Framleiðsla og sala á búvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:43:33 (7065)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Auðvitað er laukrétt hjá hv. þm. að öll þau mál sem snúa að sauðfjárræktinni eru misjöfn um þessar mundir. Þegar búvörusamningurinn var gerður sáu menn ekki það erfiða atvinnuástand fyrir sem nú er og þann mikla samdrátt sem orðið hefur í neyslu á dilkakjöti og á það raunar við um búvörulögin þegar þau voru sett á sínum tíma 1985. Má segja að allan tímann síðan hafi menn verið að reyna að bregðast við minni neyslu á dilkakjöti. Vorið 1991 var ákveðið að stemma svo stigu við framleiðslunni að ríkið hætti öllum útflutningsbótum, en bændur bæru sjálfir ábyrgð á sinni framleiðslu en þó var ákveðið að þeir skyldu fá beingreiðslur sem næmi helming búvöruverðsins eins og hv. þm. og raunar flestum er kunnugt um.
    Þegar menn undirrituðu samningana á sínum tíma, þá höfðu þeir gert sér vonir um að fleiri mundu hverfa frá sauðfjárrækt en síðar reyndist og höfðu einnig vonir um að minni framleiðsluréttur mundi vakna, sem hafði m.a. legið niðri vegna riðu. Á hinn bóginn er nú komið á daginn að flestir reyna að halda áfram að búa á jörðum sínum í von um betri tíð og kannski vegna þess að þeir sjá ekki önnur úrræði og eru að leita fyrir sér í nýjum hliðargreinum búskaparins, ferðaþjónustu, tamningu hrossa eða einhverju þvílíku.
    Með þessu frv. er verið að reyna að auðvelda þessi skipti. Opnaður er möguleiki fyrir því að bændur geti haldið beingreiðslunni þó þeir snúi sér að störfum við gróðurvernd eða landgræðslu á mjög viðkvæmum svæðum. Í kjördæmi okkar, Norðurl. e., er auðvitað augljóst að benda á Mývatnssveit eða Bárðardal í því samhengi. Jafnframt er opnaður möguleiki á því að aldraðir bændur eða sjúkir geti dregið úr

framleiðslu en þó haldið beingreiðslum. Gallinn við framleiðslukerfi landbúnaðarins eins og það hefur verið er ósveigjanleiki þess sem við eigum reyndar mörg dæmi um og sum mjög dapurleg frá liðnum árum þegar bændur hafa orðið fyrir stórkostlegu fjárhagslegu tjóni vegna þess að þeir hafa fengið alvarlega sjúkdóma sem þeir hafa síðan náð sér eftir. Með þessu frv. er verið að reyna að girða fyrir að slíkt endurtaki sig.
    Vitaskuld rétt hjá hv. þm. að þeir bændur sem vilja notfæra sér það svigrúm á markaðnum innan lands, sem framkvæmd þessara laga mundi gefa, fá auðvitað ekki beingreiðslur. Þeir fá þó þann hluta verðsins sem ætlað er að standa undir föstum og breytilegum kostnaði við búreksturinn sem er auðvitað léttir á búinu. Það þýðir þá um leið að þeir þurfa ekki að taka af launahlutanum til að mæta þeim kostnaði á meðan. Við sjáum það víða í sambandi við nautakjötsframleiðsluna núna að bændur telja sig hafa hag af því að framleiða nautakjöt þó svo þeir geri sér grein fyrir því að slík framleiðsla gefur lítið eða ekki neitt upp í launalið búsins en á hinn bóginn dugir til þess að mæta breytilegum og föstum kostnaði við búreksturinn og er þá með öðru til þess fallið að létta undir. Ekki má heldur gleyma því að síðustu dilkarnir, sem framleiddir eru, eru auðvitað ódýrastir og má raunar segja að í sumum tilvikum muni slíkt svigrúm koma út sem bein hækkun á launalið bóndans vegna þess að kostnaðurinn fellur til hvort sem er. Með frv. er því verið að reyna að gera hvort tveggja í senn að auka svigrúmið innan þess kerfis, sem búvörusamningurinn hefur rígskorðað, og hins vegar að veita nokkurt svigrúm fyrir bændur að þeir geti losnað við offramleiðslu sína á heimamarkaði á sama verði og framleiðslan er seld.
    Eins og nú standa sakir eru menn að reyna fyrir sér á erlendum mörkuðum hvort hægt sé að finna einhvers staðar markað fyrir dilkakjöt á öðrum forsendum en áður þegar ríkisvaldið ábyrgðist mismuninn. Ríkisvaldið hélt uppi greiðslum fyrir útflutt dilkakjöt hversu lítið sem fékkst fyrir það. Auðvitað geta bændur ekki haldið slíku áfram á eigin ábyrgð. Þess vegna eru menn í alvöru að reyna mjög til þess að finna einhverja markaði og ég hygg að þeir mundu telja það góðan ávinning ef þeir gætu fengið sama verð fyrir kjötið og fæst á mörkuðum innan lands.
    Hv. þm. spurði hvort það bæri að skilja frv. svo að uppi væru ráðagerðir um að svigrúm sem skapaðist með þessum hætti ætti að nýtast sumum byggðarlögum en öðrum ekki. Með öðrum orðum hvort ætti að reyna að koma til móts við þau byggðarlög sem væru háðust sauðfjárframleiðslunni. Ég álít að það sé nauðsynlegt að í lögunum sé slík heimild en það mál hefur ekki verið rætt við forustumenn Stéttarsambands bænda. Ég vil á hinn bóginn minna á svæði eins og Dalasýslu. Ég var þar nú yfir páskana í góðu yfirlæti og átti tal bæði við sveitarstjórnarmenn og forustumenn í búnaðarfélaginu þar. Auðvitað er kvíði manna yfir tekjusamdrættinum mjög mikill einmitt þarna vegna þess að þar er ekki að öðru að hverfa en því sem beinlínis skapast vegna umsvifa í landbúnaði eftir að gegnumakstur um Dali hefur dottið niður með Steingrímsfjarðarheiði og umsvif í ferðaþjónustu eru þar lítil.
    Auðvitað eru fleiri slík svæði í Þingeyjarsýslum, Húnavatnssýslum, Múlasýslum, Strandasýslu og víðar þar sem möguleikar bænda til tekjuöflunar til hliðar við búskapinn eru minni en annars staðar þar sem búin eru í miklu nábýli við þéttbýlisstaði og bjóða upp á ótal aðra möguleika. Þetta mál er sem sagt ekki útrætt milli landbrn. og bændasamtakanna, en það hefur verið opnað fyrir þennan möguleika. Þessi möguleiki verður til umræðu og ég hygg raunar að allir hljóti að vera sammála um það að nauðsynlegt sé að brjóta upp kerfið með jákvæðum hætti þannig að sauðfjárbúin megi styrkjast. Það er nauðsynlegt að þau stækki og það er nauðsynlegt að reyna að hafa stefnuna í landbúnaðarmálum á þann veg að efnahagur bænda megi á ný fara batnandi.