Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:59:30 (7028)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég sný mér strax að spurningunum, ég hef ekki nema tvær mínútur. Hv. þm. Finnur Ingólfsson og reyndar fleiri spurðu hvers vegna væri ekki hægt að bjóða þetta út með öðrum hætti en gert var og ég hef þegar svarað því. Það var mat verkfræðinganna að mestur ávinningur yrði með því að bjóða þetta út í stórum einingum og ég hef svo sem engu við það að bæta sem ég rakti áðan.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir --- það er best að ég svari strax síðustu spurningunni hvort ég hafi verið að segja ósatt áðan þegar ég sagði að þetta mál hefði verið unnið í góðri samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Ég var ekki að segja ósatt. Ég hef átt sjálfur persónulega fundi með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar þar sem var sérstaklega þakkað fyrir með hvaða hætti menntmrn. stóð að þessu verki. Þessi mótmæli sem hér hafa verið lesin byggjast öðrum þræði á hreinum misskilningi. Það er tvennt í þessu plaggi sem ræstingarkonurnar skrifa undir sem er beinlínis rangt. Það eru þessar setningar: ,,Engin áform eru um skerðingu á launum annarra eða hagræðingu í skólunum. Eingöngu er vegið að launum ræstingarfólks.`` Þetta er beinlínis rangt. Það hafa ýmsar hagræðingaraðgerðir átt sér stað í skólakerfinu allt frá því haustið 1991, kennarastöðum hefur fækkað vegna ýmissa breytinga á kennsluháttum og aukagreiðslur til kennara hafa minnkað þannig að þar var nú byrjað en ekki á ræstingafólkinu.
    Það er líka rangt að sparnaður náist einungis með launalækkun. Það er verið að breyta hér vinnutilhögun sem þegar tímar líða leiðir e.t.v. til fækkunar starfsfólks. Það má vel vera. Sá sem lætur hafa það eftir sér af bjóðendum í verkið að hann ætli að ráða 150, er beinlínis að skáka sér út úr slíku verki með því að lýsa slíku yfir vegna þess að það er gerð krafa um það í útboðslýsingu að þetta fólk haldi sínum störfum. Svo einfalt er það. ( MF: Hvar er sparnaðurinn?) Hvar er sparnaðurinn? Sparnaðurinn kemur áreiðanlega ekki fram strax hjá þeim fyrirtækjum sem taka þetta að sér. Það er alveg ljóst. Þau ná engum hagnaði af þessu fyrsta árið eða fyrstu tvö árin, það er alveg ljóst.
    Nú er ég búinn með tímann en á margt eftir ósagt og verð að segja aðeins í lokin að mér finnst satt að segja þetta bera vott um alveg dæmalaust forneskjutaut sem maður þarf að hlusta hér á. Þegar verið er að hagræða í rekstri og hér er talað um þetta sem eitthvert hroðalegt orð, einkavæðing. Ég bendi bara á að þetta ræstingarfólk er ekki fastir ríkisstarfsmenn. Það hefur komið meira að segja fram að sumt af þessu fólki er ekki ráðið nema í 9 mánuði á ári. Hvert er atvinnuöryggi þeirra? Það er ekkert með þessu verið að skera atvinnuöryggi þeirra frá því sem er. Ég bið forseta afsökunar, en mér er dálítið niðri fyrir og ég komst ekki til að svara öllum spurningum sem til mín var beint. --- [Fundarhlé.]