Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:40:34 (7003)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að upplýsa mig um brunabótamat og gjaldflokka því ég veit að hún þekkir það áreiðanlega betur en ég og efast ekki um að hún fari þar með rétt mál. Ég vil einungis segja vegna ummæla hennar sem ég held að öll hafi verið rétt og til þess gerð að upplýsa okkur í umræðunni að ég hygg að sveitarfélögin hafi litið þannig á þegar var verið að innheimta fasteignagjöld að það væri í raun verið að innheimta gjöld sem þjónustugjöld fyrir fasteignirnar. Það væri kannski grunnurinn. Við vitum að það eru auðvitað tekjur sem ráða gjaldþoli einstaklinganna og þess vegna hafi þessar heimildir komið inn í lögin um það að hvort sem húseign var á Kópaskeri eða Hnífsdal eða í Reykjavík þá skipti í raun og veru ekki markaðsverðið máli varðandi fasteignagjöldin því það sé verið að greiða þjónustugjöld af fasteignunum fremur en að borga einhvers konar eignarskatt. Ég hygg að þetta sé kannski skýringin en ef hv. þm. getur upplýst mig um þetta líka þá tek ég leiðbeiningum hennar að sjálfsögðu.