Framleiðsla og sala á búvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:59:01 (7069)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef ekki samninginn hér við höndina en ég man það áreiðanlega rétt að í þessari tilvitnuðu grein var talað um að það bæri að stefna að þessu markmiði. Það var ekki fyrirheit sem var í gadda slegið, eins og forseti neðri deildar Alþingis sagði nú stundum. Þar var um fyrirheit að ræða sem gefið var í tilefni af búvörusamningnum og búist við því að geta lagt meira til landgræðslustarfa í framtíðinni heldur en sú ríkisstjórn sem þá sat hafði sjálf treyst sér til að gera. Auðvitað var slíkt fyrirheit gefið í von um það að efnahagsástand hér yrði svipað áfram og það var þá --- og er ég þá að tala um verð á sjávarafla erlendis o.s.frv., hin ytri skilyrði þjóðarbúsins. Þær forsendur hafa allar breyst. Og þó að það sé rétt að það sé hollt mönnum að fást við landgræðslustörf og líka rétt að það geti verið gott þegar illa árar í atvinnulífi að ríkið hlaupi undir bagga, þá er hitt líka rétt að haustið 1988 var gert svo mikið af slíkri eyðslu að við höfum síðan stunið þungan undan því og erum enn að reyna að ná okkur eftir þær röngu ráðstafanir sem ráðist var í þá um haustið. Staða ríkissjóðs er mjög bág og við getum ekki eins og þá bara ausið og ausið án þess að hafa gát á hlutunum. Við verðum að svara fyrir fortíðina, það er nú einu sinni svo, og reyna að bæta fyrir þær syndir sem áður hafa verið drýgðar og það er ástæðan fyrir því að við eigum nú ekki digra sjóði sem hægt er að ausa úr.