Bætur vegna þorskaflabrests

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 10:41:32 (7042)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að gefa hv. þm. Finni Ingólfssyni tækifæri til þess að halda áfram almanaksrannsóknum sínum. En ég verð að segja það að mér þykir það furðulegt að hlýða á málflutning hv. þm. Jóns Kristjánssonar þegar hann talar um að þetta beri vitni um úrræðaleysi hæstv. ríkisstjórnar. Er ekki staðan einmitt sú að ríkisstjórnin hefur núna verið að leggja fram tillögur í sjávarútvegsmálum, sem hafa bara, virðulegi þingmaður, hlotið nokkuð góðar undirtektir hjá Framsfl., hafa m.a. leitt til þess að annar hv. þm. stjórnarandstöðunnar, Jóhann Ársælsson, lýsir því yfir í Morgunblaðinu í dag að það sé bersýnilegt að Framsfl. styðji þessar tillögur. Þróunarsjóðurinn og sú nýbreytni sem í honum felst er auðvitað ekkert annað en viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að gera útgerðinni kleift að laga sig að breyttu ástandi stofnanna og það var einmitt hugsunin á bak við þá tillögu sem hæstv. forsrh. bar fram á síðasta sumari. Það er hins vegar þannig að hún var umdeild eins og hæstv. forsrh. hefur sagt hér frá, en mér þykir í þessu tilefni rétt að fá fram afstöðu Framsfl. til þeirrar tillögu. Er hv. þm. Jón Kristjánsson reiðubúinn til þess að útdeila 450 millj. til samfélagsins?