Skipulagslög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 23:54:22 (6990)

     Pétur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki í hyggju að lengja þennan fund mikið með löngu máli og kem fyrst og fremst upp til að lýsa ánægju minni með það að frv. þetta um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands, sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi skuli vera úr sögu og með þessum hætti lagðar línur í því hvernig farið verði með skipulag á miðhálendi Íslands. Eins og kemur fram í athugasemdum fékk fyrrnefnt frv. kröftug mótmæli af mörgum ástæðum og ég mun ekki fara efnislega í þetta enda missti ég af því að heyra framsögu ráðherrans um þetta mál. En ég fagna því að þetta skuli vera komið í þennan farveg.