Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 19:03:19 (7038)

     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að í raun og veru er ekki eðlismunur á beinum útgjöldum eða greiðslum úr ríkissjóði og yfirtöku skuldbindinga. Þær ber að færa í A-hluta, þær ber að færa í fjárlögum og fjáraukalögum annars vegar og í ríkisreikningi hins vegar þannig að það er ekki eðlilsmunur á því.
    Ég vek athygli á því sem segir á bls. 12 í greinargerð með þessu frv., með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra, sem vildi sýna góða stöðu ríkissjóðs á tilteknu ári, gæti þannig einfaldlega frestað framlagningu frv. til formlegrar staðfestingar á niðurstöu sem efnislega lá þó fyrir.``
    Það er eins hægt að snúa þessu við og segja: Ráðherra sem vildi sýna góða niðurstöðu á tilteknu ári gæti flýtt slíkum greiðslum. Ég er ekki að drótta því að hæstv. fjmrh. En það eru nýir hættir að taka það upp að flýta slíkum færslum umfram það sem heimildir Alþingis segja til um.