Reynslusveitarfélög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 21:58:35 (6968)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um heimild til að hefja undirbúning að stofnun reynslusveitarfélaga.
    Í tengslum við þá miklu vinnu sem unnin hefur verið að sameiningu sveitarfélaga og breytingum

á verkefnum og tekjustofnum sveitarfélaga komu fram hugmyndir um að setja á fót tilrauna- og þróunarverkefni meðal sveitarstjórna að norrænni fyrirmynd sem kennt hefur verið við ,,frikommuner``. Hafa þær verið ræddar við margar sveitarstjórnir og samtök þeirra og almennt hlotið góðar undirtektir.
    Sveitarfélaganefnd lagði fram í áfangaskýrslu sinni í október 1992 tillögu um að stofnað verði til nokkurra reynslusveitarfélaga á Íslandi í fjögur ár í tengslum við sameiningu sveitarfélaga til undirbúnings á færslu verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga og sem aðdraganda breytinga í stjórnsýslu sveitarfélaga. Að lokinni kynningu meðal sveitarstjórna um allt land lýsti fundur fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var í febrúar 1993, yfir stuðningi við tillögur nefndarinnar um stofnun reynslusveitarfélaga. Sveitarfélaganefnd telur í lokaskýrslu sinni að stofnun reynslusveitarfélaga sé mikilvæg leið til að efla sveitarstjórnastigið enn frekar á Íslandi. Því leggur nefndin til að stofnuð verði allt að fimm reynslusveitarfélög sem starfi frá 1. jan. 1995 til 31. des. 1998. Lögð er áhersla á að sem flest reynslusveitarfélög verði stofnuð í tengslum við sameiningu sveitarfélaga.
    Sú hugmynd kom fram í Svíþjóð um áramótin 1982/1983 að setja á fót tilrauna- og þróunarverkefni þar sem sjálfstæði sveitarfélaga til ákvarðanatöku væri aukið og þeim gert kleift að aðlaga fyrirkomulag þjónustu við íbúana að almennum þörfum. Verkefnið hófst árið 1984 og hugmyndin breiddist síðan út um hin Norðurlöndin á næstu árum. Svipuð verkefni hófust í Danmörku 1985, Noregi 1987 og Finnlandi 1989. Fyrirkomulag þessarar þróunarstarfs hefur verið með mismunandi hætti eftir löndum. Í öllum löndunum hafa verið valin út nokkur sveitarfélög til að verða reynslusveitarfélag, þ.e. sett hafa verið lög sem heimila að einstökum sveitarfélögum sé veitt tímabundin undanþága frá landslögum og reglugerðum í málaflokkum þar sem þau telja að svigrúmi sínu til ákvarðanatöku sé sniðinn of þröngur stakkur, t.d. í skipulagslögum og grunnskólalögum, svo dæmi sé nefnt.
    Tilraunaverkefni þar sem stofnað er til reynslusveitarfélaga hlýtur að vera framkvæmt á annan hátt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum vegna þess að fyrirkomulag sveitarstjórnarmála er töluvert öðruvísi. Sveitarfélögin eru mun fámennari og hafa færri verkefni og aðeins er eitt sveitarstjórnarstig. Á þremur Norðurlandanna eru tvö sveitarstjórnarstig, þ.e. sveitarfélög og héraðsstjórnir. Þá hefur stýring ríkisvaldsins á málefnum sveitarfélaga í gegnum nákvæm laga- og reglugerðafyrirmæli verið meiri á hinum Norðurlöndunum. Ríkisvaldið hefur víðast á hinum Norðurlöndunum samræmt fyrirkomulag á umboðsvaldi í héraði. Bein afskipti íslenskra sveitarfélaga af atvinnurekstri eru meiri en á hinum Norðurlöndunum.
    Almennt má draga þá niðurstöðu af reynslusveitarfélögum á Norðurlöndum að sú aðferð að gera í nokkur ár stjórnsýslutilraunir sem lið í undirbúningi meiri háttar stjórnsýslubreytinga hafi heppnast vel. Það er afar mikilvægt að slíkar tilraunir séu vel skipulagðar og undirbúnar. Gera þarf ráð fyrir frá upphafi að fylgst sé með hvernig tilraunirnar gangi fram og að hægt sé að bregðast við um leið og eitthvað fer úrskeiðis. Ekki var stofnað til reynslusveitarfélaga á Norðurlöndunum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga enda 20 til 30 ár síðan átak var gert þar í þeim efnum. Ekki heldur til undirbúnings færslu á framkvæmd verkefna frá ríki til sveitarfélaga eða breytinga á tekjustofnum. Þótt svo markmið og útfærsla verkefnisins verði önnur á Íslandi má draga þá almennu ályktun að vel undirbúnar stjórnsýslutilraunir, sem síðan sé fylgt eftir af hlutlausu aðilum, séu mjög mikilvægar sem undanfari meiri háttar stjórnsýslubreytinga.
    Í lokaskýrslu sinni skilgreinir sveitarfélaganefndin hugmyndina um reynslusveitarfélög hér á landi þannig að á grundvelli umsókna frá sveitarfélögum fái sveitarfélögin heimild í tiltekinn tíma og í tilraunaskyni til að taka að sér framkvæmd nýrra verkefna, að vera undanþegin tilteknum ákvæðum laga og reglugerða sem kveða á um skyldur sveitarstjórna og takmarka ákvörðunarvald þeirra, að reyna nýtt rekstrar- og fjármögnunarfyrirkomulag í tilteknum málaflokkum og að þróa nýjungar í stjórnsýslu. Til þess að reynslusveitarfélög fái slíkar heimildir þarf samþykki hlutaðeigandi ráðherra og samþykki laga frá Alþingi. Sveitarfélaganefnd leggur til að unnið verði að stofnun reynslusveitarfélaga með eftirfarandi hætti:
    1. Lögð verði fyrir Alþingi til samþykktar á vorþingi 1993 þáltill. þess efnis að stofnað verði til allt að fimm reynslusveitarfélaga, en það er sú tillaga sem hér er mælt fyrir.
    2. Félmrh. skipi fjögurra manna verkefnisstjórn sem í eigi sæti tveir menn tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir af félmrh. skal annar þeirra vera formaður.
    3. Einstök sveitarfélög, eða sveitarfélög sem undirbúa sameiningu, leggi fram umsókn til félmrn. um þátttöku. Lagt er til að ekki verði sett annað skilyrði en að þau sveitarfélög sem taka þátt hafi a.m.k. 1.000 íbúa. Þó verði heimilt að velja eitt sveitarfélaga með færri en 1.000 íbúa. Sveitarfélög sem sækja um verkefni í tengslum við sameiningu hafi forgang, einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði sameinast.
    4. Verkefnisstjórn fjalli um umsóknir og velji sveitarfélög til þátttöku. Ákvörðun verkefnisstjórnar um val á sveitarfélögum verður að hljóta staðfestingu félmrh. til að öðlast gildi.
    5. Hugmyndir um verkefni, undanþáguákvæði o.fl., verði þróuð í samvinnu verkefnisstjórnar, reynslusveitarfélaga og hlutaðeigandi ráðuneyta.
    6. Unnið verði að gerð samnings um verkefni, tekjustofna, undanþáguákvæði o.fl. milli reynslusveitarfélaga annars vegar og félmrn. hins vegar, að höfðu samráði við hlutaðeigandi fagráðuneyti. Samningsdrög liggi fyrir eigi síðar en 1. febr. 1994. Í þeim þarf að koma fram hvernig skuli staðið að tilraunaverkefninu í heild sinni, þ.e. hvaða tilteknu verkefni verði færð frá ríki til sveitarfélags, frá hvaða laga- og reglugerðaskyldu sveitarfélagið skal vera undanþegið og hvernig framkvæmdinni skuli nákvæmlega hagað.

    7. Lög um reynslusveitarfélag verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar á vorþingi 1994.
    8. Samningar verði lagðir fyrir sveitarstjórn reynslusveitarfélaga til samþykktar og skulu fara fram tvær umræður um málið í sveitarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Að því loknu verði samningarnir lagðir formlega fyrir félmrh. og aðra ráðherra sem hlut eiga að máli til undirritunar. Gert verði ráð fyrir því að lög um reynslusveitarfélög verði sett á árinu 1994 þegar drög að samningum milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna liggja fyrir. Í lögunum komi m.a. fram hvaða verkefni verði flutt frá ríki til reynslusveitarfélaga og undan hvaða lagaskyldum megi víkja með vísan til hlutaðeigandi laga og einstakra lagaákvæða.
    9. Verkefnisstjórn fylgist með framvindu tilrauna- og þróunarstarfs hjá reynslusveitarfélögum og vinni að endurskoðun samninga ef með þarf.
    Ákveðin verkefni, sem nú eru verkefni ríkis eða samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, verða flutt yfir til þeirra reynslusveitarfélaga sem um það sækja. Þau verkefni sem um hefur verið rætt og m.a. koma til greina eru: Í fyrsta lagi málefni fatlaðra, sem í dag eru verkefni svæðisstjórnar, þ.e. sambýli, leikfangasöfn, dagvistun, skammtímavistun, verndaðir vinnustaðir og atvinnuleit. Einnig rekstur stofnana fyrir fatlaða ef um það er að ræða. Hugsanlega mætti gera tilraun með rammafjármögnun í þessum málaflokki, þ.e. að fjárveitingar mundu miðast við fjölda fatlaðra, fötlunarstig þeirra og hvaða þjónusta er í boði.
    Rekstur heilsugæslustöðva: Hugsanlega mætti gera tilraunir með nýtt rekstrarfyrirkomulag heilsugæslustöðva í samstarfi við heilbrrn.
    Öldrunarþjónusta: Í reynslusveitarfélögunum mætti, ef áhugi er fyrir hendi, gera tilraun með að taka upp rammafjármögnun öldrunarþjónustunnar í stað eyrnamerktra framlaga og greiðslna frá sjúkratryggingum í þrjú til fjögur ár til að fá reynslu á þetta fyrirkomulag áður en því yrði komið á fyrir landið allt. Með rammafjármögnun fengju sveitarfélögin fasta fjárveitingu sem byggðist t.d. á fjölda aldraðra í sveitarfélaginu vegnum með aldri þeirra en tækju að sér í staðinn að sjá um alla þætti öldrunarþjónustunnar í sveitarfélaginu.
    Gerð verði tilraun með nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í hafnamálum og gjaldskrá hafna í sveitarfélaginu verði gefin frjáls. Gerð verði tilraun með að auka sjálfstæði sveitarfélaga í ýmsum málefnum svo sem félagslegum húsnæðismálum, skipulagsmálum og byggingarmálum á grundvelli umsókna frá þeim. Rekstur á framhaldsskólastigi í sveitarfélaginu kemur til greina ef um það er að ræða og einnig rekstur sjúkrahúsa ef um það er að ræða.
    Felldar verði niður ýmsar kvaðir sem lagðar eru á sveitarfélögin í lögum eða reglugerðum á grundvelli umsókna frá þeim ef viðkomandi ráðuneyti fellst á og Alþingi samþykkir.
    Önnur þau verkefni sem reynslusveitarfélög óska eftir að taka að sér, undanþágur frá lögum og reglugerðum eða fjármögnun nýrra verkefna sem reynslusveitarfélög taki að sér verði ákveðin í samningum milli ríkis og viðkomandi reynslusveitarfélags. Gera verður ráð fyrir því að ríkið hafi áhuga á að gera tilraunir með nýjar aðferðir í fjármögnun. Einnig er rétt að gera ráð fyrir því að lög og reglugerðir um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga gildi ekki fyrir reynslusveitarfélög heldur verði framlag sjóðsins á tilraunatímabilinu bundið í samningum þeim sem ríkið og viðkomandi reynslusveitarfélag gera.
    Loks má nefna að ríkisvaldið fær tækifæri til að gera tilraun með breytta starfshætti í þeim málaflokkum sem reynslusveitarfélögin taka að sér, þ.e. að í stað þess að hafa umsjón með rekstri einbeiti ríkið sér að stefnumótun og eftirliti með framkvæmd stefnu.
    Virðulegi forseti. Mikilvægt er að sú reynsla sem fæst af verkefninu verði sem fjölbreytilegust. Því er nauðsynlegt að þau sveitarfélög sem þátt taka séu mismunandi hvað snertir mannfjölda, atvinnulíf, þjónustustig, dreifingu byggðar innan sveitarfélags, landshætti o.fl. Sveitarfélög sem taka þátt skulu hafa a.m.k. 1.000 íbúa. Þó er heimilt, eins og ég greindi frá áður, að eitt sveitarfélag með færri en 1.000 íbúa taki þátt í þessu verkefni. Hins vegar verður sú regla sett að þau sveitarfélög sem sækja um verkefni í tengslum við sameiningu hafi forgang einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði, t.d. innan heillar sýslu, sameinast. Lagt er til að ekki verði valin fleiri en fimm sveitarfélög til þátttöku í verkefninu vegna þess hve umfangsmikið það er. Umsóknir um stofnun reynslusveitarfélaga skulu berast frá sveitarstjórnum til félmrn. fyrir 1. sept. 1993. Heimilt er sveitarstjórnum sem vinna að undirbúningi sameiningar sveitarfélaga að sækja sameiginlega um að stofna reynslusveitarfélög að undangenginni sameiningu þeirra.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þáltill. en legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. félmn.