Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:42:38 (7005)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var ein fyrirspurn sem féll niður hjá ráðherranum að svara. Hún var um 3. gr., til hve langs tíma á að skipa mennina í stjórn.
    Ég þykist vita að það sé ekki ætlunin, eins og stendur í frv., að menn séu þarna æviráðnir.
    Ég vildi líka benda á að þetta fasteignamat er fyrst og fremst eins og fram hefur komið skattstofn fyrir ríki og sveitarfélög. Síðan er til annað kerfi sem er fyrst og fremst vátryggingarmat og er notað á þeim vettvangi, svokallað brunabótamat, eða skyldir útreikningar, þeir eru allt aðrir.
    Í 15. gr. um Fasteignamat ríkisins segir svo, með leyfi forseta:

    ,,Opinberir aðilar, ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki, sveitarfélög og allar stofnanir þeirra skulu í öllum viðskiptum og í hvers konar verðmætisviðmiðununum nota upplýsingar fasteignaskrárinnar sem grundvöll viðskipta sinna eftir því sem við getur átt.``
    Undir þetta falla m.a. bankar, svo dæmi sé nefnt, og Byggðastofnun. Ég spyr: Hvernig stendur á því að þessir aðilar taka veð í eignum langt umfram fasteignamatsverð sem þeim er þó uppálagt samkvæmt þessari grein að fara eftir, en nota þess í stað annað mat sem er brunabótamat. Þannig að ekki einu sinni ríkisfyrirtækin sjálf fara eftir þeim fyrirmælin sem fyrir þau eru lögð í þessum lögum um hvernig eigi að nota fasteignamatið. Það veikir enn grundvöllinn að því að viðhalda þessu fasteignamati.
    En ég vildi að lokum segja það, virðulegi forseti, að það fór eins og mig grunaði að það mun reynast hæstv. fjmrh. býsna torsótt sú brekka að flytja báknið eða minnka það, rétt eins og að leggja sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.