Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:45:05 (7006)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þær áhyggjur sem hann hefur af því að mér takist ekki að ná bákninu burt og ég vonast til að ég eigi þá hauk í horni þar sem hann er. Það er rétt sem kom fram hjá honum að mér láðist að svara fyrirspurn um stjórnina. Það er algengt að stjórnir séu skipaðar án þess að um það sé getið í lögum til hve langs tíma þær sitji. Það er eðlilegt að það komi fram í reglugerð. Ef engar slíkar reglur eru til þá getur viðkomandi ráðherra skipt um stjórn þegar honum sýnist og þá gerist það þannig að nýr ráðherra setur stjórn og næsti ráðherra er óbundinn af skipun hans. Það mun vera reglan sem um þessi mál gilda. Þannig að það er ekki hægt fyrir neinn ráðherra ef ekki er skýrt lagaákvæði að skipa menn í stjórn til æviloka. Þetta er svar við þessari spurningu.
    Ég átta mig satt að segja ekki á 15. gr. sem hv. þm. vitnað til en ég tel að þar sé verið að segja að í hvers konar verðmætisviðmiðunum skuli nota upplýsingar fasteignaskrárinnar. Það sé ekki verið að skylda þá til þess að í raun og veru, ( KHG: Sem grundvöll viðskipta . . .  ) sem grundvöll viðskipta sinna eftir því sem við getur átt. Ég hygg að þetta orðalag ,,eftir því sem við getur átt`` geti leitt til þess að menn geti sloppið frá því og hér er ekki verið að skylda aðila að nota ákveðið hlutfall, viðkomandi aðilar ráða hvaða hlutfall af fasteignamati þeir velja en mér er kunnugt um að í mörgum tilvikum nota menn heldur brunabótamat. Þetta er þó að breytast og ég vil að það komi skýrt fram að einmitt nú hafa bankar til að mynda og lánastofnanir verið að átta sig á því að það kann að vera betra að nota fasteignamat sem grundvöll heldur en brunabótamat, svoleiðis að mér finnst þessi ábending vera ágæt og fagna því að hún kemur fram.