Reynslusveitarfélög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:24:59 (6972)


     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari till. til þál. og tek undir hana í flestum atriðum. En það er rétt að byrja á því að taka undir með hv. 6. þm. Vestf. hvað snertir ákvæði á bls. 2 um að sveitarfélög sem sækja um þetta verkefni í tengslum við sameiningu hafi forgang. Ég vil beina því til hv. félmn. þegar hún fær þáltill. til úrvinnslu að þetta ákvæði verði fellt niður. Fyrir því eru að mínu mati þau rök að, eins og kom hér fram áðan, þá er sveitarfélag á Vestfjörðum, Reykhólahreppur þar sem heil sýsla, fimm sveitarfélög, sameinuðust og í Eyjafjarðarsveit, eins og reyndar kom fram hér fyrr í kvöld, hefur sameining einnig átt sér stað. Þegar þessi tilraunasveitarfélög verða stofnuð hafa þau flest við ærinn vanda að glíma að takast á við nýtt hlutverk. Þau eru ekki búin að finna sig í því, þau eru ekki búin að venjast því umhverfi sem við þeim blasir og þess vegna tel ég fráleitt að ætla þeim forgang umfram önnur sveitarfélög, einkum með hliðsjón af því að þessi tvö sveitarfélög sem ég nefndi uppfylla önnur skilyrði. A.m.k. er annað þeirra með yfir 1.000 íbúa og hitt líklega undir, en þau hafa aflað sér verulegrar reynslu á þeim tíma sem liðinn er frá sameiningu og má ætla að sú reynsla sé mjög æskileg í einu af þessum mörgu tilraunasveitarfélögum.
    Mér finnst rangt að útiloka með þessum athugasemdum og þessari klausu að eitthvað þeirra félaga sem ekki vill sameinast og telur sig geta staðið á eigin fótum án þess geti orðið eitt af þessum reynslusveitarfélögum til þess að sanna einmitt að það þurfi ekki á sameiningu að halda. Við megum ekki ganga svo blint í þetta að við teljum sameiningu án tillits til aðstæðna nauðsynlega, sjálfsagða og hana beri að knýja í gegn.
    Það er gert ráð fyrir að þetta taki gildi í ársbyrjun 1995. Í upphaflegri skýrslu var talað um að þetta yrði gert strax á árinu 1994. Ég held að það sé betra að draga þetta aðeins því að eins og ég gat um áðan, þá verður ærinn starfi að koma stjórnsýslu hins nýja sameinaða félags, ef um það er að ræða, í samt lag og venjast nýju umhverfi. Ég sé í sjálfu sér ekkert á móti því þó að þetta verði dregið fram yfir kosningar. Það verða kosningar 1994 og 1998 þannig að tilraunasveitarfélagið verður aðeins fram yfir það. Það skiptir ekki höfuðmáli þó að önnur sveitarstjórn skili því af sér en sú sem tók við því.
    Í a-lið sem er reyndar í ,,Tillögum að auknu hlutverki sveitarfélaga`` segir, með leyfi forseta: ,,Reynslusveitarfélögin taki í tilraunaskyni við frekari verkefnum svo að reynsla fáist á það hvaða verkefni sé skynsamlegt að flytja til sveitarfélaganna 1990 til viðbótar við þau sem verða flutt 1. jan. 1995.`` Þá kem ég aftur að því sem ég ræddi nokkuð fyrr í kvöld um frv. það sem lá þar fyrir. Af hverju liggur svona óskaplega á í þessum sameiningarmálum? Hér er um geysilega þýðingarmikla breytingu ræða og breytingu sem verið er að gera til langs tíma. Ég get ekki séð að þrjú, fjögur eða fimm ár séu langur tími í opinberri stjórnsýslu. Við erum hægt og sígandi að breyta kerfi sem hefur verið við lýði um hundruð ára og af hverju þarf endilega að ljúka því umsvifalaust, hvað sem tautar og raular? Í rauninni tel ég að einmitt það að stofna tilraunasveitarfélög sé gott skref núna til þess að láta þau fá þau verkefni sem á að afhenda sveitarfélögum þegar á næsta ári, að mínu mati mörg þeirra án tilskilins eða nægilegs undirbúnings. Ég held að skynsamlegri leið væri einmitt að fá tilraunasveitarfélögunum þessi verkefni, láta þau tilraunakeyra þau, fá reynsluna af þeim og nýta sér hana síðan þegar fært yrði á milli árið 1999 og fara sér mun hægar í þessu en farið hefur verið að undanförnu.

    Ég get ekki séð að nokkur nauðsyn sé á að ljúka þessu máli fyrir kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar. Yfirleitt nýtur þetta mál, sameining sveitarfélaga, það víðtæks stuðnings þingmanna sem þjóðar allrar að það er ekki nokkur hætta á að þetta mundi leggjast upp fyrir eða ekki njóta þeirrar umfjöllunar og áframhalds sem með þyrfti. Gott dæmi um þetta er einmitt grunnskólinn. Það er búið að lýsa því yfir alloft að hann verði færður til sveitarfélaga 1. ágúst 1994, eftir rúmt ár. Það er alveg gífurlega mikil vinna óunnin áður en það verður gert og þetta er mönnum ljóst. Í vitund flestra þeirra sem hafa komið nálægt skólamálum má ætla að verði af þessu, að skólinn verði færður til sveitarfélaganna 1994. ( Gripið fram í: 1995.) 1994 sagði ég áðan, hv. þm., og nú er væntanlega verið að tala um álit nefndarinnar. En það sem ég er að vitna í er það sem kom fram í þingræðu í dag og reyndar það sem mér er sagt að hæstv. menntmrh. hafi tilkynnt á fundi með sveitarstjórnum á Suðurlandi nú fyrir skömmu, líklega hálfum mánuði eða þremur vikum, að 1. ágúst 1994 mundi hann leggja til að grunnskólinn færi til sveitarfélaga þannig að það er sá tími sem ég miða við samkvæmt þeim upplýsingum og ég tel það fráleitt að við getum gert það með öllum þeim ráðstöfunum sem með þarf og til þess að sá árangur náist sem þarf. Það á eftir að vinna mikla vinnu í ýmsum undirbúningi, bæði hvað snertir fjármögnun, hvað snertir starfsmannamál og ýmis skipulagsmál.
    Mér finnst það liggja í augum uppi að flýtir og æðibunugangur í þessum málum einmitt núna þegar það er upplausn og það er rótleysi bæði á alþjóðavettvangi og innan lands sömuleiðis, slík framganga er til þess fallin að veikja trú almennings á stjórnvöldum og stjórnsýslu í landinu og einmitt núna er síst þörf á að gera það.