og varnarmál. Þannig yrði dregið úr möguleikum á að Ísland gæti beitt áhrifum sínum og að tillit yrði tekið til íslenskra sjónarmiða í hópi Evrópuríkja Atlantshafsbandalagsins. Yrði það afar óheppilegt, ekki síst þar sem nágrannaríki á Norður-Atlantshafi hafa gerst aðilar að Vestur-Evrópusambandinu, Bretland sem fullgildur aðili, Noregur sem aukaaðili.``
    Nefndin segir einnig, með leyfi frú forseta: ,,Ástæða er því til að fagna því að Ísland skuli hafa þegið boð Vestur-Evrópusambandsins um að ganga til liðs við sambandið sem aukaaðili. Enginn vafi leikur á að Ísland sem málsvari Atlantshafssamstarfsins á tök á að gegna þar mikilvægu hlutverki. Aukaaðild Íslands stuðlar að því að Evrópuríkin, sem í auknum mæli hafa horft til austurs, hafa hagsmuni sína í vestur á Atlantshafi í huga frekar en ella. Virk þátttaka Íslands í störfum Vestur-Evrópusambandsins mundi því þjóna því hvoru tveggja, málstað Íslands og Atlantshafsbandalagsins.``
    Mér þótti athyglisverður munur á ræðu hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, og hv. 10. þm. Reykv., Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hvað hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson virtist miklu opnari fyrir því að öryggismál Íslands yrðu tengd inn í hið alþjóðlega umhverfi og inn í hinar alþjóðlegu breytingar sem eru að verða. Hann talaði m.a. um nauðsyn þess að velta fyrir sér tengslum Íslands við Sameinuðu þjóðirnar og það öryggiskerfi sem þar er verið að efla. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir velti því fyrir sér við hvað væri átt í skýrslu okkar fimmmenninganna þegar við töluðum um það m.a. að vísa til afnota af Keflavíkurflugvelli í Persaflóastríðinu, hvað væri átt við þegar litið væri á öryggishagsmuni Íslands í því víða ljósi. Ég held að þarna sé komið að vissum kjarnapunkti þegar við ræðum um stöðu okkar nú á tímum og öryggishagsmuni. Ófriðarástand í Júgóslavíu snertir að sjálfsögðu öryggishagsmuni Íslands. Að sjálfsögðu snertir stríð fyrir botni Persaflóa öryggishagsmuni Íslands og menn verða að líta á öryggishagsmuni okkar í þessu stóra samhengi og vega og meta hvernig beri að laga stefnu okkar að breyttum aðstæðum. Ég held að skynsamlegt skref í þá átt sé að gerast aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu. Þess vegna er ég hlynntur tillögunni og tel að hún eigi að hljóta skjótan framgang.