Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 21:45:56 (6962)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það varðar svör hæstv. ráðherra við því sem ég kom inn á og kallaði hótanir hæstv. ráðherra um að ef veruleg brögð yrðu að því að sameining sveitarfélaga eða sameiningartillögurnar yrðu felldar þá yrði að hækka lágmarksíbúatöluna. Hæstv. ráðherra viðhafði efnislega þessi orð í viðtölum við fjölmiðla fyrir skömmu aðspurð að ef veruleg brögð yrðu að því að sameiningartillögurnar yrðu felldar þá yrði að hækka með lögum lágmarksíbúatölu sveitarfélaganna. ( EgJ: Það þarf nú fleiri en eitt atkvæði til þess.) Það er að vísu rétt, hv. göngumaður Egill Jónsson, að það þarf fleiri en eitt atkvæði, það þarf meiri hluta á Alþingi til þess en það skiptir auðvitað máli hvað hæstv. félmrh. leggur til í þessum efnum.
    Ég vil svo einnig minna á það, hæstv. forseti, að ég spurði hæstv. félmrh. um samhengi stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og þessara sameiningarmála og fékk engin svör, engin. Er sem sagt ekkert samhengi?