Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 13:55:59 (6996)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ræðumanni sem tók til máls á undan mér fyrir að hreyfa því sem hún gerði því sumt af því hafði ég einmitt hugsað mér að spyrja um, m.a. hvaða aðilar það eru sem eigi núna að fara að greiða sértekjur. Hitt er alveg rétt að með þessu frv. er verið að uppfylla ákveðin ákvæði sem sett voru inn í fjárlög þessa árs að Fasteignamat ríkisins yrði B-hluta stofnun og í framhaldi af því yrði því sett stjórn en einn forstjóri réði ekki innra skipulagi stofnunarinnar heldur yrði það stjórn, þ.e. þar sem Samband ísl. sveitarfélaga skipar einn en hinir tveir væru skipaðir af ráðherra.
    Það er út af fyrir sig gott að þetta sé útvíkkað svolítið þar sem forstjórinn hefur, eins og ég sagði áðan, hingað til getað ákveðið innra skipulagið einhliða og hefur sú ráðstöfun sem forstjórinn hefur þar haft á verið nokkuð umdeild. Minni ég þar á umræður fyrir nokkru í þinginu þar sem getið var um bréf sem forstjórinn hafði skrifað vegna beiðni Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ég ætla raunar ekki að gera það að umtalsefni, enda hefur forstjórinn skýrt það nánar og beðið afsökunar á þeim orðum sem hann lét þar falla.
    Ég tel tímabært að ræða þetta skipulag, að ræða Fasteignamat ríkisins og hvort sú stofnun á að halda áfram og sú eina breyting sem á henni verði sé sú að henni sé skipuð stjórn og hún hafi sértekjur. Með því er verið að minnka framlag ríkisins til þess að halda uppi þessari stofnun en samt sem áður virðist ekkert eiga að breyta henni. Það verður auðvitað að greiða þessum stjórnarmönnum til viðbótar. Það er ekki talað um neinar breytingar á henni að öðru leyti. Ég spyr ráðherra: Hvernig er fyrirhugað að þessi stjórn starfi? Hver á að setja henni reglur? Mun ráðherra setja henni reglur og hvert verður hlutverk hennar? Á hún að skoða breytt hlutverk Fasteignamatsins? Mér finnst alveg tímabært að skoða í framhaldi af þessu hvort ekki sé hægt að skipta þessu meira upp. Ef Fasteignamatið á aðallega að hafa sínar tekjur frá sveitarfélögunum er líka spurning hvort það eigi ekki alfarið að vera úti um landið hjá þeim sveitarfélögum sem það þjónar mest og þurfi ekki að starfa á höfuðborgarsvæðinu að meiri hluta.
    Ég held að það sé tímabært að skoða þetta mjög vel. Þó að þetta sé, eins og hæstv. ráðherra sagði, stutt frv. og kannski ekki mikið efni, þá er nokkuð mikið sem liggur þar á bak við. Ég fagna því að frv. verður skoðað í hv. efh.- og viðskn. og treysti því ekki síst, eins og ég sagði, eftir umfjöllun hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það verði skoðað mjög vel.