Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:49:37 (7023)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. málshefjandi hafði um þá aðferð sem viðhöfð var við útboð þetta sem hér er til umræðu, þ.e. að hafa einingarnar sem boðnar voru út svo stórar að ógerlegt var fyrir þá einstaklinga sem vinna í dag við þær ræstingar sem boðnar voru út að bjóða í verkið. Þetta er í anda þeirrar stefnu sem við höfum orðið svo áþreifanlega vör við hjá þessari ríkisstjórn, að

færa stofnanir og verkefni frá ríkinu á fárra hendur og gera aðeins þeim stóru og efnameiri kleift að taka við verkefnum frá ríkinu.
    En mér leikur líka forvitni á að vita hvað hún kostaði, undirbúningsvinnan að þessu útboðsverkefni. Mér skilst að verkfræðiskrifstofa Stefáns Ólafssonar hafi séð um þetta verkefni og af liðnum 950, rekstrarhagræðing, á fjárlögum hafi fari um 6,2 millj. en auk þess hafi farið í þetta verkefni verulegar fjárhæðir af ráðstöfunarfé ráðuneytis. Ég vildi nú gjarnan fá að heyra það hvaða upphæðir þar er um að ræða. Þá einnig að það eru um 300 konur sem vinna við ræstingu í þessum 17 skólum sem mér skilst að séu í einingu 1 í útboðsgögnunum og ákvæði er um að bjóða þeim öllum störf. Hins vegar kemur fram í frétt sem var í Ríkisútvarpinu 24. mars að Hreint og beint sf. hafi átt lægsta tilboðið. Talið er að starfsmenn þess fyrirtækis séu 12 en þeir reikna með að það verði fjölgað upp í 150 sem segir manni það að það sé um helmings fækkun starfsmanna skólanna frá því sem er í dag.