Alþjóðlegur sjávarútvegsskóli

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 10:56:02 (7049)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þetta ágæta svar. Það er gott að heyra að hæstv. menntmrh. skuli hafa ákveðið að setja á fót nefnd til þess að endurskoða og kanna með hvaða hætti samstarf einstakra skóla í sjávarútvegi getið orðið til þess að það geti skipulagslega séð orðið til að hugsanlega auka útflutningstekjur okkar á sviði sjávarútvegs með því að flytja þekkingu úr landi.
    Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, talar hins vegar um málið út frá háskólastiginu einu og sér ef ég skildi hans ræðu rétt hér áðan. Ef hann gerir það ekki, hv. þm., þá furðar mig dálítið sú ræða er hann flutti úr þessum ræðustóli er við mæltum fyrir till. til þál. um sameiningu skóla á sviði sjávarútvegs, þ.e. Vélskóla, Stýrimannaskóla og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði vegna þess að sú þáltill. gerir einmitt ráð fyrir auknu samstarfi þessara skóla, öflugum sjávarútvegsskóla sem geti tekið við þessu hlutverki sem hv. þm. er að spyrja hér um.