Heimili fyrir alfatlaða

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:08:45 (7054)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það var fyrrv. heilbrrh. sem tók ákvörðun um að taka við þessu söfnunarfé og verja því eins og gert var ráð fyrir og stefna að því að þarna skyldi opnað sambýli fyrir fjölfatlaða þannig að sú ákvörðun lá fyrir þegar ég kom í ráðuneytið. Einu afskiptin sem ég hef haft af málinu frá því að ég kom að því er sú að leggja mig fram um að reyna að útvega það fé úr ríkissjóði í gegnum Framkvæmdasjóð fatlaðra sem vantaði til þess að þetta söfnunarátak Lionsmanna gæti skilað þeim árangri sem að var stefnt sem eins og fram kemur voru 44 millj. til viðbótar við þær 34 sem skilað var.
    Þeir alvarlega fjölfötluðu einstaklingar sem gert var ráð fyrir að færu inn í þetta sambýli eru flestir, ég held allir, á stofnunum í dag, þ.e. á sjúkrahúsum. Það var gert ráð fyrir því að þeir flyttust inn á þetta sambýli og eins og ég sagði að rekstrarkostnaðurinn vegna þessara 7 vistmanna yrði um 45 millj. kr. á ári. Læknarnir sem að þessu standa höfðu samband við mig og sögðu að þeir teldu við nánari athugun að þeir mikið fjölfötluðu einstaklingar sem upphaflega var ráðgert að vista á þessu sambýli væru ekki vel fallnir til vistunar á slíkum stofnunum, þeir þyrftu miklu meiri umönnun og miklu meiri gæslu og miklu meiri heilbrigðisþjónustu heldur en þarna var hægt að veita. Þeirra ráð eru þau að það séu minna fatlaðir einstaklingar vistaðir á þessu sambýli sem dregur úr rekstrarkostnaði vegna sambýlisins þannig að það lækkar þá fyrirsjáanlega rekstrarkostnað úr 45 millj. á ári í um það bil 25 millj. Þá verður ekki séð annað heldur en þeir fjölfötluðu einstaklingar sem rætt hefur verið um séu enn í miklum vanda staddir. Þeir eru nú vistaðir á ýmsum sjúkrastofnunum þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkri vistun og ég sé ekki fram á að það verði miklar breytingar á því alveg á næstunni.