Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 19:26:19 (6950)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég svaraði þessu ekki í ræðu minni áðan var sú að ég taldi eðlilegt að mál eins og þetta sem varða ekki beinlínis það mál sem hér er á dagskrá yrðu þá rædd í nefndinni. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. að vel má gagnrýna að umhverfisverndarþættinum eru ekki gerð nægilega rækileg skil, t.d. í þeirri skýrslu sem við munum ræða innan skamms tíma um utanríkismál en hv. þm. spurðist fyrir um það hvað hefði orðið í framkvæmd um þá tillögu sem boðuð var í umræðunum í fyrstu nefnd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna af varafastafulltrúa okkar þar, Helga Gíslasyni. Tillagan var á þá leið að fá Sameinuðu þjóðirnar til að setja upp sérstakan starfshóp til þess að fjalla um afvopnun í höfunum. Tillagan var flutt og greinargerð sett fram og þess freistað að afla stuðnings hjá allsherjarþinginu í viðeigandi nefnd við slíkri tillögu. Okkur varð því miður minna ágengt en við höfðum vonað og það var sérstaklega vegna þess að pólitískar ástæður þóttu breytast eftir að Gorbatsjov, þáverandi forseti Sovétríkjanna, og Bush Bandaríkjaforseti náðu samkomulagi um afar róttæka áætlun um niðurskurð og afvopnun sem náði einnig til hafanna. Svarið er því einfaldlega það að tilraunin var gerð en í ljósi breyttra aðstæðna fengum við ekki tilskilinn stuðning til þess að koma málinu fram.