Heimili fyrir alfatlaða

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:00:14 (7051)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Á löggjafarþinginu 1983--1984 var flutt till. til þál. um vistunarvanda öryrkja. Flm. voru Helgi Seljan, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Kristín S. Kvaran. Í tillögu þessari fólst áskorun á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að leysa vandamál þeirra öryrja sem eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, ,,eiga sakir andlegrar og líkamlegrar fötlunar örðugt um vistun á þeim stofnunum sem fyrir eru.``
    Þessi tillaga hlaut þá afgreiðslu að meiri hluti hv. allshn. taldi ekki þörf á tillögunni þar sem eins og þar segir, í bréfi ráðherra komi fram m.a. ,,að fulltrúi ráðuneytisins í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja samkvæmt lögum nr. 47/1979 hefur flutt um þetta mál ályktun í nefndinni sem samþykkt var í lok október sl.`` Þar með vísar meiri hluti nefndarinnar tillögunni frá með rökstuddri dagskrá. Minni hluti nefndarinnar sem var við Jóhanna Sigurðardóttir mótmæltum þessu, en þannig fór afgreiðslan.
    Síðan gerðist svo sem ekkert í málefnum þessara sjúklinga sem allra erfiðast eiga þar til Lionshreyfingin á Íslandi gengst fyrir söfnun og, eins og menn muna, seldi rauða fjöður. Þátttaka var gífurlega mikil þannig að það söfnuðust milli 26 og 27 millj. kr. og mun hafa fylgt því það skilyrði að byggt yrði hús í nágrenni við Reykjalund. Þetta var raunar gert og þar stendur nú hús sem styrkt var síðan úr Framkvæmdasjóði fatlaðra með miklum fjármunum. En því miður er enginn í þessu húsi og það stendur þarna til einskis gagns og hefur svo verið um alllangt skeið. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. heilbrrh. á þskj. 823:
  ,,1. Hver var byggingarkostnaður heimilis fyrir alfatlaða sem byggt var í landi Reykjalundar?
    2. Hvernig er byggingin fjármögnuð, með
    a. söfnunarfé,
    b. framlögum úr Framkvæmdasjóði fatlaðra,
    c. öðru?
    3. Hvenær var húsið fullbyggt?
    4. Hvað var gert ráð fyrir mörgum vistmönnum við hönnun hússins?
    5. Hvenær verður húsið tekið í notkun?``