Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 13:46:42 (6994)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94 frá 1976 en það er 453. mál þingsins og er að finna á þskj. 785.
    Í fjárlögum fyrir árið 1993 er gert ráð fyrir að Fasteignamat ríkisins verði B-hluta stofnun en Fasteignamatið er nú A-hluta stofnun. Í þessu frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna í samræmi við þetta. Í frv. er kveðið á um heimildir til handa Fasteignamatinu að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu. Slíkar heimildir eru til staðar í lögunum í dag en hér eru þær útfærðar nánar og lagður frekari grunnur að því að Fasteignamatið geti aflað sér tekna í meira mæli en verið hefur.
    Þá er það nýmæli í frv. að lagt er til að sett verði á fót sérstök stjórn Fasteignamats ríkisins sem hafi það hlutverk að hafa eftirlit með störfum stofnunarinnar, móta starf hennar og skipulag. Gert er ráð fyrir því að stjórnin verði skipuð þremur mönnum og þar af einum sem skipaður verður samkvæmt tilnefningu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga en sveitarfélög hafa mikla hagsmuni af starfi Fasteignamats ríkisins þar sem fasteignagjöldin, sem er veigamikill tekjustofn sveitarfélaga, eru lögð á á grundvelli fasteignamats. Með þessu verður sveitarfélögunum tryggður aðgangur að stjórn Fasteignamatsins.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsöguræðu lengri en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.