Lyfjaverslun ríkisins

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:17:24 (7014)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hafa hér langt mál, aðeins að spyrja hæstv. fjmrh. um þá umsögn sem ráðuneyti hans, fjárlagaskrifstofa, gefur um þetta frv. og reyndar fleiri sem eru í svipuðum dúr. Mig minnir að það að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna hafi átt að kosta 1,5 millj. Það er enginn kostnaður af því að einkavæða Lyfjaverslun ríkisins en hins vegar er í þessari umsögn ekki getið um tap sem ríkissjóður hugsanlega verður fyrir af þessari einkavæðingu sem og annarri á komandi árum. Það kostar kannski ekkert að einkavæða fyrirtækið sem slíkt en hvað getur það þýtt í tekjutapi ríkissjóðs á næstu árum, þessi einkavæðing, bæði þessa fyrirtækis og annarra?