Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:11:53 (7031)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. 8. þm. Reykn. um það að ríkisendurskoðandi hafði farið yfir efnahag sjóðsins á árinu 1990 og að á árinu 1991 hafi önnur skýrsla komið sem sýndi aðra niðurstöðu. Það er, að ég held, rétt. Þetta gerist oft í málum eins og þessum. Við höfum séð það í bankakerfinu og hjá sjóðunum að skjótt skipast veður í lofti. Ég hygg að samkvæmt nýjustu áætlunum megi gera ráð fyrir því að það þurfi að afskrifa a.m.k. 800 millj. til viðbótar hjá Framkvæmdasjóði eftir því sem menn kynnast betur og þekkja betur endurgreiðsluhæfni þeirra sem tekið hafa lán úr sjóðnum.
    Um þetta snýst ekkert ágreiningurinn í þessu máli sem við erum að ræða nú heldur um þá tímasetningu hvenær færa skuli slíkt. Það er okkar mat, sem höfum stillt upp ríkisreikningnum, að það skuli gerast þegar menn vita um að það eigi að afskrifa. Það kom auðvitað fram í fjáraukalagafrv. sem var lagt fram haustið 1991. Þá lá fyrir að hjá öllum sem að þessu máli komu að þetta yrði að gera. Hins vegar dróst fram yfir áramótin að Alþingi samþykkti að veita greiðsluheimildina. Við höfum mjög vel rökstutt okkar skoðanir á þessum málum og teljum að viss hætta sé fólgin í því að beðið er eftir afgreiðslu Alþingis. Það eru söguleg rök fyrir því að stundum hafa ríkisreikningar og fjáraukalög ekki verið afgreidd fyrr en mörgum árum eftir að átti að afgreiða slík lög og það mundi auðvitað gefa ranga niðurstöðu ef það þyrfti að geymast þangað til Alþingi kæmi saman. Í þessu tilliti er Alþingi eins konar aðalfundur og það er stjórnin, framkvæmdarvaldið, sem stillir upp þessum reikningum. Eins og hjá venjulegum félögum eða fyrirtækjum er venja að færa færslur eins og þessar á það ár þegar menn sáu ljósast, þeir sem bera ábyrgð eins og stjórnir, að þetta yrði hin endanlega niðurstaða. Aðalfundurinn kemur hins vegar ekki fyrr en ári seinna.