Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:36:37 (7019)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þessara spurninga sem fyrir mig hafa verið lagðar vil ég taka þetta fram: Í sambandi við þær aðhaldsaðgerðir sem ákveðnar voru í skólakerfinu við gerð fjárlaga fyrir síðasta ár var sú ákvörðun tekin í menntmrn. að athuga sérstaklega þá rekstrarþætti í skólakerfinu sem flokkast undir stoðstarfsemi. Þar er átt við þá starfsemi sem ekki snýr beint að því að veita börnum og ungmennum fræðslu. Ráðuneytið fékk verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar til liðs við sig í þessu efni. Gerð var nákvæm

kostnaðargreining á stoðstarfsemi í skólunum árið 1991 og við þá greiningu kom m.a. í ljós að kostnaður við ræstingar var um 32% af kostnaði við stoðstarfsemi eða tæp 5% af heildarrekstrarkostnaði skólanna en stoðstarfsemin rúmlega 14% af rekstrarkostnaði þeirra. Það var mat verkfræðistofunnar að ná mætti 15--20% lækkun kostnaðar með útboði á ræstingum. Þegar niðurstöður úr þessari könnun lágu fyrir hafði menntmrn. samband við forráðamenn framhalds- og sérskóla á höfuðborgarsvæðinu og óskaði eftir samstarfi við þá um útboð á ræstingarþjónustu. Að því búnu fól ráðuneytið verkfræðistofunni að gera útboðsgögn vegna ræstingar í þessum skólum.
    Talið var heppilegast að bjóða ræstinguna út í fáum, stórum einingum m.a. af eftirtöldum ástæðum: Vænta má lægstu tilboða þar sem hagkvæmni stærðarinnar fær notið sín hjá verktaka. Unnt er að gera þá kröfu að verktaki endurráði starfsfólk óski það þess. Framkvæmd ræstingar verður auðveldari og kostnaður við eftirlit lægri ef samið er við fáa verktaka. Þá má geta þess að í nágrannalöndunum hefur það gefið góða raun við útboð á rekstrarverkefnum að hafa útboðin stór en skipta þeim í fáa hluta þar sem einn er stærri en aðrir.
    Þegar frumvinnu við útboðsgögn var lokið hafði ráðuneytið samband við þau verkalýðsfélög sem gæta hagsmuna starfsfólks sem starfar við ræstingar í viðkomandi skólum. Haldnir voru fundir með félögunum þar sem fram komu athugasemdir þeirra við útboðsgögn og reynt var að taka tillit til flestra þeirra ábendinga sem fram komu. Samstarfið við verkalýðshreyfinguna hefur í alla staði verið ánægjulegt og viðræður hafa farið fram af hreinskilni á báða bóga. Það var reyndar markmið ráðuneytisins frá upphafi að tryggja sem best hagsmuni þess starfsfólks sem nú starfar við ræstingu á þeim skólum sem um ræðir. Í útboðsgögnum er ótvírætt skilyrði sem tryggir hag starfsmanna. Þeir eiga rétt á endurráðningu með áunnum réttindum og atvinnuöryggi þeirra verði með sama hætti hjá nýjum atvinnuveitanda og verið hefur, enda verði þeir ráðnir sem launþegar en ekki undirverktakar. Ef verktakar kjósa að hafa undirverktaka í sinni þjónustu þarf verkkaupi að samþykja þá.
    Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda hefur nokkur hluti félagsmanna í Verkakvennafélaginu Framsókn skrifað undir mótmælabréf þar sem því er mótmælt að í útboði þessu sé verið að skerða laun þess fólks sem nú starfar við ræstingu í skólunum. Þar er því einnig haldið fram að engin áform séu um skerðingu á launum annarra eða hagræðingu í skólum. Í þessu mótmælabréfi gætir nokkurs misskilnings. Fyrir það fyrsta er alls ekki hægt að gefa sér að verið sé að skerða almennt laun ræstingarfólks. Vissulega skal því ekki neitað að í sumum tilvikum kunna kjör fólks að breytast en það getur verið á hvorn veginn sem er til hækkunar eða lækkunar. Hagræðingin og sparnaðurinn sem ráðgert er að ná fram með þessu útboði felst m.a. í því að teknar verði upp nútímalegri vinnuaðferðir en víða tíðkast í skólunum í dag. Það kann að hafa í för með sér fækkun starfsfólks þegar fram líða stundir, en sú fækkun á að verða með því móti að ekki verði ráðið í störf þeirra sem ákveða að láta af störfum.
    Menntmrn. er ekki beinn aðili að þessu útboði. Ráðuneytið hefur haft forgöngu um samstarf þeirra skóla sem taka þátt í því, en Innkaupastofnun ríkisins annaðist útboðið. Skólarnir hafa sjálfsákvörðunarrétt í þessum efnum enda er sjálfstæði þeirra tryggt í lögum. Einstakir skólar geta ákveðið að ganga ekki til samninga við verktaka ef þeir telja sig geta náð sama árangri með öðrum aðferðum. Það er von ráðuneytisins og trú að af þessari breytingu hljótist hagræðing og sparnaður. Með því að sparnaði verði náð fram á sviði stoðstarfsemi minnkar þrýstingur á annars konar sparnað í skólakerfinu, til að mynda í kennslunni sjálfri. Þannig munu skólarnir njóta góðs af þeim sparnaði sem næst á þessu sviði. Einnig er von til þess að hægt verði að auka fjárhagslegt svigrúm skóla vegna þess sparnaðar sem næst á þessu sviði.
    Ég held að með þessum orðum mínum hafi ég svarað þeim beinu spurningum sem beint var til mín og voru fimm talsins. Ef ég hleyp aðeins á þeim ef ég hef tíma til, þá hef ég svarað því varðandi fyrstu spurninguna um hvers vegna hluti I er þetta stór. Það er mjög skýrt að ef skólarnir telja sig geta náð sama árangri með öðrum leiðum, þá geta þeir dregið sig út úr þessu útboði.
    Af skilmálum í útboðsgögnum er ljóst að allar þær konur sem nú starfa við ræstingu í skólunum munu áfram búa við atvinnuöryggi sambærilegt við það sem verið hefur. Áunnin réttindi fylgja þeim til nýrra vinnuveitenda. Breyttir starfshættir hafa í för með sér að kjör kunna breytast í sumum tilvikum, ýmist til hins betra eða verra.