Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:18:04 (7034)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. um frv. um samþykkt á ríkisreikningi teldi ég hlýða að þeir yfirskoðunarmenn sem sæti eiga á Alþingi tækju til máls og fjölluðu um það mál í nokkrum orðum. Eins og

nú standa sakir erum við tveir, við hv. 9. þm. Reykv. meðal yfirskoðunarmanna. Sá þriðji er Sveinn G. Hálfdánarson skrifstofumaður í Borgarnesi en því miður er hv. 9. þm. Reykv. ekki viðstaddur.
    Sú umfjöllun af hálfu yfirskoðunarmanna gæti átt þátt í því að gera virkari samskipti yfirskoðunarmanna og Alþingis varðandi þetta mál en yfirskoðunarmenn starfa, eins og kunnugt er, á ábyrgð Alþingis.
    Yfirskoðunarmenn eru pólitískt kjörnir. Að þessu sinni og ég hygg ævinlega hafa þeir kostað kapps um að blanda ekki pólitík í störf sín heldur leitast við að fjalla um mál efnislega eftir því sem við á.
    Á því ári sem hér er um að ræða, árinu 1991, störfuðu tvær ríkisstjórnir og tveir hæstv. fjmrh. og yfirskoðunarmenn gættu þess í sínum störfum að gera hvergi tilraun til þess að grafast fyrir um það hvað mætti kenna einum fjmrh. eða einni ríkisstjórn fremur en annarri. Er það út af fyrir sig sönnun fyrir því að þeir hafa leitast við að haga sínum störfum án tillits til pólitískra sjónarmiða.
    Drög að ríkisreikningi voru send til Ríkisendurskoðunar og til yfirskoðunarmanna ríkisreiknings í desember sl. og endurskoðun var lokið í febrúarmánuði. Ákjósanlegt væri að ríkisreikningur gæti verið fyrr á ferðinni þannig að endurskoðun gæti verið lokið um það bil sem þing kemur saman haustið eftir fjárlagaár og hygg ég að að því sé stefnt að þessu sinni.
    Yfirskoðunarmenn lögðu býsna mikla vinnu í starf sitt. Þetta sést m.a. af því að þeir lögðu fram um 192 fyrirspurnir til Ríkisendurskoðunar sem upplýsingar voru síðan veittar við og svör gáfust við. Þá þurfti að fara yfir mjög margar skýrslur sem Ríkisendurskoðun setti saman, sumar sem svör við þessum fsp., sumar um önnur efni sem tengjast þessum málum. Auk þessa þá tóku yfirskoðunarmenn upp þann hátt að kynna sér sérstakt svið ríkisrekstrarins utan við hina beinu yfirskoðun ríkisreikningsins. Að þessu sinni var valið að kynna sér flugmálasvið ríkisrekstrarins og er gerð grein fyrir því í skýrslu yfirskoðunarmanna og settar fram nokkrar ábendingar, ekki í beinu tillöguformi þar sem hér var einungis um að ræða eins og ég sagði að kynna sér þetta svið en settar fram ýmsar ábendingar um það sem þyrfti að hugsa hvort ekki mætti betur fara á þeim vettvangi. Ég tel að út af fyrir sig sé ávinningur að kynnast svona einstökum sviðum sérstaklega þrátt fyrir að það sé ekki í tengslum við hina beinu yfirskoðun ríkisreiknings á því ári.
    Ég vil svo geta þess að þrátt fyrir að ýmsar athugasemdir komi fram í skýrslu yfirskoðunarmanna og beinar tillögur um breytingar á þeim ríkisreikningi sem hér er til umfjöllunar þá er tekið býsna sterklega undir þær athugasemdir sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar og það er ætlun yfirskoðunarmanna sem nú hafa verið kjörnir að nýju, en þeir eru kjörnir til eins árs, að í næstu skýrslu þeirra verði ekki einungis um að ræða slíkar aðfinnslur eða athugasemdir um það sem betur mætti fara heldur verði líka reynt að draga fram það sem sérstaklega hefur verið vel gert eða það sem áunnist hefur og það er réttmætt að þær stofnanir sem skila árangri í rekstri fái þá viðurkenningu að þeirra sé getið í skýrslu yfirskoðunarmanna.
    Ég vil jafnframt láta þess getið að frá því að þessi ríkisreikningur varð til eða frá þessu fjárlagaári, árinu 1991, hafa komist fram nokkrar breytingar sem við teljum vera til bóta í meðferð ríkisfjármála. Er sjálfsagt að geta þeirra enda höfum við gert það í þeirri skýrslu sem liggur fyrir. Það er m.a. að gerð hefur verið sérstök skrá yfir eignir ríkisins og þrátt fyrir að við teljum að sú eignaskrá sé nokkuð ófullkomin eða a.m.k. ekki tæmandi, þá teljum við hana mjög mikið til bóta og leggjum til að reynt verði að fylla hana svo sem kostur er. Þá getum við þess að frá lokum þessa fjárlagaárs hefur verið gefin út sérstök handbók um innheimtu ríkissjóðstekna og er það að við ætlum til verulegra bóta og leiðir væntanlega og vonandi til þess að betra samræmis sé gætt á milli hinna einstöku innheimtumanna ríkissjóðs en oft hefur verið og nokkuð hefur verið fundið að af hálfu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings á mörgum undanförnum árum.
    Í þriðja lagi getum við þess að í desember sl. voru gefnar út sérstakar reglur um risnu og dagpeninga af hálfu fjmrn. og ég vænti þess að það megi verða til bóta. Það var mjög áberandi við endurskoðun ríkisreikningsins að ekki var fullnægjandi gengið frá ýmsum þeim reikningum sem hér er um að ræða. Það skorti afar oft t.d. áritun yfirmanns sem er nauðsynleg krafa þegar um slíka reikninga er að ræða. Ég vænti þess að með hinum nýju reglum sem hæstv. fjmrh. hefur væntanlega beitt sér fyrir að settar voru í desember sl., þá komist þessir reikningar í betra horf en áður hefur verið.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um einstaka kafla í skýrslu yfirskoðunarmanna þó það gæti verið fróðlegt að draga þar mörg atriði fram en tíminn mun tæplega leyfa það hér á þessum kvöldfundi. En skýrslan skiptist í átta kafla og ásamt ýmsum undirliðum sem veita upplýsingar um starf yfirskoðunarmanna að þessu sinni og þær athugasemdir sem þeir hafa gert.
    Ég vil svo draga hér fram nokkur svör við því sem mér sýnist þörf á vegna þess sem komið hefur fram í máli hæstv. fjmrh. þar sem hann telur að ágreiningur þurfi að vera um einstök atriði í athugasemdum Ríkisendurskoðunar og athugasemdum yfirskoðunarmanna annars vegar og skoðana fjmrn. og hæstv. fjmrh. hins vegar.
    Hér hefur verið drepið á einn þátt þessara mála að því er varðar færslu á 1.633 millj. kr. sem ríkissjóður yfirtók af skuldum Framkvæmdasjóðs Íslands á árinu 1992. Staðreyndir þess máls eru þær að Alþingi samþykkti lög þann 24. jan. 1992 sem heimiluðu að yfirtaka allt að 1.700 millj. kr. af skuldum Framkvæmdasjóðs og þessi heimild var notuð 9. mars það ár, árið 1992, og yfirtekin sú fjárhæð sem hér er fjallað um, 1.633 millj. kr. Síðan gerist það að í ríkisreikningi eins og hér hefur komið fram hefur þessi

greiðsla úr ríkissjóði verið færð á ríkisreikning 1991. Við teljum að hér sé ekki rétt að staðið og yfirskoðunarmenn leggja fram í lok sinnar skýrslu tillögu um að þessari færslu sé breytt því hún eigi að koma fram á árinu 1992 en ekki 1991. Í röksemdum hæstv. fjmrh. í ræðu hans áðan og í greinargerð með þessu frv. og sömuleiðis í ýmsum fleiri gögnum sem fram hafa komið af hálfu hæstv. fjmrh. er sótt í svokallað samkomulag sem gert hafi verið á vegum ríkisreikningsnefndar með aðild Ríkisendurskoðunar sem hafði í för með sér að breytingar urðu á færslu ríkisreiknings á árinu 1989. Þessar breytingar voru að dómi okkar yfirskoðunarmanna til bóta og gefa gleggri mynd af efnahag ríkissjóðs en áður hafði verið samkvæmt eldri uppsetningu. En á grundvelli þeirra breytinga sem þá voru gerðar telur síðan hæstv. fjmrh. sig geta fært rök fyrir því að eigi að færa þessar 1.633 millj. kr. eða að minnsta kosti sé heimilt að færa þessar 1.633 millj. kr. á árinu 1991 en ekki 1992. Ég hef því aflað mér upplýsinga um það samkomulag sem hér er verið að vitna til því að tíðum hefur verið um það rætt að athugasemdir Ríkisendurskoðunar komi í bakið á því samkomulagi sem fulltrúi hennar hafi gert á vegum svokallaðrar ríkisreikningsnefndar.
    Samkvæmt því segir í tillögum ríkisreikningsnefndar við þessar breytingar sem gerðar voru fyrir uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 1989, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin lagði til að í ríkisreikningi komi ábyrgðir til bókunar þegar Ríkisábyrgðasjóður hefur leyst þær til sín.`` Síðar segir: ,,Til álita kemur að ganga lengra og færa til gjalda í A-hluta samsvarandi fjárhæð og Ríkisábyrgðasjóður afskrifar í sínum reikningi vegna affalla. Ákveðið var að bíða með frekari breytingar þar til fyrir liggur skilgreining vinnuhóps II um flokkun ríkisaðila og skilgreiningu málaflokka.`` Um þetta er það að segja að á árinu 1991 var ekkert af skuldbindingum Framkvæmdasjóðs Íslands gjaldfallið hjá Ríkisábyrgðasjóði og engin króna hafði verið greidd. Þannig að ekki er hægt að rekja greiðslu til þessa hluta samkomulagsins. Þá segir: ,,Til álita kemur að ganga lengra og færa til gjalda í A-hluta samsvarandi fjárhæð og Ríkisábyrgðasjóður afskrifar.`` En mér er ekki kunnugt um hvort Ríkisábyrgðasjóður hafi afskrifað á sínum reikningi vegna slíkra affalla en tæplega getur það verið þar sem þessar greiðslur voru ekki gjaldfallnar.
    Í öðru lagi segir í tillögum vinnuhóps I á vegum ríkisreikningsnefndar frá því í september 1991 er fjallað var um ábyrgð utan efnahags A-hluta. Þar segir:
    ,,Vinnuhópurinn leggur til að í fjárlögum og ríkisreikningi verði gerð sérstök grein fyrir ábyrgðum utan efnahags A-hluta. Hér er m.a. um að ræða ýmsa sjóði sem eru utan A-hluta fjárlaga en ríkissjóður er í ábyrgð fyrir. Hér er m.a. um að ræða Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, Lánasjóð ísl. námsmanna, Framkvæmdasjóð og Byggðastofnun.``
    Þetta sýnir það að gert er ráð fyrir því að um leið og allar ábyrgðir ríkissjóðs og allar lántökur og allar skuldbindingar og ábyrgðir ríkissjóðs, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, skulu færðar í ríkisreikningi þá er ekki gert ráð fyrir því að færa yfir á A-hluta ríkissjóðs ábyrgðir samkvæmt fyrirtækjum utan efnahags A-hlutans, eins og það er kallað, þ.e. ábyrgðir sjóða og fyrirtækja í B-hluta. Þetta sem sagt sannar að tillögur sem fyrir liggja voru gerðar um að skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs og ábyrgðir utan A-hluta ríkissjóðs komi fram í skýringum með ríkisreikningi í stað þess að færa þær í reikninginn sjálfan áður en þær falla á ríkissjóð. Skuldbindingar og ábyrgðir utan efnahags A-hlutans sem ríkissjóður hefur ekki leyst til sín verði þannig ekki gjaldfærðar fyrr en formleg heimild til gjaldfærslu liggur fyrir.
    Ég tel að það sem ég hef vitnað í þessi gögn, sem röksemdir hæstv. fjmrh. eru sóttar, sanni að í því samkomulagi sem vitnað er til er ekki gert ráð fyrir því að færa yfir á reikning A-hluta skuldbindingar í B-hluta sjóðum og fyrirtækjum fyrr en þær eru gjaldfallnar. Nú var ekki því til að dreifa varðandi Framkvæmdasjóð Íslands og til viðbótar við þau rök sem áður hafa komið fram sýnist mér því að það sé á misskilningi byggt eða beinlínis rangt að það samkomulag sem þarna var gert hafi gefið því fæturna að þannig væri að málum staðið sem hæstv. fjmrh. hefur kosið að gera í þessum ríkisreikningi. Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. fjmrh. hafi teygt sig út yfir það samkomulag sem gert var en kenni síðan öðrum um að hafa brotið það.
    Segja má að öll röksemdafærslan fyrir þessari færslu í ríkisreikningi 1991 eigi sér stoð í þessum misskilningi. Og þyrfti kannski ekki að fara ofan í það miklu frekar heldur en gert hefur verið en það er þó ýmislegt í þeim málum sem væri ástæða til að ræða, t.d. það að ráðherra gerði því skóna í sinni ræðu að tæplega þyrfti heimild Alþingis til að færa útgjöld vegna sjóða sem hafa samkvæmt lögum ríkisábyrgð ef þeir lenda í greiðsluþroti eða í erfiðleikum með sína greiðslu. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé tvímælalaust að það þurfi heimild Alþingis fyrir greiðslum úr A-hluta yfir til B-hluta nema þá að því sé til að dreifa að í fjárlögum sé ætlað fyrir fé til þeirra greiðslna. Rétt er að taka fram að jafnan er á fjárlögum nokkur fjárhæð til að mæta slíkum áföllum og á síðari árum m.a. á fjárlögum 1991 var fjárhæð til að mæta óvissum útgjöldum og fjárhæð til þess að fjmrh. gæti ráðstafað með samþykki ríkisstjórnar til nýrra eða óvæntra verkefna. Sjálfsagt er að viðurkenna að þessar fjárhæðir hafa iðulega verið of lágar. En ef það væri svo að þetta yrði gert að reglu að ef vitað er að B-hluta sjóðir og stofnanir ættu naumast fyrir þeim skuldbindingum sem þær hafa tekið á sig og síðan þær skuldbindingar teknar yfir á A-hluta ríkissjóðs þá ætti auðvitað að gera það við fleiri sjóði og stofnanir en Framkvæmdasjóð Íslands. Og ef litið er á árið 1991 og sú reikningsregla sem hæstv. fjmrh. hefur notað varðandi Framkvæmdasjóð ætti að gilda væri með sama hætti eðlilegt að taka þar inn sem útgjöld hjá A-hluta ríkissjóðs verulegan hluta af skuldum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, skuldir vegna ferju og flóabáta, skuldir Síldarverksmiðja ríkisins, neikvæðan höfuðstól Orkusjóðs í árslok 1991, neikvæðan höfuðstól Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina í árslok 1991, neikvæðan höfuðstól Hlutfjársjóðs í árslok 1991 og hluta af þeim skuldbindingum sem Byggingarsjóður verkamanna hafði tekið á sig í árslok 1991 og var langt í frá að hann hefði burði til að standa undir. Sjálfsagt eru fleiri B-hluta sjóðir og stofnanir sem væru undir þá sök seldar að eðlilegt væri að færa skuldbindingar þeirra yfir á A-hluta ríkissjóðs á sama hátt og hæstv. fjmrh. hefur hér kosið að gera með Framkvæmdasjóð Íslands. En yfirskoðunarmenn ríkisreiknings mæla ekki með því og Ríkisendurskoðun hefur ekki mælt með því heldur er mælt með því að gerð séu skil eins og samkomulag á vegum ríkisreikningsnefndar greinir á milli A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Skuldbindingar A-hlutans og lán, sem A-hlutinn hefur tekið, verði birtar hverju sinni í útgjöldum A-hlutans á ríkisreikningi og síðan í fjáraukalögum eða fjárlögum en gerð verði grein fyrir þeim skuldbindingum sem hvíla á B-hlutanum, í texta og með upptalningu bæði í fjárlögum eða fjárlagafrv. a.m.k. og í fylgigögnum með ríkisreikningi.
    Ég ætla þá að ég hafi gert grein fyrir þessum þætti í þeim athugasemdum sem fram hafa komið í máli og ýmsum gögnum frá hæstv. fjmrh. sem ég tel að byggist á misskilningi og oftúlkun á samkomulagi sem gert var á vegum þeirrar nefndar sem títt hefur verið vitnað til að vinni á vegum ríkisreikningsnefndar með aðild fulltrúa Ríkisendurskoðunar.
    Í ræðu sinni hér áðan vék hæstv. ráðherra lítið eða ekki að öðru efnisatriði sem fram kemur í athugasemdum með þessu frv. og einnig hefur komið fram í öðrum gögnum frá hæstv. fjmrh. en það fjallar um innheimtumál. Að þessu efni er t.d. vikið mjög sterklega í skriflegu svari hæstv. fjmrh. við fsp. frá Árna M. Mathiesen um innheimtu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda á þskj. 727. Ég tel eðlilegt að segja örfá orð um þetta efni vegna þess að athugasemdir yfirskoðunarmanna og athugasemdir Ríkisendurskoðunar hafa verið teknar nokkuð óstinnt upp af hálfu hæstv. fjmrh. í þeim gögnum sem frá honum hafa komið.
    Nú er um fagleg efni að ræða og ætti ekki að verða tilefni til ágreinings. Ég hlýt að beina því til hæstv. fjmrh. um leið og menn hljóta að líta í eigin barm, ég sem yfirskoðunarmaður og ég gæti jafnframt beint því til starfsmanna Ríkisendurskoðunar, að það ber auðvitað að forðast að gera ágreining um jafnfagleg og reikningsleg efni og innheimtumál ríkissjóðs. Í skýrslu yfirskoðunarmanna eru gerðar athugasemdir við innheimtumál og talið að þau þurfi að færa til betri vegar en í gögnum sem frá hæstv. fjmrh. hafa komið er talið að innheimtumál ríkissjóðs hafi verið í mjög góðu horfi á árinu 1991 þannig að ekki sé tilefni til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið. Í þeirri framsetningu sem kemur fram hjá hæstv. fjmrh. er gerð grein fyrir því að eðlilegt sé að draga frá þegar innheimtuhlutfall er reiknað, í fyrsta lagi eftirstöðvar, þ.e. sem ekki hefur verið innheimt á árunum á undan.
    Í öðru lagi er talað um að skattar, sem lagðir eru á samkvæmt áætlun skattstjóra, séu tíðum hærri en sanngjarnt sé og innheimtist illa og það þurfi að taka tillit til þess.
    Gerð er grein fyrir því að óeðlilegt sé að taka að fullu opinber gjöld sem lögð hafa verið á aðila sem síðan lenda í gjaldþrotaskiptum. Við það að lenda í gjaldþrotaskiptum yrðu þessi gjöld fryst og það er sömuleiðis talið óeðlilegt að reikna inn í það sem er óinnheimt það sem hefur tapast við gjaldþrot.
    Í fjórða lagi er talið að dráttarvextir, sem reiknaðir eru á þau gjöld sem lenda inn á þau svið sem ég hef hér rakið, séu oftaldir. Auðvitað er eðlilegt að gera grein fyrir því að hve miklu leyti það sem skortir á að innheimta sé fullkomin stafi af slíkum aðstæðum og það er í rauninni gert í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisins. Að því er vikið hjá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings að það beri að líta á þessi atriði. T.d. er sagt að gjaldþrot hafi farið vaxandi og gerð grein fyrir hversu mjög þau hafa vaxið á síðustu árum og þar sé að finna orsakir fyrir því að innheimta sé ekki í eins góðu lagi og vera þyrfti.
    Ég tel óeðlilegt að undanskilja alla þessa þætti þegar verið er að draga það fram hvernig innheimta hafi tekist. Ég tel að þá væri ranglega að verki staðið og ég tel að hæstv. fjmrh. sé í raun að búa til ágreiningsefni um það sem ekki þarf að deila. Ef maður vildi hártoga þessa hluti er auðvitað hægt að segja að það mætti bæta við einum lið enn sem ekki ætti að taka með þegar innheimtuhlutfallið er metið, en það eru þeir sem ekki vilja borga. Ef þeir væru líka undanskildir þá væri innheimtan auðvitað 100%.
    Þessi efni eru fagleg og eiga ekki að þurfa að vera deiluefni en ég tel að komast megi fram hjá því með því að gera skilmerkilega grein fyrir því að hve miklu leyti skortir á innheimtuna vegna allra þessara atriða sem hér hafa verið talin og menn þurfi þá ekki að greina á um þau efni sem eru mjög svo fagleg.
    Hæstv. fjmrh. líkti hv. Alþingi við aðalfund í einhverju fyrirtæki. Ég kann ekki við þá samlíkingu. Samkvæmt stjórnarskránni er eigi heimilt að greiða úr ríkissjóði án heimilda Alþingis og ég tel að nokkur munur sé á stjórn í fyrirtæki sem jafnan fer með vald í umboði aðalfundar á milli aðalfunda og hæstv. ríkisstjórn, að hún þarf að sækja sitt vald til Alþingis og það meira að segja hverju sinni sem greiðslur fara fram án þess að heimildir hafi áður verið gefnar. Þess vegna tel ég eðlilegt og nauðsynlegt að heimilda sé leitað í fjáraukalögum áður en greiðslur eru inntar af hendi enda er þá farið að í samræmi við það sem stjórnarskráin kveður á um.
    Ég held að ef segja ætti eitt um þann ríkisreikning, sem hér liggur fyrir, þá er það einna alvarlegast hve skuldastaða ríkissjóðs er orðin slæm og hvað halli ríkissjóðs á mörgum árum hefur leitt til alvarlegrar stöðu. Í niðurstöðum efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs sést að peningalegar eignir ríkissjóðs

námu tæpum 79,8 milljörðum kr. í árslok 1991 og að þær höfðu aukist um 18% frá ársbyrjun, en heildarskuldir að meðtöldum skuldbindingum vegna lífeyrisréttinda námu 211 milljörðum kr. Hafa skuldir A-hluta ríkissjóðs því aukist í árslok 1991 um 16,7% frá ársbyrjun. Þannig jók ríkissjóður peningalegar skuldir sínar umfram eignir á því ári, 1991, um 18,1 milljarð kr. Þær tölur og sú niðurstaða kemur þeim vitaskuld ekki á óvart sem hafa fjallað um fjármál ríkisins á árinu 1991 og árunum þar á undan vegna þeirra miklu erfiðleika sem fram komu þá í ríkisbúskapnum og þess mikla halla sem þá var á ríkissjóði.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, rekja hér þær tillögur sem yfirskoðunarmenn gera í VIII. kafla skýrslu sinnar, en þar leggja yfirskoðunarmenn til við Alþingi að ríkisreikningurinn fyrir árið 1991 verði samþykktur með svofelldum breytingum, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Að framlag að fjárhæð 1.633 millj. 431 þús. kr. til Framkvæmdasjóðs Íslands, fjárlagaliður 01-173, verði ekki samþykktur sem útgjöld ársins 1991 en færist sem framlag í ríkisreikning ársins 1992.
    2. Að færð sé til baka lánveiting endurlána ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn að fjárhæð 287 millj. 336 þús. kr. en á móti lækki ógreidd gjöld um sömu fjárhæð.
    3. Niðurstöðutölur reikningsins breytist í samræmi við þetta.``
    Rétt er að taka það fram vegna þess að ekki hefur verið gert að umtalsefni að lánveiting endurlána ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn er með þeim hætti að endurlán ríkissjóðs lána Hafnabótasjóði. Hafnabótasjóður lánar í ríkishluta framkvæmda við Sandgerðishöfn og enginn ber kostnað af láninu og enginn endurgreiðir lánið nema ríkissjóður. Með tilliti til þessa er í raun um framlag ríkisins að ræða sem tekið er að láni og ríkissjóður lánar sjálfum sér með viðkomu á tveimur stöðum. Rétt er að geta þess að ef farið verður að tillögu okkar yfirskoðunarmanna varðandi þessa færslu hefur það engin áhrif á niðurstöðu ríkisreiknings. Það er álit okkar að hér sé ekki farið að í samræmi við hafnalög og ekki farið eðlilega að af hálfu ríkissjóðs.
    Ég vil svo að síðustu vísa til þess að þar sem fjáraukalög fyrir árið 1991 hafa ekki verið afgreidd er það auðvelt og jafnframt skylt að afgreiða þau á sama hátt og það frv. sem hér liggur fyrir þannig að saman fari svo sem lög kveða á um fjárhæðir í báðum þessum gögnum.