Lyfjaverslun ríkisins

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:07:44 (7010)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil út af fyrir sig þakka ráðherra fyrir þær athugasemdir sem hann lét hér falla. Það er ekki í sjálfu sér neitt sem ég þarf að svara sérstaklega í því en aðeins vekja athygli á þessu með dreypilyfin. Það kann að vera að það sé áhugaverður þáttur í starfsemi þessa fyrirtækis og kannski það sem gerir það áhugaverðast fyrir nýja eigendur að komast einmitt yfir þá starfsemi en þeim mun meiri ástæða er til þess fyrir ríkið að huga þá að sínum hagsmunum sem stærsti greiðandi, sem er kannski meira en 70% greiðandi að þessum lyfjum, líklega 100% greiðandi að þessum lyfjum því ég hygg að þau séu eingöngu notuð á sjúkrastofnunum og þar greiðir ríkið allan lyfjakostnað og neytandinn ekki einu sinni þau 30% sem þó virðist vera almennt nú og markmið hæstv. ríkisstjórnar að neytendur taki a.m.k. 30% eða þriðjungs þátt í kostnaði við lyfin.
    En að lokum, hæstv. forseti, hefði ég viljað nefna það við þessa umræðu að ég tel að það hefði ekki verið óeðlilegt að þetta frv. yrði skoðað í samhengi við og kannski samhliða hugmyndum um breytingar á lögum um lyfjadreifingu því það er m.a. vitnað til þess hér í grg. á einhverjum stað að ákvæði í þessu frv. séu samhljóða ákvæðum í frv. hæstv. heilbr.- og trmrh. um breytingar á lögum um lyfjadreifingu og það eru auðvitað nokkur atriði í 5. gr. sem varða breytingar á þeim lögum. Þess vegna hefði ekki verið óeðlilegt að meðferð þessa frv. hefði tengst umræðum og meðhöndlun þingsins á breytingu á lögum um lyfjadreifingu sem við höfum reyndar beðið lengi eftir að fá að sjá og ég tel að hæstv. ríkisstjórn hefði kannski átt að snúa sér meira að því að skoða þá þætti til að draga úr kostnaði við lyfjadreifinguna fremur en að beina spjótum sínum eingöngu að neytendunum og ná hagnaðinum, eða sparnaðinum réttara sagt, fyrst og fremst fram með því að láta neytandan greiða síaukinn hlut af lyfjakostnaði.