Viðræður við Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:25:12 (7060)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :

    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa staðið yfir viðamiklar viðræður milli Evrópuríkjanna í EFTA og Evrópubandalaginu um viðskipti og samskipti á fleiri sviðum en í milliríkjaviðskiptum. Með þessu hefur orðið til samningur sem nú er til umfjöllunar hjá velflestum aðildarríkjum þessara tveggja bandalaga, m.a. hér fyrir Alþingi Íslendinga, og væntum við þess að hann verði staðfestur innan nokkurra mánaða og leiði til umfangsmikilla samskipta þessara ríkja og verulegrar aukningar í milliríkjaviðskiptum. Okkur Íslendingum er mjög svo nauðsynlegt að eiga greiðan aðgang að mörkuðum annarra ríkja. Reynslan kennir okkur að fríverslun, þ.e. frjáls verslun, markaðsaðgangur og markaðssetning hefur reynst okkur betur heldur en hin eldri leið þar sem höft og skammtanir réðu ríkjum.
    Með þessum samningum kemur fram viðamikil niðurfelling á tollum og almennar leikreglur munu ráða ríkjum fremur en höft og bönn sem ég nefndi áðan. Á undanförnum áratugum höfum við sveiflað markaðssókn okkar. Í síðari heimsstyrjöldinni sóttum við mjög inn á markaði Norður-Ameríku. Síðan með auknum samskiptum okkar við Evrópuríkin hefur markaðssókn okkar færst til austurs, en það má sjá þess merki í Ameríku að þar er að vænta verulegrar uppsveiflu á efnahag og jafnvel að suður til Mið-Ameríku eða í Mexíkó sé að vænta verulegs hagvaxtar og þannig sé þar að myndast viðskiptasvæði sem sé mjög álitlegt í næstu framtíð. Vegna þessa og vegna þess sem orðið hefur í viðræðum milli ríkja um mótun efnahagsbandalaga, tollabandalaga, fríverslunarbandalaga, þá er ljóst að heimurinn er um þessar mundir að skipast í nokkur svæði sem hafa nánari viðskipti sín á milli heldur en á milli þessara svæða. Vegna þessa spyr ég hæstv. utanrrh. hvort hann hyggist undirbúa og fara fram á viðræður við Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku, svokölluð NAFTA, um fríverslun, um markaðsaðgang, samskipti og samstarf á fleiri sviðum, til að mynda þeim sviðum sem samningur um Evrópskt efnahagssvæði tekur til.